Blackberry Z10 umfjöllun – Annar bjargvætturinn

Það er ekki langt síðan Blackberry (áður RIM) framleiddi eina vinsælustu snjallsíma heims.  Þeir voru nánast einir um markaðinn Í Bandaríkjunu og áttu snjallsímar með Windows Mobile eða Symbian lítið í kanadíska risann. Þeir sigruðu hjörtu kerfisstjóra með auknu öryggi og gagnaþjöppun. Blackberry vissi líka hvernig viðskipti virkaðu og spilaði náið með fjarskiptafélögunum. Þeir hjálpuðu þeim að þróa vörur sem hentuðu Blackberry símum. Á örskömmum tíma sigruðu þeir (fyrirtækja)heiminn. Allt þetta breyttist árið 2007 þegar Apple gaf út iPhone. Kóngurinn Nokia og spaðinn Blackberry reyndu trekk í trekk að þróa “iPhone killer” og gáfu út hverja tímaskekkjuna á fætur annarri. Nú hafa bæði fyrirtækin þurft að selja allt undan sér til að fjármagna taprekstur og eru bæði að leggja allt undir með nýjum stýrikerfum og hetjutækjum. Blackberry Z10 er hetjutæki RIM og Blackberry 10 nýja stýrikerfið.

bbz10

Síminn

Blackberry Z10 er fyrsti síminnn sem gefur undan í RIM hönnun. Hann er alveg eins og hinir snertiskjássímarnir, en er samt Blackberry sími. Þetta er samt ekkert lestarslys eins og Blackberry Torch eða Storm (sem Stephen Fry kastaði út um glugga ). Þetta er aðlaðandi og vel úthugsað tæki. Síminn kemur í hvítum og svörtum lit. Innvolsið er, í fyrsta skipti hjá Blackberry, á pari við það besta á markaðnum. Síminn er með öflugan 1,5 GHz tvíkjarna örgjörva, 2GB vinnsluminni, 16GB geymsluplássi og microSD rauf. Skjárinn er 4,2″ sem er frábær stærð og virkar síminn því vel í einni hendi. Hann er bjartur og skarpur (768×1280 upplausn). Síminn er með leifturhraða 8MP myndavél með sjálfvirkum fókus og björtu flassi. Þetta kallar maður “top-of-line”, eða svona alveg þangað til öll nýju flaggskipin koma á markað (HTC One, Galaxy S4, Optimus G2). blackberry-z10-angle Hönnunin er nokkuð aðlaðandi og minnir framhliðin aðeins á bakhliðina á iPhone 5. Síminn er svartur og er með mjög þægilegu gripi að aftan. Síminn er þó úr plasti og gúmmí, sem er nothæft en ekki eins aðlaðandi og álið á iPhone eða glerið á Nexus. Þrátt fyrir ódýr hráefni, þá er síminn samt velbyggður. Ytra byrðið gefur ekkert eftir og ekkert brak í gangi. Start-takkinn er ofan á símanum í miðjunni. Hljóðstyrkur og flýtihnappur fyrir hljóðskipanir eru ofarlega á hægri hlið símans. Þetta er fínt takka úrval og mjög nothæf hönnun. Myndavélin er mjög góð og nær skörpum myndum. Myndavélin býður upp á nokkra filtera (í anda Instagram) til að breyta myndum, sem komu mjög skemmtilega út. Það er ekkert mál að deila efni síðan út á hina ýmsu miðla. Z10 er svo með myndavél að framan með 2MP skynjara.

Stýrikerfið

Blackberry-10-Will-Be-Sold-Informations Blackberry 10 er arftaki eldri Blackberry stýrikerfa aðeins að nafninu til. Í raun er þetta algjörlega nýtt stýrikerfi frá grunni sem byggir á QNX stýrikerfinu sem Blackberry keypti fyir 4 árum síðan . Það minnir raunar meira á Meegoo en nokkurn tíman Blackberry 6, sem er reyndar ekki slæmt. Það eru engir takkar á framhlið símans til að stýra viðmótinu. Stýrikerfið notar skjáaðgerðir (e. gestures) oftast, í bland við “back” takka sem er inni í flestum öppum. Maður rennir upp frá neðsta hluta skjásins til að loka appi og fara aftur á aðalskjá. Á aðalskjá er að finna átta nýleg forrit og hægt er að loka þeim ef þess þarf. Ef maður rennir frá vinstri hlið skjásins til hægri á aðalskjá þá fær maður tilkynningar. Simon vill sjá meira af skjáaðgerðum í öðrum stýrikerfum! Mucho gusto.

