Dell Chromebook 13 – Umfjöllun
Undanfarið ár hefur Chrome OS fartölvan Acer C720 verið mín helsta aukavél. Hún kostaði álíka mikið og ódýr Android spjaldtölva en ræður við flest það sem ég hef hent í hana. Netráp, horfa á video eða vinna í Google Docs. Á þessum tíma hefur álit mitt á Chrome OS vaxið jafnt og þétt. Stýrikerfið keyrir mjög vel á aflminni vélbúnaði. Fyrir þá sem lifa sínu internet lífi í Chrome vafranum er eðlilegt að gefa Chromebook fartölvum auga. En þegar þú beinir kastljósinu að vélum eins og C720 þá verða þær seint kallaðar glæisilegar. Brak og brestir, ódýrt plast, skítsæmilegir skjáir og léleg, dolluleg lyklaborð. Eina undantekningin á þessu hefur verið Chromebook Pixel sem, þrátt fyrir mikla verðlækkun í sumar, kostar álíka mikið og virkilega vel útfærð Mac eða PC tölva. Dell Chromebook 13 býður upp á flest af því sem Pixel gerir en á miklu viðráðanlegra verði.
Útlit og skjár
Dell Chromebook 13 er algjör andstæða C720. Magnesíum ál klætt með koltrefja(legu)plastefni. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Vélin er hinsvegar í stærri enda ultrabook véla. 17mm þykk og 1.47-1.62 kg. Þegar þú kveikir svo á vélinni þá blasir við skarpur og góður IPS skjár í fullri háskerpu. Litir eru frábærir, vel sést á hann frá öllum sjónarhornum og ég fann sjónhimnuna brenna uppi af birtunni. Ég nota skjái yfirleitt í botni en á þessari vél var 75% meira en nóg. Vélin sem ég prófaði var með snertiskjá. Fyrir mitt leiti er það neðst á óskalistanum fyrir Chrome OS fartölvu. Stýrikerfið er illa aðlagað að fingrasnertingu og sjaldan fann ég þörf fyrir að pota í skjáinn.
Afl
Vélin sem ég prófaði var með Core i3 5005u örgjörva og snertiskjá. Aflið var meira en nóg. 50+ flipar í Chrome og samt spilaði hún 10 glugga…af video…í fullri háskerpu…í einu. Hiklaust. Flest bendir til þess að ódýrari vélin (með Celeron 3205U örgjörva) ráði vel við eðlilega notkun. Viftan á vélinni fór aldrei í gang (ekki einu sinni þegar hún spilaði 10 video í einu). Vinnsluminnið er 4GB og hægt að fá vélina með allt að 8GB vinnsluminni. Geymsluplássið er 16GB sem er meira en nóg á Chrome OS enda notar maður skýjalausnir nær eingöngu.
Rafhlöðuending
Rafhlöðuending er í einu orði sagt, frábær. Ein sú besta (ef ekki sú besta) sem ég hef nokkru sinni prófað. Þetta er einfaldlega vél sem þú getur tekið með þér út á morgnana og notað allan daginn og þegar ég segi allan daginn þá er ég ekki bara að tala um vinnudaginn. 12 tímar í stanslausri notkun, með skjáinn í 75% og kveikt á Wifi og Bluetooth. Video, netið og tónlist. Eina tölvan sem á séns í þessa endingu er Macbook Air og hún kostar a.m.k. 2X meira (áætlað verð á Celeron vélinni er í kringum 80.000 kr.). Það er einfaldlega engin fartölva á þessu verðbili sem kemur nálægt þessu. Fyrir marga er vel hægt að sætta sig við alla galla Chrome OS fyrir þá sálarró að þurfa aldrei að pakka hleðslutækinu með sér.
En get ég gert allt í vafra?
Chrome OS hefur batnað mikið á þeim 5 árum sem það hefur verið í þróun. Með stuðningi við Andorid þá hefur bilið minkað enn frekar. Það breytir því hinsvegar ekki að bilið er til staðar. Hversu stórt bil er hinsvegar mjög persónubundið. Öll upplifunin af því að vafra netið í Chrome, horfa á video, Netflix, Plex og spila einfalda leiki er jafn góð, ef ekki betri en á Mac og PC vélum sem kosta tvöfallt eða þrefalt meira. Vandamálin eru fyrst og fremst tengd App-leysi. Aðgerðir sem þurfa sérhæfðan hugbúnað eru ógerlegar. Þú klippir hvorki tónlisti né video, spilar ekki marga leiki eða vinnur í flóknum margmiðlunar- eða reikniforritum. En fyrir þá sem hafa aðgang að annarri vél þá er vel hægt að lifa með vanköntunum á Chrome OS. Flest bendir einnig til þess að Andorid app verslunin muni opna enn frekar fyrir Chrome OS sem ætti að brúa bilið enn meira.
Niðurstaða (aka TLDR)
Dell Chromebook 13 er frábær fartölva. Vel smíðuð, nægt afl, virkilega góður skjár og ein besta rafhlöðuending sem er í boði í fartölvu. Ef aðeins er horft á þessa þætti þá er einfaldlega ekki í boði fartölva á Íslandi sem á séns í þessa vél á þessu verði. Allt er þetta þó háð því að þú getir lifað með þeim annmörkum sem fylgja Chrome OS. Leynidyr númer þrjú eru svo að setja Ubuntu upp á vélinni og hlæja alla leið í bankann.