Nýr Vodafone netbeinir

Vodafone á Íslandi hefur fjárfest í nýjum búnaði til að styðja við hrattaukandi kröfur íslenskra heimila. Þetta er Huawei netbeinir (HG659) sem býður upp á 2,4 og 5 GHz þráðlaust net samtímis (simultaneous dual-band). Netbeinirinn styður bæði kopar (xDSL) og ljósleiðara og er leigður út á 650 kr. á mánuði (sama verð og aðrir netbeinar hjá Vodafone). Hann er sérframleiddur fyrir Vodafone, kemur merktur Vodafone og er með hugbúnað frá þeim. Simon fékk nýja netbeinin að láni ásamt 500 megabita nettengingu til prófana.

Spekkar

Huawei netbeinirinn er með Broadcom BCM63168 kubbasett og hér eru helstu spekkar:

  • 1x DSL rauf (fyrir xDSL netsamband)
  • 2x FXS raufar ( fyrir síma)
  • 4x Gigabit raufar (fyrir tölvur)
  • 1x gigabit WAN rauf (fyrir netsamband)
  • 1x USB 2.0 (til að deila minniskubbum/diskum)
  • Tveggja banda þráðlaust net 802.11a/n/ac
  • 1x 3×3 MIMO loftnet (5 GHz)
  • 1x 2×2 MIMO loftnet (2,4 GHz)
  • Styður einhverja nettengla frá Vodafone
  • Getur deilt tónlist, myndum og myndböndum miðlægt (DLNA)

Tvö loftnet eru algert aðalatriði í dag og lágmark fyrir heimili í dag. Dýrari týpurnar eru oft með þremur eða fleiri loftnetum (og netkortum bakvið þau).

Viðmótið og hönnun

Viðmótið er nokkuð einfalt og þægilegt. Það er á ensku og það þarf sérstakt admin lykilorð fyrir hvern beini sem kemur útprentað með á límmiða. Á þeim límmiða er einnig lykilorð inn á þráðlausa netið.

IMG_0155

Netbeinirinn er mjög látlaus og kemur í “Vodafone white” hvítum. Hann stendur á einni hliðinni og er aðeins breiðari en hann er hærri. Neðst aftan á honum eru allar raufarnar í röð meðfram botninum. Á hægri hlið eru nokkrir takkar: startakki, WPS-takki (ekki nota hann) og WLAN-takki (til að slökkva/kveikja á þráðlausu neti).

Hraði

Með snúru:
Vodafone netbeinirinn náði auðveldlega fullum hraða nettengingar, eða 500 megabitum á sekúndu. Hann á auðveldlega geta komist yfir 900 megabit/sekúndu. Þetta gerir hann nokkuð góðan í því að færa stór skjöl milli tölvna innan heimilis.

Þráðlaust net:

Ég prófaði þráðlausa netið nokkuð mikið, en flestir tengdir þannig (fartölvan mín er ekki einu sinni með netkort). Ég prófaði það með ýmsum tækjum og fékk nokkuð svipaðar niðurstöður á flestum tækjum, um 200 megabita hraða á sekúndu á langflestum. Það er mjög fínn hraði fyrir netbeini í þessum flokki (entry level consumer router). Það dugar 90% heimila nokkuð vel.

Niðurstaða

Þetta er fínn netbeinir sem hentar langflestum heimilum, með stórbættan hraða um þráðlaust net. Hann er hvítur og fellur vel inn í hvíta veggi. Ef þú ert með eldri Vodafone netbeini í leigu og finnur fyrir hægagang, þá mælum við með að þú uppfærir á næstunni. Ég hefði viljað sjá þráðlausa netið komast nær 500 megabitum, en 200 er þó helvíti hratt. Netbeinar sem styðja þann hraða eru mun dýrari og kosta 30-70 þúsund krónur (t.d. Apple Airport Extreme sem er á 45 þúsund). Annað sem ég hefði viljað er að geta slökkt á ljósunum framan á honum.

Simon.is gefur Huawei HG659 fjórar stjörnur af fimm mögulegum