Sony Xperia S – fyrsti Sony síminn í mörg ár

Í janúar síðastliðinn lauk formlega samstarfi Sony og Ericsson sem þá hafði staðið yfir í ellefu ár. Sony kynnti svo eigin snjallsímalínu svo á Mobile World Confress í febrúar. Þessir símar eru þó leyfarnar af samstarfi fyrirtækjanna því þeir voru allir hannaðir fyrir breytingarnar. Þetta sést vel á því að merki Sony Ericsson er á baki þeirra allra. Af þeim símum sem Sony kynnti stóðu tveir símar upp úr: Xperia S og Xperia P. Sá fyrrnefndi er hér til umfjöllunar.

Sony Xperia S er flaggskip Sony og stendur hann ágætlega undir því. Hönnun símans er ekki frábrugðin fyrri Xperia símum. Hún er hinsvegar meira ögrandi en áður. Stærsta hönnunareinkennið er gagnsæ rönd sem skiptir símanum í tvo hluta. Hún er lýst upp með ljósum og lýsir í mismunandi litum eftir ábendingarboðum. Þessi nýja hönnun er yfirfærð á alla nýju símana í Xperia línunni, Xperia P, U og Sola.

Xperia S, P og U

 

Harðbúnaður

Eins og kom fram hér að ofan er Xperia S flaggskipið í nýju Xperia línunni og er tækið því með fallegar tölur. Þegar innvolsið er skoðað er samt augljóst að flaggskip Sony keppir illa við flaggskip HTC og Samsung. Xperia S er með tvíkjarna 1.5 GHz örgjörva (S3) á meðan HTC One X er með Tegra 3 (1,5 GHz fjórkjarna) og orðrómurinn segir að  Galaxy SIII verði með Exynos (1,5 GHz fjórkjarna). Þrátt fyrir að hafa einungis tvo kjarna þá upplifði ég ekkert hökt og þvert á móti þá var síminn snöggur og spilaði leiki eins og Dead Space mjög vel. Miðað við tölurnar sem síminn fékk í Quadrant prófinu (3239) þá er algjör óþarfi að hafa nokkrar áhyggjur af afköstum. Síminn hefur 1GB vinnsluminni, sem er lágmark til að keyra Ice Cream Sandwitch (sem er þó ekki í símanum, nánar um það síðar). Tölur skipta hinsvegar ekki öllu máli, þrátt fyrir að framleiðendur Android símtækja vilja eindregið að þú trúir öðru. Það sem skiptir máli er að hafa þróaða og góða vöru, og þar spilar hugbúnaður og heildarmyndin stór hlutverk. Síminn er með 4,3″ skjá, sem er einmitt einnig ósvipað öðrum flaggskipum sem eru allir með 4,6-4,7″ skjái, en við skoðum skjáinn betur seinna. Það eru 32GB af geymsluplássi sem er mjög rausnarlegt miðað við verð, en það er því miður ekki hægt að bæta við microSD minniskorti enda engin rauf í boði.

Ég hef notað 16GB síma til lengri tíma og lenti aldrei í vandræðum með þá stærð þrátt fyrir að samstilla allan póst, fullt af tónlist (líkamsræktar- og skokktónlist), podcast skrár og margt fleira. Það er MLH tengi (mini HDMI) á símanum og það fylgir með snúra til að tengja við HDMI sjónvarp (ólíkt Motorola Razr símanum) sem er mjög skemmtilegt. Ég hef enn ekki fundið mikil not fyrir það og fyrst við erum að tala um fylgihluti, þá eru heyrnatólin (in-ear) sem fylgja með þau bestu sem ég hef séð með snjallsíma. Í símanum eru tvær myndavélar, að framan og aftan, sem ég fjalla nánar um síðar.

 

Rafhlaðan

Einn áhugaverðasti eiginleiki símans er hraðrafhleðslan (e. quickcharge). Síminn er ótrúlega snöggur að hlaða sig sem er sniðugt þar sem enginn snjallsími virðist duga almennilega út daginn, sérstaklega ef þú ferð út um kvöldið. Þessi þarf bara 30-60 mín á meðan þú túberar hárið og þá endist hann út djammið! Síminn er svo með 1750 mAh rafhlöðu, sem nokkuð venjulegt í dag fyrir snjallsíma. Þrátt fyrir þessa kosti, þá endist Xperia S varla heilan dag og þarf því  að passa að hlaða símann reglulega. Vonandi hefur Android 4.0 uppfærslan góð áhrif á þetta vandamál.

 

Skjár og mynd

Skjástærð er mikið smekksatriði. Mér finnst 4,7″ skjáirnir á Galaxy Nexus og HTC One X of stórir. 4.3″ er fín stærð þarna á milli. Reyndar þá finnst mér Sony Ericsson Arc (4,2″) vera með þægilegustu stærðina sem ég hef notað. Skjárinn er sýnir bjarta og fallega liti, og er einn af þeim bestu sem ég hef notað á snjallsíma. Skjárinn litast samt hratt upp ef litið er á hann frá halla (e. bad viewing angles) sem er ókostur, en kemur sjaldan upp. Baklýsingin er björt og góð, en gengur þó hratt á rafhlöðuna. Skjárinn kemur með ásettri filmu til að varna rispna, en dregur í sig allar rispur. Filman verður fljótt ljót og því fylgir ein aukalega til skiptanna. Almennt séð er ég ekki hrifinn af svona filmum og vil helst bara hafa rispuþolið gler.

720p!

Upplausnin á skjánum er 720X1280 og er æðisleg og verður algerlega ómissandi. Þú færð miklu meira pláss og skýrleika (342 ppi), sem gerir vöfrun og lestur miklu þægilegri. Það er erfitt að sætta sig við lakari upplausn eftir nokkra daga á 720p. Sony býður upp á “Bravia engine” sem er líklega ekkert annað nema vörumerki fyrir skjátæknina sem þeir nýta en hún gerir sitt gagn.

