Apple iPad Pro 9.7 umfjöllun

Apple iPad Pro 9.7 er aðeins minni iPad Pro, eða í sömu stærð og iPad Air. Air er einmitt vinsælasta iPad spjaldtölvan frá Apple (og líklega í heiminum). Þetta er í raun aðeins betri iPad Air 2, með möguleika á lyklaborði. Fyrsta iPad Pro spjaldtölvan var einmitt hrikalega stór eða 12,9″. Hún fer því ekki beint meðfærileg, en þessi er það klárlega. iPad Pro 9.7 er til sölu á Íslandi og kemur í fjórum litum: silfur, hvítur, grár og rósargull (koparbleikur).

Hvað er sniðugt við iPad Pro 9.7?

Skjárinn er frábær. 9,7 tommur af brjáluðum gæðum og frábær upplausn. True Tone nýtir fjögurra rása skynjara til að halda hvítum í “réttum hvítum” sem auðveldar lestur og áhorf.

Nýtt lyklaborð. Þú getur tengt Apple lyklaborðið við hann, sem notar pogo tengin á einni hliðinni. Ég var lengur en vanalega að venjast því, en var svo kominn á fleygiferð á endanum. Það er samt nokkuð óþægilegt að opna og loka því eða eiga við lyklaborðið yfir höfuð. Það er nefnilega líka hulstur. Svo er ekki hægt að stilla hallann á skjánum með þessu hulstri.

iPad Pro 9-7 með lyklaborði

Betri næmni fyrir penna. Apple pencil kom út rétt fyrir jól í fyrra. Þetta hrikalega næmur penni með bluetooth sem nýtir sér sérstaka filmu í skjánum til að teikna betur.

Betra hljóð. Það eru fleiri og betri hátalarar á iPad Pro. Mjög góð ástæða til að kaupa þennan frekar en iPad Air.

Mjög skörp myndavél. Þetta er sama 12 megadíla myndavél og er á iPhone 6s að aftan og 5 megadíla að framan. Alls ekki slæmt.

Fingrafaralesi til aflæsingar. Ég veit að flestir gera nú lágmarkskröfu um fingrafaralesara á snjalltækinu sínu (vá hvað þetta vantar á fartölvur) þannig að mér líður hálfkjánalega að taka þetta fram. En já, fingrafaralesinn á þessari tölvu er afbragðsgóður.

Þetta gæti verið fartölvan þín. Ég gat notað iPad pro með lyklaborði þrjá heila daga í vinnunni. Ég gat svona 90% af því sem ég geri með þessari tölvu. Ég hefði viljað fá snertimús á lyklaborðið samt. Það er asnalegt að lyfta upp hendinni og snerta skjáinn til að “færa bendillinn”.

Tíu tíma hleðsla. Mjög góð hleðsla, en aðeins styttri en á Macbook Air og Pro.

Hvað gekk ekki upp?

Minna minni. Það eru 2GB af vinnsluminni í þessum, en 4GB í stærri iPad Pro. Það styttir líftíma þessa tækis til muna (1-3 ár).

Mjög dýr. Heildarverð fyrir 32GB iPad Pro með lyklaborði og penna er mjög hátt.. hvað þá fyrir 256GB. En maður þarf ekkert endilega að kaupa það kitt.

Það vantar mús! Guð minn góður hvað það vantar mikið snertimús á lyklaborðið. Það er glatað að lyfta hendinni af lyklaborðinu til að “færa bendilinn”.

Google Drive öppin með ljóta villu. Google Drive öppin, sem ég nota alveg heilan helling, bæta alltaf við ´ þegar maður ætlar að reyna skrifa broddstaf. Þú vilt þetta: “ý” en færð þetta: “´ý”. Það er hræðilegt. En ég notaði í staðinn Microsoft Office öppin við frábæran árangur.

Niðurstaða

Þetta er besta spjaldtölvan á markaði í dag sem ég hef prófað. Geðveikur skjár, TouchID, iOS með öllum sínum öppum, fínustu hátalarar og falleg hönnun.

Þetta er hinsvegar ekkert svakalega góð fartölva. Allt í lagi lyklaborð. Og bara frekar dýr fartölva svona þegar ég spái í því. Þetta eru 177 þúsund krónur fyrir 128GB pláss. Macbook Air 13 kostar einmitt það sama, eða 180 þúsund krónur. Reyndar þá er skjárinn betri á iPad Pro. Og hátalarar mögulega líka. Svo er þetta snertiskjár. Og fullt af öppum í boði sem fást ekki á Macbook.

Æj okei, kannski er þetta bara ágætis díll. Ég ætti kannski að fá mér þessa? Þetta gæti samt ekki verið eina tölvan mín, en örugglega fyrir einhverja aðra. Lyklaborðshulstrið er samt ekki nógu þægilegt, það hallar bara á einn veg.

Simon.is gefur iPad Pro 9.7 spjaldtölvunni fimm stjörnur af fimm mögulegum.