Sigurvegarar Nexpo 2015

Nexpo var haldin í fimmta sinn nú í Bíó Paradís fyrr í kvöld og voru veitt verðlaun í átta flokkum. Nexpo er vef-, markaðs- og sprotaverðlaunahátíð á vegum tæknivefins Simon.is og Nýherja. Hátíðin hefur fram að þessu verið haldin af framleiðslufyrirtækinu Silent, en í ár tók Simon.is við henni í samstarfi við Kjarnann og Klak Innovit. Verðlaunin leggja áherslu á að verðlauna vel unnin störf í vel- og markaðsstarfi á lá liðnu ári, en í ár var lögð sérstök áhersla á nýsköpun á Íslandi. Því var bætt við tveimur nýjum flokkum: sprotafyrirtæki ársins og besta markaðsárangur sprotafyrirtækis.

Hver sem er gat sent inn tilnefningu til verðlaunanna og fór svo 7 manna dómnefnd yfir tilnefningarnar og valdi úr þá sem talið var að hefðu staðið sig best á árinu. Sigurvegararnir voru svo valdir í opinni kosningu á netinu á móti atkvæði dómnefndar, sem vegur til helmings á móti.

Í ár var vefhetjan í ár er Atli Fannar Bjarkason, sem hefur með einstökum árangri tekist að koma nýjum fjölmiðli í loftið sem er ætlaður fyrir yngra fólk. Nútíminn fór í loftið 25. ágúst 2014 og hefur sprungið út síðan.

App ársins er að þessu sinni Strætó appið frá Strætó BS. Gamla appið var rækilega tekið í gegn og útlitið bætt, en helsta viðbótin var greiðslumöguleiki í appinu. Notendur þurfa ekki lengur að vera með klink eða strætómiða og geta því nýtt sér snjallsímann til þess að greiða fargjöld.

Vefur ársins er vefritið Blær. Vefurinn þykir einstaklega vel hannaður og nýtir nútímatækni til þess að birta áhugavert efni. Blær virkar á öllum tækjum án þess að efnið líði fyrir.

Herferð ársins var Heim um jólin frá Icelandair, þar sem spilað var á tilfinningar áhorfenda og var ekki annað hægt en að tárast örlítið við lok auglýsingarinnar.

Stafrænt markaðsstarf ársins fékk Nova fyrir Nova Snap. Notkun Nova á nýmiðlinum Snapchat þykir einstaklega frumlegur, en þar sáu þjóðkunnir einstaklingar um að skemmta landsmönnum í stuttum 5-10 sekúndna myndbrotum.

Óhefðbundna auglýsingin var Örugg borg  frá UN Women á Íslandi. Augýsingin sýndi óhugnalegan raunveruleika byggðan á reynslusögum kvenna um allan heim á nýstárlegan hátt, þar sem áhorfendur upplifðu tvær hliðar samtímis með því að tengja snjallsímann við myndbandið.

Sprotinn Meniga, sem allir viðskiptavinir íslenskra banka þekkja vel, fékk verðlaun fyrir besta markaðsárangur sprota. Meniga hefur gengið mjög vel hér heima og er nú þegar farið með vöru sína út fyrir landsteina.

Óskabörn Íslands í Plain Vanilla hreppti sprota ársins. Plain Vanila hefur farið siguför um heiminn með ávanabindandi appinu QuizUp og hefur verið í samstarfi við fyrirtæki eins og Coca-Cola í kringum HM í fótbolta og HBO í tengslum við Game of Thrones.