HTC One M8 tilkynntur

HTC ákvað að forðast Mobile World Congress í ár og kynnti ekkert nýtt þar í ár, sem var frekar góð ákvörðun þar sem Samsung og Nokia áttu nær óskipta athygli fjölmiðla þetta árið. Samsung kynnti nýjan Galaxy S síma og Nokia kom með Android símtæki sem fáir vildu sjá. HTC ákvað að halda sína eigin tilkynningu, já eða tvær. Nýtt flagskip var tilkynnt, sem mun halda sama nafni og forveri þess: HTC One (2014). Það hafði þó flest allt lekið um símann vel fyrir tilkynninguna. Síminn er reyndar kallaður M8, enda var fyrri síminn kallaður M7. . Það er vont nafn, HTC One Two hefði verið skemmtilegra. Við höfum Apple þetta að þakka (the new new iPad).

Aðeins breytt hönnun

Nýja útgáfan er mjög lík fyrri útgáfu, en er þó aðeins breytt. Ytra byrðið er áfram úr áli, og notaði HTC það óspart til að skjóta á plasthönnun Samsung. Ytra byrðið er nú ál allan hringinn, en áður var plasti sprautað inn á milli framhliðar og baks til að loka skelinni. Það er þó með aðra áferð og nýja liti (Gunmetal grár, Glacial silfur, Amber gull). Gull liturinn lítur ekki vel út, en það er erfitt að dæma það af myndum. Síminn er áfram óneitanlega fallegt eintak af snjallsíma.

pr-2014-03-25

Ræsitakkinn er þó enn á sama glataða staðnum, ofan á símanum. Síminn er að stækka aðeins og mikið fórnað fyrir þessa skjástærð. Hann er líka talsvert þyngri, fer úr 143 g. í 160 g. Það er hættulega nálægt 180 g. sem er of mikið (hver man ekki eftir múrsteininum Lumia 920). Síminn er aðeins ávalari núna, sem gerir hann frekar sleipann en aðeins fallegri. Fyrri síminn var nú alveg nógu sleipur.

Stærðin skiptir..

Allt var stækkað. Nýr skjár sem fer úr 4,7″ upp í 5″ sléttar, þó með sömu upplausn. Nýr örgjörvi, og í þetta skipti “top-end” örgjörvi (eða örgjafi eins og @gullireynir kallar það). Qualcomm Snapdragon 801 ásamt 2GB í vinnsluminni. Það þýðir nær ekkert hökt fyrir utan gamla góða Android höktið. Myndavélin fékk þó ekki fleiri megadíla, í staðinn bættu þeir við annarri myndavél! Þeir halda fast í “ultrapixel” hugtakið, þ.e. að teygja lága upplausn (4 megadíla) yfir stærri myndflögu. Með seinni myndavélinni er hægt að fá víddir í myndirnar, og ákveða hvað sé í fókus og hvað sé ekki í fókus. Þetta er skemmtilegur fídus, en hljómar frekar “gimmicky”. Flassið er nú tveggja tóna, sem allir virðast vera elta (iPhone 5S er með tveggja tóna flass). Myndavélin að framan (“selfie cam”?) fær smá uppfærslu upp í 5 megadíla sem er nokkuð gott, enda eru menn að #sölvasig alveg á fullu. Rafhlaðan er líka aðeins stærri, fer úr 2300 mAh í 2600 mAh (sem segir ekki alla söguna). Endingin var nú mjög góð nú þegar, og verður vonandi enn betri.

Úff. Hvað finnst ykkur um þetta?

Úff. Hvað finnst ykkur um þennan lit?

Fyrstu viðbrögð

Ég á eitt stykki HTC One og hef verið mjög ánægður með hann. Tvo hluti hefði þurft að laga: færa ræsitakkann á hægri hliðina og myndavélina. Hvorugt var lagað. Þetta “ultrapixel” dæmi er ekki alveg að rokka. Það átti víst að bæta myndir teknar við litla birtu, en ég finn ekkert svakalega fyrir því. Ég er að ná miklu betri myndum á nexus 5 frá LG. Svo er maður oftast að taka myndir við ágætis birtuskilyrði og ég hefði frekar viljað fá +8 megadíla myndavél og gott flass (tveggja tóna flassið er nokkuð gott á 5S og S5). Þetta er þó fallegur sími, með þokkalega myndavél, frábæran skjá (líklega þann besta í þessari stærð), frábæra rafhlöðuendingu og þægilegt viðmót. HTC One M7 fékk frábæra dóma og M8 er að raða inn stjörnunum hjá kollegum okkar úti. Við höfum rétt fengið að prófa sýniseintak af símanum og virkar hann mjög vel á okkur. Okkur hlakkar hinsvegar mikið til að fá að prófa hann almennilega og mun umfjöllun að sjálfsögðu birtast hér.

 

Heimildir:

http://www.gsmarena.com/compare.php3?idPhone1=6074&idPhone2=5313