iPhone 4S og Siri kerfið

Hvar er ódýrast að kaupa iPhone 4S?

Undirritaður ætlar að kaupa sér iPhone 4s við fyrsta tækifæri. Þar sem óljóst er hvenær hann verður fáanlegur á Íslandi og á hvaða verði, í bland við óþolinmæði, fór undirritaður á stúfana og kannaði hvar og hvenær síminn er fáanlegur og hvað hann kostar hingað kominn.

Síminn er ódýrastur í Bandaríkjunum og Kanada. Það er ekkert flóknara en það. Síminn verður ekki seldur ólæstur í Bandaríkjunum fyrr en í nóvember. Í Kanada verður hann seldur ólæstur frá og með 14. okt á fínu verði. Gallinn er sá að íslendingar eru ekkert að flykkjast til Kanada á þessum árstíma. Því gæti orðið erfitt að redda símanum þaðan nema með þolinmæði.

Útreikningar miðast við að greitt sé af símanum í rauða hliðinu í tollinum í Leifsstöð, eins og lög gera ráð fyrir. Við komuna til landsins er heimilt að hafa í fórum sínum tollfrjálsan varning að verðmæti 65 þúsund þar sem verðmæti hvers hlutar má ekki vera hærra en 32.500 krónur. Engir tollar eru á farsímum og virðisaukaskatturinn er 25,5% og greiðist af þeirri fjárhæð sem er umfram fyrrnefndar 32.500 krónur. Útreikningarnir miðast allir við 16GB símann og gengi gærdagsins. Upphæðirnar eru eingöngu til viðmiðunar enda breytast þær dag frá degi.

 

Bandaríkin og Kanada.
Síminn er seldur ólæstur í Kanada frá 14. okt og í nóvember í Bandaríkjunum (engin dagsetning staðfest).

16 GB kostar $650 = 76 þúsund
32 GB kostar $750 = 87 þúsund
64 GB kostar $850 = 99 þúsund

Tax-free er hvorki í boði í Bandaríkjunum né Kanada. Í rauða hliðinu þarf því að borga um 11 þúsund krónur í VSK.
Kominn hingað til lands kostar 16 GB síminn því um 87 þúsund.

Bretland.
Sala á ólæstum símum hefst 14.okt.

16 GB kostar £499 = 91 þúsund
32 GB kostar £599 = 109 þúsund
64 GB kostar £699 = 127 þúsund

Tax-free endurgreiðsla er um 10 þúsund krónur. Í rauða hliðinu þarf því að borga um 15 þúsund krónur.
Kominn hingað til lands kostar 16GB síminn því um 96 þúsund.

Þýskaland og Frakkland.
Sala á ólæstum símum hefst 14.okt.

16 GB kostar €629 = 100 þúsund
32 GB kostar €739 = 118 þúsund
64 GB kostar €849 = 135 þúsund

Tax-free endurgreiðsla er um 12 þúsund. Í rauða hliðinu þarf því að borga um 17 þúsund.
Kominn hingað til lands kostar 16GB síminn því um 115 þúsund.

 

Ath tax-free endurgreiðsla fæst eingöngu ef keypt er beint úr verslun. Ekki ef sími er pantaður gegnum Apple verslun á netinu og sendur heim að dyrum, t.d. á hótelið þar sem viðkomandi gistir.

Í þýskalandi er 19% VSK og í Frakklandi 19,6% en skv. evrópulöggjöf telst varan vera veitt frá Írlandi (þar sem Apple er með birgðastöð) og því skal leggja á vöruna virðisaukaskatt eins og hann er á Írlandi eða 21%. Reiknivél Global blue miðar við VSK og reglur um endurgreiðslu eins og þær eru í hverju landi. Það er því örlítil skekkja í tax-free tölunum, en hún er mjög lítil.

Útreikningar miðast við gengi Seðlabankans í gær, þann 11.okt 2011.
http://sedlabanki.is/default.aspx?PageID=7

Tollalög:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2005088.html

Global Blue – Tax free reiknivél:
http://www.global-blue.com/traveller-services/tax-free-shopping/refund-calculator/

Verð fengin í netverslun Apple:
http://store.apple.com/us