Dell XPS 13 umfjöllun

XPS 13 er glæný ultrabook frá bandaríska tölvuframleiðandanum Dell. Dell hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið. Það fór á markað og gat illa fótað sig fyrir þar. Nokkru síðar fjármagnaði Michael Dell sjálfur kaup á meirihluta hlutafés og tók Dell af markaði. XPS 13 er þunn og nett fartölva sem vakti mikla athygli nörda fyrir örþunna ramma í kringum skjáinn (e. bezels), eða þar sem þeir kalla “edge-to-edge infinity display”.

Skjárinn

xps-13-6.png-e1420594664433

Tölvan er með 13,3″ glansandi skjá sem kemur annað hvort með FHD (1920×1080) eða QHD+ (3200×1800) upplausn . Við fengum að prófa QHD+ útgáfuna (Dell XPS 13 Ultrasharp with infinity display), og vá hvað skjárinn er flottur. Frábær skerpa, góðir litir og engir breiðir rammar í kringum skjáinn sjálfann. Svo ofan á það er þetta snertiskjár! Ég sé reyndar ekki mikil not fyrir snertinguna á skjá sem fer ekki allan hringinn (eins og Lenovo Yoga) eða er hægt að slíta frá lyklaborðinu (eins og Lenovo Helix), en það er fínt að hafa kostinn.

Hönnun

Tölvan er alveg fáranlega nett. Hún er undir 1,2 kg. þung og 9-15 mm á þykkt. Það fer í raun ekkert fyrir þessari tölvu, sem er frábært fyrir þá sem eru mikið á ferðinni. Ofan á þetta tekur tölvan mun minna borðpláss (e. footprint) en flestar fartölvur. Það er verulegur munur á flatarmáli þegar tölvan er borin saman við aðrar ultrabook tölvur eins og Macbook Air og Lenovo Yoga 3.

Það er nóg af raufum á þessari vél: tvö USB 3.0 (með Powershare), mini Display Port og 3-1 minniskortalesari. Það er þó ekkert Ethernet, en það er hægt að fjárfesta í USB kubb til að redda því. Ég hlakka til að sjá næstu útgáfu sem vonandi uppfærir í USB C raufar!

Lyklaborð og mús

rzv15pypuvvemelr7ztp

Lyklaborð og mús er ásamt skjánum það mikilvægasta við fartölvur. Ef eitthvað af þessu þrennu er illa hannað, þá mun maður þjást. Við vitum að skjárinn er pottþéttur, en hvað með hitt tvennt. Lyklaborðið er alla vega þægilegt og ég var mjög hraður á því. Hraðari en á mínu eigin lyklaborði. Takkarnir eru mjög grunnir, en nógu stórir þannig maður hittir á þá. Það heyrist alveg nógu mikið í tökkunum, en ekki of mikið. Snertimúsin er slöpp, en þær eru það allar eftir að hafa prófað Macbook snertimús. Hún er samt mun skárri en snertimýs á flestum ódýrum Windows tölvum og vel nothæf.

Viðmót

Tölvan kemur upp sett með Windows 8.1 (Pro) upp úr kassa, sem var einhverra hluta vegna hannað fyrir snjallsíma/spjaldtölvur. Góðu fréttirnar eru að það er stutt í Windows 10!

Afköst

Tölvan er snögg að ræsa sig og bregst ágætlega við þökk sé SSD geymsluplássi og 8GB vinnsluminni. Útgáfan sem við prófuðum er með Intel Core i7 örgjörva sem kemst upp í 3.0 GHz en keyrir oftast mun neðar til að spara rafmagn. Ég gæti hæglega unnið á þessari tölvu, en ég get ekki mælt með henni í neina þungavikt eins og mikla mynd/myndbandavinnslu án þess að hafa dass af þolinmæði.

Áhugaverðast við prófanir á þessari tölvu, var að reyna spila YouTube myndband sem myndi nýta sér þessa fáranlega háu upplausn. Það gekk sem sagt ekki. Þeim til varnar þá næ ég heldur ekki að gera það á Macbook Pro Retina (2015) án þess að hiksta (sem er með M-línu örgjörva).

Rafhlaða

Rafhlaðan á að endast í yfir 11 tíma í venjulegri notkun. Ég var að ná vel yfir 8 tímana, sem þröskuldur sem við horfum sérstaklega til hérna hjá Simon (heill vinnudagur). Það er frábær ending! Örgjörvinn á mikið í því, enda er þetta örgjörvi úr U-línu Intel sem leggur áherslu á sparneytni.

Samantekt

Þetta er fyrsta Dell tölvan sem hefur virkilega náð að heilla mig undanfarin árin. Þetta er tölva sem ég gæti sjálfur hugsað mér að eiga. Góð nýting á plássi er stór kostur fyrir mig. Því nettari því betra.

Simon gefur Dell XPS 13 fjórar og hálfa stjörnur af fimm mögulegum.

 

Kostir

  • Frábær skjár
  • Létt og nett tölva
  • Frábær rafhlöðuending

Gallar

  • Snertimúsin er ekki nógu góð

Verðsamanburður

Við fengum lánaða tölvu frá Advania, sem er vel spekkuð með Intel Core i7 (U örgjörvi). Hún kostar 319.990 kr. hjá þeim og er að finna hér. Það er ekki hægt að fá ódýrari týpu sem býður upp á sama flotta skjáinn.

Til samanburðar kostar Macbook Pro Retina 13 309.990 kr. og er með svipuð afköst og skjá, en er þyngri og stærri. Macbook Air 13 með Intel Core i7, 8GB vinnsluminni og 256GB geymsluplássi kostar 304.970 kr. Hún er ekki alveg eins nett og létt, né hefur þessa svaka upplausn. Lenovo Yoga 3 kemur kannski næst XPS 13 í þyngd, stærð og skjá. Hún fæst frá 210 þúsund hjá Tölvutek og Nýherja. Ég fann hana þó ekki með Intel i7 örgjörva, en hún kemur með þessum nýja Intel Core M örgjörva sem er viftulaus.