Lenovo Thinkpad Edge E530
Kínverska fyrirtækið Lenovo er næststærsti framleiðandi einkatölva í heiminum, á eftir HP frá Bandaríkjunum. Lenovo á fyrrum vörumerki IBM: Thinkpad, sem var þekkt fyrir mikil gæði á sínum tíma. Lenovo framleiða fartölvur, borðtölvur, spjaldtölvur, snjallsíma, netþjóna og margt annað tengt einkatölvum. Við fengum að láni bláa Thinkpad Edge 530 frá Nýherja til að skoða. Vélin höfðar til skólafólks sem þarf afköst á góðu verði.
Innvols
Tölvan er mjög vel útbúin og er með Intel i7 2,1 GHz örgjörva (3612QM) ásamt 4GB vinnsluminni. Tölvan er því mjög lipur og afkastamikil. Það eru tveir diskar í vélinni, einn rúmgóður með 750GB (5400 snúninga) plássi og annar 16GB SSD til að flýta fyrir. Það er fullt af tengjum á tölvunni: 3x USB 3.0 tengi, 1x USB 2.0 tengi, VGA, HDMI, ethernet, jack og minniskortalesari.
Mynd og hljóð
Skjárinn á tölvunni er kannski sá þynnsti, en hann er bjartur og góður. Þetta er stór 15,6″ skjár með 1600×900 upplausn sem kemur mjög vel út og hentar vel fyrir ritvinnslu og gluggareikning. Skjárinn er mattur sem er stór plús og minnkar það endurskin. Skjárinn er með innbyggðri myndavél.
Tölvan er þó ekki bara fyrir viðskipti því hún er með öflugu skjákorti sem hentar vel fyrir leiki: NVidia Optimus GeForce GT630M. Kortið ræður við alla nýjustu leikina og fór létt með Left 4 Dead 2 hjá mér. Það er einnig Intel HD 4000 skjástýring til boða, sem afkastar minna og en eyðir minna rafmagni.
Það er ekki gott hljóð í hátölurunum, en það er venjan á fartölvum og þess vegna eru heyrnatól lykilatriði. Tölvan er með samnýtt jack-tengi sem virkar bæði fyrir heyrnatól og hljóðnema, sem flest ný heyrnatól styðja.
Rafhlaða
Rafhlaðan er mjög fín og nær næstum 4 klukkustunda endingu með kveikt þráðlausa netinu og hefðbundinni notkun. Það telst vera mjög góð ending á tölvum í þessum klassa.
Hönnun
Tölvan er ekki mikið fyrir augað, en hún er þó stílhrein og laus við allan glamúr. Hún er svört, einföld og praktísk eins og flestar aðrar Thinkpad tölvur (og hafa verið í mörg ár). Fyrir mörgum er þetta gæðastimpill en Tölvan er frekar þykk (29,5-35,3mm) og þung (2,45 kg) og því ekki auðveldasta tölvan til að ferðast með. Ytri byrðin er öll úr möttu plasti sem er þægilegt viðkomu, en ekki harðgert og mun ekki þola mikið hnjask. Plastið gefur líka eftir við álag sem virðist styðja við það.
Lyklaborðin á Edge vörulínunni eru góð og mjög þægileg í notkun. Lyklaborðið er í fullri stærð með talnaborði. Það býður upp á snertimús og músardíl í miðju borðinu. Snertimúsin var reyndar ekkert sérstaklega þægileg þar sem það gaf of auðveldlega eftir þegar það er notað til að smella. Ofan á það er það ekki í miðjunni á tölvunni, heldur staðsett fyrir miðju stafalyklaborðsins, og tekur það smá tíma að venjast því. Músardíllinn er hinsvegar mjög þægilegur og takkarnir sem fylgja þægilegir. Miðjutakkinn er sérstaklega þægilegur til þess að skrolla með músardílnum.
Eins allar Windows tölvur, þá kemur þessi tölva forhlaðinn með drasli sem maður þarf að henda út. Einhverja hluta vegna fannst Lenovo sniðugt að bjóða upp á einhvers konar flýtivísunar-dokku, sem er frekar ljót og nær gagnslaus. Þeir fá samt stig fyrir veðurgræjuna sem er á bakgrunninum. Það fyrsta sem ég geri þegar ég fæ nýja fartölvu er að strauja hana til að losa mig við öll þessi forrit. Það minnkar vesen og eykur afköst. Windows 7 er einnig nógu gott stýrikerfi án þessa viðbóta frá Lenovo.
Niðurstaða
Þetta er öflug og praktísk tölva á góðu verði. Hún er kannski ekki sú flottasta, en hún vinnur vinnuna sína og getur spilað tölvuleiki í þokkabót. Ef ég myndi breyta einhverjum spekkum þá myndi ég vilja fórna þessum 750GB hæga harða disk fyrir hraðari 128 eða 256GB SSD disk. Tölvan er á frábæru verði og fæst hjá Nýherja á 185 þúsund krónur.
Kostir
- Öflug tölva (i7+SSD)
- Þægilegt lyklaborð
- Góður og mattur skjár
Gallar
- Þung og þykk
- Ódýrt ytra byrði
Simon.is gefur Lenovo Thinkpad Edge E530 7,8 af 10 í einkunn.