Tilkynningarskjár Blackberry 10 er mun betri en það sem iOS og Windows Phone bjóða upp á.. fyrir utan að Facebook og Twitter tilkynningar hverfa ekki þegar þær eru skoðaðar í gegnum öppin (bara í gegnum tilkynningarskjáinn). Hægt er að renna niður frá efsta hluta skjásins til að fá flýtitakka fyrir hljóð, þráðlaust net og margt fleira. Við vöndumst þessu mjög fljótt og eftir einungis viku notkun þá reyndum við í nokkra daga að renna upp til að loka appi á Android símum. Þetta er þægilegt leiðarkerfi en það þarfnast smá fínpússunar og þá sérstaklega tilkynningarglugginn og flýtileiðagardínan. Við værum til að geta nálgast tilkynningar þegar maður er staddur inn í appi, en það er einungis í boði frá aðalskjá. Svo værum við til í að geta breytt flýtileiðunum.

blackberry-10-arrives-why-get-excited-4

Vafrinn er góður og snöggur. Við söknuðum þó sign-in eiginleika, sem margir vafrar bjóða upp á, sem samræmir stillingar og bókamerki milli tækjana þinna. Aðdráttur virkar vel, bæði með því að klípa og tvísmella. Við prófuðum Fastbook HTML5 vefinn og HTML5test og fengum góðar niðurstöður.

Lyklaborðið fékk mikla þróun og er mjög sniðugt. Það lærir hratt af þér og þinni skilaboðasögu. Útfrá því býður lyklaborðið þér upp á flýtileiðir fyrir ofan takkana. Sjá meira hér: http://techcrunch.com/2013/01/30/x10-launch/. Þetta er mun betra lyklaborð en er að finna á Windows Phone og iOS. Lyklaborðið á samt erfitt með stutt orð á íslensku eins og “á”, “í” og “ég”, og það þarf að halda inni tökkum til að fá þessa íslensku bókstafi. Það eru mjög fá stýrikerfi/öpp sem leysa það, en eitt af okkar uppáhöldum er appið fyrir Android sem fer létt með íslenskuna.

Stýrikerfið er samt sem áður mjög grunnt og ósveigjanlegt. Við hugsuðum mikið til Windows Phone á meðan prófanir stóðu yfir. Stýrikerfin höfða bæði til fyrirtækjamarkaðar og eru örugg og hröð en á kostnað sveigjanleika. Ótrúlegt en satt, þá voru til fullt af góðum öppum á Blackberry World markaðnum. Við fundum fullt af leikjum og öppum. Facebook og Twitter öppin eru ágæt (a.m.k. samanborið við Windows Phone þar sem Facebook appið er nánast ónothæft). Blackberry World hefur verið eini app markaðurinn sem hefur gefið hagnað, ásamt iOS.

Okkur líkar mjög vel við Blackberry 10, en það þarf að þróa það frekar. Alveg eins og Windows Phone 7 var fyrir Windows Mobile, þá er hér á ferðinni “endurræsing” á stýrikerfinu. Þetta er allt annað en hefur verið, og lítið um arfleifð fyrri Blackberry stýrikerfa (nema þá í stillingum). Við vonum að þetta stýrikerfi nái að halda RIM á markaði en við sjáum ekki fram á að þeir næli sér í mikla hlutdeild á næstunni. Sérstaklega þar sem þeir höfða næstum ekkert til ört stækkandi markaða í Asíu.

Uppsetning og rafhlöðuending

blackberry-10-os-review

Uppsetningin gekk næstum snurðulaust fyrir sig og við náðum að setja upp Facebook, Twitter, Gmail, Google Apps og IMAP aðganga á örfáum mínútum. Símaskráin hikstaði eitthvað eins og okkur vantaði einhverja tengiliði frá Gmail (einn af okkur setti upp Gmail á beta útgáfu af stýrikerfinu, sem mögulega hafði áhrif á þetta).

Ending rafhlöðu er einfaldlega hræðileg. Síminn endist í undir 9 tíma með póst í gangi. Hér þarf eitthvað að gera og það strax. Þeir sem geta sleppt því að sækja póst strax og hann kemur, ná kannski rétt yfir 15 tíma með eðlilegri notkun. Aðrir símar, við sömu notkun, eru að ná yfir 20 tíma endingu. Þetta er óboðlegt, sérstaklega í ljósi þess að Blackberry er að reyna að höfða til fyrirtækja.

Niðurstaða

Það er margt jákvætt við Z10 og nýja Blackbery 10 stýrikerfið. Þetta er vandaður og góður sími með margar ágætar nýjungar. Rafhlöðuendingin fellir hinsvegar vöruna. Við getum ekki mælt með þessum síma nema þú kaupir þér auka rafhlöðu og hefur símann í hleðslu í vinnunni. Þessi sími hefði fengið 4 stjörnur hefði rafhlaðan náð meira en 12 tímum við eðlilega notkun.

Kostir

  • Þægilegt viðmót
  • Skjáaðgerðir
  • Þétt hönnun

Gallar

  • Ending rafhlöðu of stutt
  • Stýrikerfi þarf frekari þróun
  • Takmarkað App framboð

Simon gefur Blackberry Z10 3 stjörnur af 5 stjörnum mögulegum.