Samsung Galaxy Note 3 – Umfjöllun

Samsung Galaxy Note 3 er nýjasta flaggskip Samsung. Síminn er arftaki Note II sem kom út í fyrra og fékk fullt hús stiga frá Símon. Fyrir þá sem hafa notað Note II eða sambærilega síma þá er margt kunnuglegt. Note 3 er staðsettur fyrir ofan Galaxy S4 í spekkum og býður upp allt sem S4 gerir og gott betur. Þeir sem nota iPhone froðufella úr hlátri þegar þeir sjá mann með Note 3 og maður þarf endalaust að afsaka sig: “nei hann passar sko alveg í vasann”. Símon hefur áður prófað Note II og okkur fannst hann frábær. En stendur Note 3 undir væntingum eða er tími stóru símanna liðinn?

Hönnun

Síminn er lítið breyttur frá fyrri útgáfu. Hann er aðeins nettari og stílhreinni. Bakið á símanum er með leðuráferð og gervisaumum. Það má deila um fegurðina í útlitinu en kosturinn við áferðina er að síminn helst betur í hendi en fyrri plastbakhliðin. Síminn er léttari, þynnri og mjórri en Note II en örlítið hærri. Það er nokkuð mikið afrek í ljósi þess að skjárinn stækkar úr 5.5″ í 5.7″. Síminn passar ágætlega í vasa nema þá allra þrengstu. Hann fer einnig ágætlega í hendi en nokkrar aðgerðir geta verið erfiðar með annarri hendi. Eins og með Note II þá  hefðum viljað sjá viðmótið aðeins meira aðlagað að einhendisnotkun.

samsung-galaxy-note-3-rear-camera-macro

Síminn kemur með snertipenna sem virkar mjög vel (þökk sé digitizer). Til stuðnings við hann koma fullt af öppum til að skissa og taka niður glósur. Svo er ein nýjung: flýtiskipanir með snertipennanum. Hægt er að ýta stutt á skjáinn og upp kemur hálfur hringur með fjórum flýtivalkostum. Ef maður lærir inn á snertipennan þá getur hann nýst manni við marga hluti. Samsung hefur einnig reynt að þróa aðgerðir sem henta þeim sem vilja nota símann einhendis. Hér má sjá myndband af þeim aðgerðum.

Galxy-Note3_002_front-with-pen_Jet-Black

Skjárinn

Note 3 er með 0,2 tommu stærri skjá (horn í horn) en Note 2 sem er hreint út sagt glæsilegur. Hann býður upp á fulla háskerpu (1080p) og nýtir sér Super AMOLED tæknina sem Samsung símarnir eru þekktir fyrir. Þetta er besti skjárinn sem við höfum séð frá Samsung og einn sá besti í boði í dag. Skjárinn er það stór að það er mjög þægilegt að vafra, en hann er nógu stór svo síminn passi í vasa.

IMG_20130928_094624

Innvols

Þetta er einn fyrsti síminn sem býður upp á Snapdragon 800 kubbasett sem er hannað fyrir spjaldtölvur (sem snjallsímarnir Sony Xperia Z Ultra og LG G2 nota einnig). Note 3 er því með 2,3 GHz fjórkjarna Krait örgjörva og 3GB vinnsluminni, sem gerir hann að einum öflugasta snjallsíma á markaðinum. Okkur fannst síminn einn sá viðbraðgsfljótasti sem við höfum séð, en það voru þó örlitlir hikstar sem Android notendur ættu að þekkja. Það var helst þegar maður fór fljótt á milli heimaskjáa með skjátækjum (e. widgets) eða opnaði stórar vefsíður (Vísi eða MBL). Svona í samanburði þá fundum við fyrir aðeins minna hökti á Xperia Z Ultra í viðmóti símans og okkur finnst iPhone 5X símarnir mun hraðari að opna vefsíður (iOS7 + Safari gerir það að verkum á öllum 5 týpunum). Þetta hökt er algert smáatriði og maður finnur nær ekkert fyrir hökti í raun. Síminn er einn sá hraðasti í dag þrátt fyrir að flestir framleiðendur svindli á mælingum (e. benchmarks). Ef Samsung stendur sig í uppfærslum ætti Note 3 að ráða við helstu forrit næstu árin. Rafhlaðan er risastór (3200 mAh), rétt eins og síminn, og endist hún í næstum tvo daga með mikilli notkun. Okkur fannst síminn duga aðeins styttra en Note II, en það var ekki vísindalega prófað af okkur. Hvort sem það er rétt eða ekki er rafhlöðuendingin frábær.

Myndavél

Myndavélin er mjög góð og það er sérstaklega gaman að taka myndir með svona stóran skjá til að skoða þær á. Þetta er 13 megadíla myndavél með sjálfvirkum fókus og LED flassi.  Myndavélin er sú sama og S4 og er mjög góð. Samsung hefur ekki elt HTC, Nokia og Apple í baráttunni við myndir í lélegum birtuskilyrðum. Myndavélin í Note 3 tekur frábærar myndir í góðum birtuskilyrðum en er talsvert á eftir því besta á markaðnum þegar kemur að lélegum birtuskilyrðum (Nokia Lumia 920/925/1020, iPhone 5, 5c, 5S og HTC One). Við höfðum ekki mikinn tíma til að prófa myndavélina en þær myndir sem við náðum voru nokkuð góðar, mjög skarpar og litríkar. Klárlega nothæfar myndir og gott myndavélarviðmót.

2013-09-29 13.41.49

Niðurstaða

Rétt eins og Note II var á sínum tíma þá er Note 3 frábær sími, einn sá albesti í dag. Frábær skjár. Frábær myndavél. Nýjasta kramið og ein besta rafhlöðuending sem í boði er í dag. En hann er ekki allra. Hann er stór – mjög stór. Við mælum því eindregið með því að þeir sem eru áhugasamir um Note 3 kíki í næstu verslun og handleiki hann. Kostirnir við stærri skjá erum mjög margir og penninn nýtist vel án þess að flækjast fyrir. Fyrir þá sem vilja eitthvað stærra þá er Note 3 einfaldlega besti síminn sem í boði er í dag. Við gefum honum því fullt hús stiga eða 5 stjörnur.

Kostir

  • Góður og bjartur skjár
  • Virkilega góð myndavél, bæði fyrir ljósmyndir og myndbönd
  • Löng rafhlöðuending
  • Mjög öflugur, lítið sem ekkert hökt

Gallar

  •  Stór, en ekkert svakalega þungur lengur
  •  Ljót bakhlið
  • Plastskel

Samsung Galaxy Note 3 fær einkunnina 5 stjörnur af 5 mögulegum.