Gogoyoko – Öll nýjasta íslenska tónlistin beint í símann!

Gogoyoko gaf í dag út app fyrir Android. Mig hefur lengi langað að sjá app frá þessum frumkvöðlum og var bænum mínum svarað í dag. Fyrir þá sem þekkja ekki Gogoyko.com þá er þetta síða þar sem að tónlistarfólk og hljómsveitir geta sett inn geisladiska og lög. Notendur síðunnar geta svo hlustað endurgjaldslaust á lögin á síðunni sjálfri, en geta einnig keypt tónlistina beint frá listamönnunum. Ég hef sjálfur notast mikið við þessa síðu og finnst þetta vera frábært framtak.

Appið er mismunandi eftir því hvort að maður sé með áskriftar eða frían aðgang að gogoyoko. Sé maður eingöngu með frían aðgang þá fær maður bara aðgang að ‘Mixtapes’ en sé maður með áskrift fær maður aðgang að öllum möguleikum appsins.

Appið er mjög einfalt í notkun, maður dettur beint á ‘Mixtapes’ flokkinn, en þar má finna playlista sem aðrir hafa búið til. Þeir eru ekki flokkaðir neitt sérstaklega, en maður les fljótlega út úr nöfnunum á þeim: I Feel Good, Laidback, Alt. Rock. No Org., Tree Huggers, Unkown and Awesome o.s.frv.  Ég kíkti á nokkra og voru þeir mjög fínir, hægt var að sleppa lögum og hoppa á milli eins manni sýnist. Eftir að ég skráði mig inn á appið bauð forritið mér upp á að synca playlistana við símann minn. Eftir það hoppar forritið beint á ‘All songs’ playlistann minn og þar gat ég hlustað á öll þau lög sem ég er með vistuð inn. Maður getur svo valið á milli þeirra playlista sem eru vistaðir á gogoyoko reikningnum manns. Tónlistarspilunin sjálf gengur snuðurlaust fyrir sig og var ég farinn að njóta undurfagurra tóna HAM á innan við mínútu eftir að ég náði í appið.

Leitin á appinu er mjög þægileg, maður slær einfaldlega inn nafn á hljómsveit eða listamanni. Það virðist reyndar vanta villuskilaboð ef að listamaðurinn finnst ekki, en appið gaf mér upp ‘Network unreachable’ villu frekar en að leitin hefði ekki borið neinn árangur. Þegar maður hefur svo fundið þá hljómsveit sem maður vill hlusta á er hægt að velja um þá diska með hljómsveitinni sem eru á Gogoyoko, og því næst um hvaða lag maður vill byrja á. Ef maður heldur puttanum niðri á lagi eða diski er hægt að bæta því á playlista, ég hélt fyrst að það það væri ekki hægt að velja hvaða playlista lögin færu á, en við frekari skoðun áttaði ég mig á því að lögin fara inn á þann playlista sem er í spilun. Í leitinni má einnig sjá topp plötur gogoyoko að hverju sinni og spila þær beint þaðan.

Ég ákvað að athuga virknina milli síðunnar og appsins og niðurstaðan kom mér skemmtilega á óvart. Ég henti lögum út af playlistanum mínum og bætti nýjum inn og mátti sjá það strax í appinu. Ég prófaði appið á meðan ég var tengdur við þráðlaust, um leið og ég slökkti á þráðlausa sambandinu þá kemur upp notification um það að ég sé ekki lengur á þráðlausu og þarf maður að velja sérstaklega að maður vilji streama yfir 3G (Mjög sniðugt að mínu mati). Ég lenti í vandræðum að streama yfir 3G, það spiluðust um 10 sekúndur af því lagi sem mig langaði að hlusta á en svo hoppaði appið yfir í næsta lag og spilaði frá þeim stað sem að hitt lagið endaði (semsagt 10 sek af fyrra laginu og svo byrjaði seinna lagið á 11. sekúndu). Ég hlustaði því á Strand með Valdimar frekar en Hverjum degi nægir sín þjáning, í von um að mæla gagnamagnsnotkun á forritinu. Strand er 4 mínútur og 9 sekúndur, mjög týpísk lengd á lagi. Ég náði ekki að klára lagið, síminn minn læsti sér þegar það voru um 30 sekúndur eftir af laginu og við það kom ‘Force quit’ og lokaðist appið. Það virðist ekki vera mikil þjöppun á lögunum, en við það að finna mér lagið og spila það nánast allt (+ 10 sekúndur og hopp frá fyrra lagi) notaði í heildina 5,98mb. Ég mæli ekki með því að nota appið mikið yfir 3G, þar sem að það mun vera mjög fljótt að éta upp gagnamagnið.

Ég er mjög ánægður með þetta app og hafa gogoyoko menn augljóslega lagt metnað í að koma upplifuninni við að hlusta á fair trade tónlist í símann. Það eru nokkrir hnökrar á forritinu, en aðal áherslan virðist hafa verið lögð á að nota appið á þráðlausu neti, frekar en 3G. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta séu bara byrjunarörðugleikar og að þetta muni verða lagað fljótlega. En ég get vel séð fyrir mér að þetta app verði mjög vinsælt í partýum þar sem tónlistin er slæm. Ég mæli hiklaust með þessu appi og ég tek að ofan fyrir gogoyoko mönnum, þó svo að það mæti bæta inn valmöguleika að stilla bitrate á 3g og lagfæra þau vandamál sem ég lenti í við notkun appsins. Appið mun einnig koma út fyrir iOs á næstunni og geta því iPhone og iPad notendur einnig notið þess að hlusta á gogoyoko á ferðinni!

 *Bætt við 15. september* Gogoyoko voru að keyra inn uppfærslu inn á Android Market. Útgáfa 1.1 á að laga það að appið sleppi lögum og aðra minni bugga.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] geta einnig nýst vel við hinar ýmsu aðstæður, en Nova menn falla í sömu gryfju og t.d. Gogoyoko og Tonlist.is með því að vera með litla sem enga þjöppun yfir 3g. Það eru eflaust margir […]

Comments are closed.