Merktu við 4. október á dagatalinu – Apple mun tala um iPhone!
Flest hefur bent til þess að Apple myndi kynna nýjan iPhone í október og nú er loksins búið að negla niður dagsetninguna. Þriðjudaginn 4. október kl. 17:00 að íslenskum tíma verður talað um iPhone í höfuðstöðvum Apple. Hvort þeir kynni iPhone 5, iPhone 4S eða aðrar nýjungar fyrir iOS notendur á eftir að koma í ljós.
Simon.is fjallaði nýlega um iPhone 5 orðróminn og miðað við lesturinn á greininni er ljóst að Íslendingar eru spenntir fyrir nýjungunum sem Apple munu kynna eftir eina viku. Flestir af stærstu tæknibloggurum vestanhafs fengu boðskort í morgun en við bíðum enn eftir okkar.