Nexpo teiti í kvöld
Nexpo 2015 verður haldin í fimmta sinn núna í kvöld í Bíó Paradís klukkan 18:00 og þér er sérstaklega boðið að kíkja. Nexpo er vef-, markaðs- og sprotaverðlaunahátíð sem er haldin af Simon.is í samstarfi við Nýherja. Það eru allir velkomnir, sérstaklega vefarar, markaðsnördar og sprotafólk.
Það eru átta verðlaun og fullt af góðum tilnefningum. Atli Fannar mun glíma við Röggu Nagla og Vanilluprinsinn um Vefhetju ársins. Blær tekst á við eitt stærsta fyrirtæki Íslands um vef ársins. Opinberu fyrirtækin RÚV og Strætó vilja vera með bestu öppin. Nova Snapchattið fær tvær tilnefningar, besta herferðin og besta stafræna markaðsstarfið. Tjarnargatan raðar inn tilnefningum í bestu óhefðbundnu auglýsinguna (fékk þrjár). Svo keppast þroskaðir sprotar við nýsædda sprota um sprota ársins og besta markaðsárangurinn.
Inn á milli verðlauna verða örfyrirlestrar frá íslenskum sprotum: Vignir Guðmundsson frá Radiant Games, Hálfdán frá GoMobile, Stefán Atli frá Crowbar Protein og Davíð Örn frá Apollo X. Hugleikur Dagsson verður einnig með uppistand til að hrista upp í fólki.
Léttar veitingar verða í boði frá Joe & the Juice og nýi og svalandi drykkurinn Sólbert mun vera í boði.
Sjá nánar á Facebook