Apple Airport Extreme

Apple Airport Extreme er öflugur netbeinir fyrir heimili sem kom út fyrir yfir 2 árum og er sjötta kynslóðina af Airport Extreme. Netbeinirinn er öflugri af tveimur netbeinum sem Apple framleiðir, en sá ódýrari heitir Airport Express og er með aðeins lakari innvolsi. Það er líka hægt að kaupa dýrari týpu af Airport Extreme, sem heitir TimeCapsule. Sú týpa er með innbyggðu hörðum diski fyrir afritun gagna í OS X (TimeMachine), með tveimur eða þremur terabætum af plássi.

AirPort_Extreme_994

 

Spekkar

Airtport Extreme er með Broadcom BCM4360 kubbasetti. Þráðlausa netið er keyrt á þremur 3:3 loftnetum og styður það bæði böndin (2,4 og 5 GHz) samtímis (simultenous dual-band). Þráðlausa netið styður a/b/g/n/ac staðla.

Öll nettengi eru 1 gígabit/sekúndu hröð og það eru þrjú Ethernet ásamt einu WAN tengi. Svo eru tvö USB tengi sem bjóða upp á samnýtingu á USB geymsluplássi (AirDisk).

Netbeinirinn styður ekki ADSL né VDSL, en það er lítið mál að tengja hann við þannig netbeini og nota Airport Extreme sem aðal-netbeini.

Viðmót og hönnun

Netbeinirinn er úr hvítu plasti sem er látlaus og fellur vel inn i í flesta veggi. Hann er ólíkur flestum öðrum netbeinum, enda er hann hár og mjór stautur. Straumbreytir er byggður inn í netbeinin og fer því lítið fyrir snúrunni sem væri annars vegar með stórum rafmagnskubb.

Viðmótið er ofureinfalt (kannski of einfalt fyrir nördana) og fyrir þá sem eiga OS X tölvu þá er forrit innbyggt til að stilla sem heitir Airport Utility. Það er ótrúlega einfalt og þægilegt. Það er lítið mál að bæta við fleiri þráðlausum punktum.

Airport Utility

Hraði

Með snúru:

Ég náði auðveldlega fullum hraða með snúru, eða 500 megabitum/sekúndu. Kubbasettið toppar í 685 megabitum/sekúndu samkvæmt smallnetbuilder.com vefsíðunni. Bestu kubbasettin í dag fara næstum upp í 1 gígabit/sekúndu, þannig þetta er ekki alveg það besta sem býðst.
Þráðlaust net:

Þráðlausa netið er nokkuð gott og náði ég næstum fullum hraða, eða 450-470 megbitum/sekúndu á eiginlega öllum tækjunum mínum.

Niðurstaða

Þetta er frábær netbeinir með mjög öflugu þráðlausu neti. Hann er þó nokkuð dýr og verður þriggja ára gamall í vor. Fyrir þá sem vilja öflugan þráðlausan AC netbeini, þá er þetta kannski ekki bestu kaupin. Það er hægt að fá svipað öfluga netbeina með AC þráðlausu neti fyrir 10-15 þúsund krónum minna (eins og Netgear Nighthawk). Ef þú ert að velja á milli Airport Express og Extreme þá er AC staðallinn vel þess virði. Og fyrir þá sem vilja eiga allt í Apple og njóta “it just works” þá er þetta frábær kaup.

Simon gefur Apple Airport Extreme fjórar og hálfa stjörnur af fimm mögulegum.