12 MP myndavél

Aftari myndavélin er með 12MP skynjara sem er  baklýstur (e. backside illuminated). Það hjálpar mikið við léleg birtuskilyrði. Myndavélin tekur flottar myndir og eru þær bjartar og skýrar. Síminn er einn af fáum Android símum með tveggja þrepa myndavélatakka (e. shutter key). Það er hægt að aflæsa símanum og taka mynd með takkanum á leifturhraða, þannig að þú náir Kodak augnablikinu. Stór galli er hinsvegar við myndavélina að hún er ekki með “touch to focus” eins og er á flestum öðrum snjallsímum. Síminn er einnig gríðarlega fljótur að taka myndir. LED flash er á símanum sem virkar vel við verstu birtuskilyrði. Fremri myndavélin er með þeim betri sem ég hef séð (1,3MP)og styður 720p myndbandsupptöku. Ég mæli eindregið með að nýta sér Google Talk myndbandsspjallið eða Skype með þessum síma með fremri myndavélinni.

 

Hönnun

Síminn er mjög fallegur, en það tók smá tíma að venjast þessari algerlega gagnslausu og gegnsæu rönd sem er  neðst símanum. Á gegnsæu röndinni eru samt tákn fyrir til baka, heim og valmyndartakkann sem maður heldur að maður eigi að ýta á, en snertitakkarnir eru í raun rétt fyrir ofan. Þetta er truflandi í fyrstu og að mörgu leiti heimskuleg hönnun.  Ég tók hana samt í sátt og aðallega vegna þess að síminn er það flottur að hann snýr hausum. Hann er líka ólíkur öllum öðrum Android snjallsímum þarna úti (sem er gott).  Á sitthvoru hliðinni á símanum eru hlerar fyrir micro USB og MLH, sem þarf sérstaklega að kroppa upp áður en síminn fer í hleðslu eða tengist sjónvarpi, sem er nokkuð óþægilegt. Þetta er samt ekkert á við Nokia Lumia 800 micro USB hlerann sem er með eindæmum slæmur og veikburða. Síminn er frekar þungur (144 gr.) miðað við aðra síma, sem er með ákveðin sjarma. Síminn er einnig frekar þykkur (10,6 mm)  í samanburði við síma í sama flokki (Galaxy S2 er 8,5 mm og HTC One X er 8,9 mm), en ég fann ekki fyrir því. Síminn er nokkuð þægilegur í hendi en maður finnur fyrir honum í vasa þar sem hann er frekar kassalega með hvassar brúnir. Það hefði samt mátt staðsetja aflæsingartakkann  á hægri hliðinni (eins og hækka/lækka og myndavélar takkana) í stað þess að hafa hann efst.

 

Hugbúnaður

Vá, Sony hefur virkilega tekið sig á. Hingað til hefur viðbót Sony (Ericsson) við Android stýrikerfið gert meira ógagn en gagn en hér eru breytingarnar minni og eru ekki fyrir. Jafnvel þó Xperia S komið “einungis” með Android Gingerbread (2,3,7), þá er hugbúnaðurinn mjög vel þróaður. Síminn er með íslenskt viðmót, íslenska orðabók og innbyggt Swype lyklaborð (skautaborð). Góð íslensk orðabók (sem þetta er) er orðinn nauðsyn fyrir mig þegar það kemur að snjallsímum og þetta er eini síminn sem gerir þetta vel! Tölvupósturinn hefur fengið uppfærslu og er nú þægilegri og með leit. Símaskráin leitar eftir bókstöfum þegar slegnar eru inn tölur og leitar í fyrirtækjaskrá (Exchange).  Allar uppflettingar í gegnum Exchange eru snöggar. Veðurtólið (widget) er mjög fallegt, en hefur þó ekki spáð vel sl. dagana.  Ég saknaði þó sárlega Google Music og stýringa. Ég sakna samt Android 4.0 og vona að það sé stutt í uppfærsluna.

 

Niðurstaða

Þetta er mjög flottur og nothæfur snjallsími. Hann er þó með eldri útgáfu af Android (Gingerbread), en fær þó bráðum Android 4 (Ice Cream Sandwich). Myndavélin og skjárinn er frábær. Síminn kostar 99 þúsund á flestum stöðum. Xperia S hefur margt framyfir hina símana á því verðbili og verður því að teljast nokkuð góð kaup.

Kostir

  • Gott verð (99 þúsund)
  • Flottur skjár
  • Frábær hönnun og hugbúnaður
  • 12MP myndavél
  • 32GB geymslupláss
  • Íslensk viðmót og orðabók með Swype

Gallar

  • Úrelt stýrikerfi Síminn er kominn með Android 4.0!
  • Í þyngra og þykkara lagi
  • Kassalega
  • Leiðinleg filma
  • Léleg rafhlöðuending
  • Engin microSD rauf

Fyrir þá sem eru að leita sér að Android síma á þessu verðbili er Xperia S góð kaup.  Ég gef því þessum síma 7,9 einkunn af 10 mögulegum. Sony er á réttri leið!

Simon.is á fleiri miðlum

2 replies
  1. solar collectors for sale says:

    Have you ever thought about creating an ebook or guest authoring on other websites?
    I have a blog based on the same information you discuss and would really like to
    have you share some stories/information. I know my viewers would value your work.
    If you’re even remotely interested, feel free to send me an e-mail.

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] 32GB geymsluplássi og bjartan „White magic“ háskerpuskjá. Hægt er að lesa um hann hér. Klárlega góð kaup á 80 þúsund krónur hjá Símanum (dýrari annars […]

Comments are closed.