Galaxy Note II umfjöllun: Stór, stærri…

Margir telja Samsung Galaxy SIII og HTC One X vera stóra síma. Samsung Galaxy Note II er hinsvegar stærri en þeir tveir. Hann er svo stór að maður er í fyrstu feiminn við það að draga hann upp úr vasanum, því fljótlega spyr einhver „hvað er þetta eiginlega?“. Note II er einn stærsti snjallsíminn sem er í boði í dag og er með 5,5″ skjá. Það eru tvær hliðar á stærðinni. Þegar kemur að því að halda á honum og hafa hann í vasanum þá skiptir stærðin litlu máli. Það er einna helst hipsterar í þröngum gallabuxum sem myndu kvarta, en þegar við prófuðum símann fundum við lítinn mun á Note II í vasa og okkar eigin símum (Optimus 4X og Galaxy Nexus) eftir smá aðlögunartímabil.

Hin hliðin er svo þegar þú notar símann, þá hefur stærðin mikla kosti og á sama tíma töluverða galla. Kostirnir eru einfaldir; skjárinn er risastór og birtir meira af öllu og allt er stærra. Það að fara úr 4,8″ í 5,5″ hljómar kannski ekki eins og stórt stökk en skjáflöturinn er 20,7% stærri en skjárinn á Galaxy SIII. Myndbönd, vefráp, tölvuleikir, ljósmyndir eru nánast undantekningarlaust betri á svona stórum skjá. Síminn getur einnig birt texta í mun stærra letri en aðrir símar og hentar því fjarsýnum mjög vel.

Þegar þú þarft að nota símann með annarri hendi vandast málið. Stóri skjárinn er allt í einu orðinn of stór. Puttastuttir ná varla upp hálfan skjáinn og eiga því erfitt með að komast sinna leiða einhentir. Einfaldar aðgerðir eins og hoppa inn og út úr forritum, hringja símtöl eða fletta upp upplýsingum á netinu verða erfiðar, jafnvel óþægilegar. Fingraæfingar sem eru nauðsynlegar til að nota síma með 4,8” skjá eru erfiðar á 5,5” og oft erfitt að halda á símanum við það að gera þumalputtaspíkat þvert yfir skjáinn. Við sem prófuðum símann vöndumst stærðinni mismikið en eitt er víst að Note II verður  alltaf erfiðari í meðhöndlun en minni símar.

Samsung hefur sniðið stýrikerfið að einhverju leyti að stærð skjásins. Hægt er að minnka lyklaborðið og setja það annað hvort alveg til hægri eða vinstri, eftir því hvort þú notar símann með hægri eða vinstri hendi. Einnig er hægt að minnka hringiborðið þannig hægt sé að nota eina hendi. Það leysir þó ekki vandamálið með mörg öpp, sem staðsetja valmöguleika efst á skjánum og er mjög erfitt að ná til með einni hendi. Gott dæmi um það er í hringivalmyndinni. Þar eru hnapparnir fyrir „takkaborð“, „síðustu símtöl“ og „símaskrá“ efst á skjánum og nánast ómögulegt að skipta á milli þessara valmynda með einni hendi.

Á einhverjum stöðum í stýrikerfinu, sem og í mörgum öppum, þá virkar viðmótið hreinlega blásið upp. Nafn þess sem hringir birtist til dæmis í svo stóru letri að annað fólk í sama herbergi og þú sér nánast hver er að hringja. Stóra stærðin getur þó komið sér vel fyrir þá sem sjá illa.

Síminn býður upp á fullt af skjáaðgerðum (e. screen gestures) sem stytta manni sporin. Maður notar aldrei allar aðgerðirnar, en þær sem maður kemst upp á lagið með eru í mikilli notkun. Það er hægt að slá tvisvar létt efst á símann til að fara aftur efst upp í appi eða á vefsíðu, hrista hann til að endurhlaða efni, handskrifa texta með pennanum, teikna aðgerðir með pennanum eins og fara til baka eða fara á heimaskjá og síðast en ekki síst að renna yfir lyklaborðið með pennanum til að fá orðatillögur (e. swipe). Það var mjög þægilegt að nota pennann til að skrifa texta með því að renna yfir lyklaborðið fyrir hvert orð. Orðabókin sem fylgir með er mjög góð og getur lært af þér með því að skrá sig inn á Facebook-, tölvupóst- og Twitter-aðgang þinn.

Samsung hefur gert ágætis hluti til að aðlaga 5,5″ stærðina að einni hendi, en það var oft frekar óþægilegt að nota símann sem síma með einni hendi og er því enn svigrúm til betrumbóta. Í mörgum tilvikum eru það öppin sem eru ekki sniðin að skjástærðinni og hefur Samsung ekki vald til þess að laga það í flestum tilvikum.

Sími eða spjaldtölva

Samsung gerir mikið úr því að staðsetja Note II mitt á milli spjaldtölvu og síma og nota mikið orðskrípið “Phablet”. Þetta er flott fyrir markaðsdeildina, en í raunveruleikanum er Galaxy Note II fyrst og fremst sími en ekki spjaldtölva.

Það er ekki þar með sagt að þú þurfir bæði síma og spjaldtölvu. Það er talsvert þægilegra að vafra um á netinu á Note II heldur en öðrum símum. Leikir og myndbönd komu einnig miklu betur út, en þá ertu að gera það á stóra símanum þínum, ekki litlu spjaldtölvunni.

Það er hægt að kaupa dokku, eða “smart dock” fyrir Galaxy Note II sem bætir við þremur USB raufum, HDMI rauf og hljóðtengi. Þar er því í raun hægt að tengja símann við sjónvarp, hátalara, lyklaborð, mús og margt fleira sem kemur nálægt því að .

