Gerðu líkamsræktina skemmtilegri með uppvakningum
Í dag er til aragrúi af öppum til þess að hjálpa manni við líkamsrækt eins og Endomondo, Nokia Sports Tracker og RunKeeper, svo eitthvað sé nefnt. Öll hafa þau það sameiginlegt að hjálpa manni eingöngu að fylgjast með líkamsræktinni og árangri manns í henni og gera hana vissulega áhugaverðari, en ekki skemmtilegri. Því vildi fyrirtækið Six to Start breyta og kom því með hugmynd að appinu Zombies, Run!
Appið gerir líkamsræktina að leik með því að bæta inn uppvakningum, verkefnum og ákvörðunum upp á líf og dauða inn í jöfnuna. Núna fer maður ekki eingöngu út að hlaupa og hlusta á tónlist, heldur þarf maður að hlaupa á ákveðna staði og finna ákveðna hluti og koma þeim svo til skila til vissra aðila. Í staðinn fyrir að hlaupa sama gamla hringinn í Fossvogsdalnum hleypur maður nú upp að Landspítalanum til þess að ná í sjúkrakassa með uppvakninga á hælunum. Á meðan á hlaupunum stendur getur maður fundið allskonar hluti sem safnast svo saman þegar maður er kominn aftur í höfuðstöðvarnar sínar. Þegar maður er kominn þangað getur maður skipt hlutunum niður á hópa sem gætu þurft á þeim að halda, hvort þurfa læknarnir eða hermennirnir meira á sjúkrakössum að halda?
Leikurinn snýst þó ekki eingöngu um að hlaupa! Í fyrstu seríu af leiknum verða 30 verkefni sem hægt verður að leysa og endist hvert verkefni um 20-30 mínútur. Á meðan verkefnin standa yfir spilast hljóðbútar úr talstöðvakerfi leiksins þar sem maður kemst að lokum að því hvaðan uppvakningarnir komu og hvað gerðist í raun og veru.
Fyrirtækið tók þá sniðugu leið að koma sér á framfæri í gegnum síðuna Kickstarter, þar sem mörg indy fyrirtæki hafa komið sér á framfæri með „öðruvísi“ leikjum. Síðan virkar þannig að framleiðendur vörunnar kynna hana á myndbandi og útskýra afhverju fólk ætti að styrkja þá. Fólk getur svo gefið frjáls framlög og eftir því sem þeir gefa meira í verkefnið fá þeir mismunandi verðlaun. Í Zombies, Run! fengu til dæmis þeir sem gáfu meira en $20 að koma með setningu sem uppvakningur í leiknum segir og nafnið sitt í credit listann. Þeir sem gáfu $350 eða meira fengu að vera persóna í leiknum í samstarfi við þá sem skrifa leikinn ásamt allskonar gúmmelaði. Fyrirtækin setja sér svo ákveðna upphæð sem þeir þurfa að ná til þess að leikurinn verði gerður og allt sem safnast umfram er notað til þess að bæta leikinn enn frekar.
Leikurinn mun koma út á iOs í febrúar 2012 og á Android í maí 2012. Hægt verður að nota leikinn hvar sem er, ekki bara í stórborgum Evrópu eða Bandaríkjanna. Framleiðendur leiksins gáfu það skýrt til kynna að staðsetning skipti ekki máli, leikurinn notar GPS til þess eins að fylgjast með hversu langt/hratt þú hleypur og það er í rauninni hægt að nota leikinn án GPS á hlaupabrettinu (Þó svo að það hljómi ekkert sérstaklega spennandi). Hægt er að hlusta á tónlist á meðan maður spilar leikinn og fara hljóðskilaboð úr honum yfir tónlistina.
Ég verð að segja fyrir mitt leyti þá hljómar þetta eins og frekar steikt leið til þess að koma sér á hreyfingu, en ég skal þó játa það að ég myndi alveg prófa þetta app og að öllum líkindum finnast það þrælskemmtilegt.