Tíu sniðug Android-forrit (október 2011)

Dropbox (Frítt)
Dropbox er líklega vinsælasta þjónustan á netinu sem vistar gögnin þín í skýinu. Forritið er til fyrir bæði PC og Mac en einnig er hægt að sækja app fyrir iPad, iPhone, Android og Blackberry. Gögn sem eru vistuð í Dropbox er hægt að nálgast alltaf og hvar sem þú kemst í 3G eða wifi samband. Í staðinn fyrir að tengja USB-kapal milli síma og tölvu er allt gert þráðlaust. Þú ferð í Dropbox-appið og getur nálgast gögn sem eru á tölvunni þinni – allt þráðlaust.

 

Evernote (Frítt)
Mjög þægilegt app ef þú þarft að skrifa niður einhverja punkta á ferðinni. Þetta virkar svipað og Google Docs en Evernote appið er töluvert betra og þægilegra í notkun heldur en Google Docs. Forritið er líka til fyrir borðtölvur og því lítið mál að samræma gögn milli allra tækja.

 

Foursquare (Frítt)
Af hverju ættirðu að deila því með öllum heiminum hvar þú ert? Ég veit það ekki en það er eitthvað ávanabindandi við það að stimpla sig inn á ákveðna staði og jafnvel fá einhverskonar rafræna viðurkenningu fyrir það. Mörg fyrirtæki á Íslandi eru farin að nýta sér Foursquare í markaðssetningu og bjóða ýmis tilboð fyrir þá viðskiptavini sem stimpla sig inn.

 

Iceland Airwaves
Iceland Airwaves hátíðin byrjar í þessari viku og ef þú ætlar að mæta þá er eiginlega nauðsynlegt fyrir þig að ná í þetta app. Þarna er hægt að skoða dagskrá hátíðarinnar bæði útfrá staðsetningu og tíma, merkja þá viðburði sem þig langar að sjá, sjá vefmyndavél sem sýnir raðir fyrir utan tónleikastaði svo eitthvað sé nefnt. Þetta app er skólabókardæmi um hvernig eigi að þjónusta tónleikagesti og því fá aðstandendur Iceland Airwaves og Síminn mikið hrós fyrir þetta frábæra framtak.

 

Leggja (Frítt)
Leggja.is er frábær þjónusta þar sem þú getur lagt bílnum þínum í stæði og borgað með símanum. Það er gert með því að hringja, senda sms eða nota appið. Með appinu er hægt að fylgjast með notkunaryfirliti, skrá nýja bíla, stilla aukaþjónustur eins og sms áminningar og fleira. Eitt af frábærum öppum frá Stokkur mobile software.

 


Ég var Winamp notandi í mörg ár og var mjög spenntur þegar ég frétti að þeir ætluðu að gera Android app. Það reyndist mér ekki vel og því skipti ég yfir í PowerAMP. Helsti kosturinn við appið er að þú getur skoðað safnið þitt í möppum eða safni (folder / library). Tónjafnarinn (equalizer) er frábær og hægt er að stjórna lögum með fjarstýringunni á heyrnartólunum.

 

Sleep as anDroid (€0.99)
App sem fylgist með því hvernig þú sefur. Þú setur vekjaraklukkuna af stað eða stillir hvaða daga vikunnar þú vilt láta vekja þig og leggur símann á rúmið. Appið fylgist með hreyfingum yfir nóttina og gefur þér graf yfir svefninn. Það er einnig hægt að skoða tölfræði yfir svefntíma og láta appið segja þér hvenær þú átt að fara að sofa miðað við þann svefn sem þú vilt ná. Ef þú lætur appið fylgjast með því hvernig þú sefur er hægt að stilla “smart early wake-up” sem fylgist með því nokkrum mínútum áður en þú átt að vakna hvort þú sért í djúpum svefni. Ef þú ert það ekki þá vekur appið þig fyrr og þú vaknar ferskari.

 

Soundcloud (Frítt)
Nauðsynlegt fyrir tónlistarnörda. Á Soundcloud geturðu fylgst með uppáhalds hljómsveitunum þínum og fengið ný lög frá þeim í Soundcloud strauminn svipað og fréttaveitan á Facebook gefur þér áhugavert efni frá vinum og síðum sem þú fylgist með. Appið býður upp á hljóðupptöku sem virkar ekkert sérstaklega vel. Einnig vantar að geta skoðað þau lög sem þú hefur merkt sem uppáhalds lögin þín. Soundcloud appið á Mac App Store virkar samt mjög vel og mæli ég með að Apple notendur skoði það.

 

Tweetdeck (Frítt)
Fyrir þá sem stunda samfélagsmiðla mikið þá er þetta frábært app. Þarna geturðu fylgst með Twitter, Facebook, Google Buzz (ef einhver notar það ennþá) og Foursquare reikningunum þínum á einum stað og jafnvel stjórnað mörgum í einu. Persónulega finnst mér of mikið að hafa facebook þarna og læt því Twitter og Foursquare nægja. Það vakti mikla athygli þegar fyrir 40 milljónir bandaríkjadala.

 

Zedge (frítt)
Langar þig að skipta um bakgrunn á “home screen” eða finna einhvern ákveðinn hringitón? Leitaðu á Zedge því það eru góðar líkur á að þú finnir það sem þú leitar að. Appið býður þér upp á að merkja uppáhalds hringitónana þína og bakgrunnsmyndir og stilla allt saman beint úr appinu. Þetta er töluvert þægilegra en að leita í tölvu, færa efnið inn á símann og stilla allt í símanum. Allt á einum stað og mjög auðvelt.