Það er einnig í boði að kaupa sérstakt tengi frá Samsung til að tengjast sjónvarpi þráðlaust. Þetta kemur sérstaklega vel þegar þú vilt halda kynningar og stýra henni með símanum sjálfur.

“24 hour party people”

Einn kostur þess að búa til stóra síma að hægt er að setja risastóra rafhlöðu í hann. Note II kemur með 3100 mAh rafhlöðu sem er mun meira en í öðrum snjallsímum. Rafhlöðuendingin er sú besta sem við höfum nokkurn tímann séð á snjallsíma. Við höfum aldrei náð að halda síma gangandi í 24 klukkustundir, og þá erum við að tala um mikla notkun á þeim tíma. Dagur sem byrjar snemma og notkun er stanslaus allan daginn og fram undir morgun. Fyrir marga er þetta næg ástæða ein og sér til að velja Note II.

S-Pen og öpp

Síminn kemur með innbyggðum penna sem heitir S-Pen. Penninn er sérstaklega hannaður fyrir Note vörulínuna og virkar mjög vel með símanum. Þegar penninn er tekinn út að neðan þá opnast sérstök valmynd fyrir pennann með þeim öppum sem hafa verið hönnuð fyrir hann sem og öpp sem þú notar oftast með pennanum. Þar má finna meðal annars minnisbók (S-Note) með möguleikanum á því að teikna, skrifa og taka upp hljóð.

Þrátt fyrir litla sem enga listræna hæfileika prófuðum við að teikna með appinu sem fylgir með og það virkaði mjög vel. Við myndum samt segja að þeir sem eru að leita sér að einhvers konar teiknibretti, ættu frekar að kynna sér iPad Retina ásamt snertipenna. Jafnvel þó að skjárinn sé stór hentar hann ekki nógu vel í teikningar og þar koma stærri skjáir á spjaldtölvum sterkir inn. Penninn kemur sér samt vel í almennri notkun á símanum eins og við vöfrun og að skrifa á lyklaborðið (eins og fram hefur komið).

Sama gildir um viðbótarhugbúnaðinn sem Samsung setur á símann til að aðgreina hann frá SIII. Fá af þessum öppum heilluðu okkur, en tveir eiginleikar gripu athygli okkar. Síminn býður upp á að skipta skjánum í tvennt milli tveggja appa. Það er því hægt að horfa á myndband og á sama tíma spjallað á Facebook, en það er nú einnig í boði í nýrri uppfærsla fyrir SIII.  Seinni eiginleikinn eru gluggaútgáfur af nokkrum öppum. Hægt er að opna nokkur öpp í minni glugga sem opnast yfir það app sem þú ert með fyrirrúmi. Þetta er nokkuð svipað því og að geta skipt skjánum og stuðlar að fjölverkun (e. multitasking) sem fram að þessu hefur ekki verið í boði í neinu snjalltækjastýrikerfi. Þetta nýtur sín ekki til fulls á síma, en á vel heima á spjaldtölvum.

Ef þú vilt ekki sjá þennan penna, þá er lítið mál að geyma hann í slíðrinu enda fer ekkert fyrir honum þar. Það dregur ekkert frá símanum. Penninn er bónus fyrir þá sem ná valdi á honum.

Niðurstaða

Note II er stór Galaxy SIII með snertipenna. Myndavélin er frábær, síminn er hraður og allt gerist án nokkurs hökts. Fyrir utan örfáar breytingar á stýrikerfinu og pennann þá er lítill munur á þessum frábæru símum. Af þeim sökum er Note II frábær sími, ef þú getur höndlað stærðina. Rafhlöðuendingin ein og sér er góð ástæða fyrir því að velja Note II fram yfir SIII (eða aðra 4-4.8” síma).

Við mælum eindregið með því að þeir sem eru áhugasamir um Note II kíki í næstu verslun og handleiki hann. Prófaðu að gera þá hluti sem þú gerir í símanum sem krefjast þess að nota aðeins aðra höndina.

Fyrir þá sem telja stærðina ekki vandamál þá er Note II einn besti síminn sem er í boði í dag.

Kostir

  • Góður og bjartur skjár
  • Virkilega góð myndavél, bæði fyrir ljósmyndir og myndbönd
  • Löng rafhlöðuending
  • Mjög öflugur, ekkert hökt

Gallar

  •  Stór og frekar þungur
  •  Plast skel, frekar ódýr miðað við verð
  •  Dýr

Simon.is gefur Galaxy Note II 5 stjörnur af 5 mögulegum. 

Þetta er fyrsti síminn sem fær einkunn með nýrri einkunnagjöf okkar. Við ætlum að hverfa frá 10.0 punkta skala og fara í 5 stjörnur. Símar sem við mælum eindregið með fá fimm stjörnur, símar sem er næstum fullkomnir en hafa fáa galla fá fjóra og hálfa stjörnur, símar sem eru mjög góðir fá fjórar og að  þokkalegir símar fá þrjár. Allt undir það fær ekki meðmæli og við spörum ásinn fyrir sérstaklega slæma síma.

Þessi umfjöllun er skrifuð af Gulla, Rósu Stefáns og ritstjóra Simon Atla Stefáni.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Galaxy Note 3 er nýjasta flaggskip Samsung. Síminn er arftaki Note II sem kom út í fyrra og fékk fullt hús stiga frá Símon. Fyrir þá sem hafa notað Note II eða sambærilega síma þá er margt kunnuglegt. Note 3 er […]

Comments are closed.