Skjáskot: Hilmar Þór
Skjáskotið snýr aftur! Hilmar Þór (@hilmartor) er fyrsti viðmælandi okkar að þessu sinni og vonandi ekki sá síðasti í þessari nýju seríu af skjáskotinu.
Hver ert þú og hvað gerir þú í lífinu?
Ég er lærður ljósmyndari sem vinn hjá KSÍ við fjölmiðla- og markaðsmál. Starfaði lengst af í fjölmiðlun, sem ljósmyndari og blaðamaður. Var svo í markaðsdeild Landsbankans að sinna Landsbankadeildinni í fótbolta og ljósmyndun, þangað til hrunið skall á en þá rak ég mitt eigið fjölmiðla og markaðsfyrirtæki, Media Group ehf. Fór svo til KSÍ eftir að fá gott boð um að vinna full time í fótboltanum og hef ekki séð eftir því.
Er einstæður tveggja barna faðir í Vesturbænum sem hef gaman af lífinu almennt, heilmikill tækninörd og heltekinn af líkamsrækt og jákvæðum lífstíl.
Hvernig síma notarðu dags daglega?
Eftir að ég hoppaði á iPhone lestina þá hef ég ekki horft tilbaka. Byrjaði á 4s á sínum tíma en hef uppfært árlega, eða þar um bil, eftir það. Líklega mætti flokka mig undir Apple Fanboy hvað þetta varðar. Reyndar er endursöluhagkerfi Apple mjög gott og því fær maður yfirleitt langleiðina upp í nýtt tæki með sölu á gamla tækinu – milligjöfin er fórnarkostnaður til að Apple hagnist um trilljarða.
Hvað elskar þú við símann þinn?
Að hann gerir það sem hann á að gera án þess að vera með vesen. Er líka úber-sáttur með skjástærðina á iPhone 6 og eftir að handleika eldri síma núna þá skil ég eiginlega ekki hvernig ég fór að áður en sexan kom. Svo er myndavélin fáránlega góð miðað við að þetta sé sími. Auðvitað lúkka iPhonar alltaf ótrúlega vel.
Hvað þolir þú ekki við símann þinn?
Það er ekkert sem pirrar mig við hann satt að segja. Líklega heilaþvottur frá Apple með algjöra skilyrðislausa hamingju með tækin frá þeim.
Hvaða app notarðu mest?
Facebook, Twitter og Safari eru notuð mest.
Fimm uppáhalds öppin þín.
Facebook – Til að lifa gervilífi í netheimum.
Twitter – Til að sjá allt fara á hliðina þegar fótboltinn er í gangi og Gettu betur.
Instagram – Myndasafn minninga, minna og annarra.
Polar Flow – Sjá hvort þessar endalausu ferðir í World Class séu að skila einhverju.
Safari – Til að skoða hvað er í gangi í heiminum.
Hver er draumasíminn þinn?
iPhone 6 sem stendur, iPhone 6s eftir hálft ár ef ég þekki Apple rétt.
Hvað ætti að vera hægt á símum sem er ekki hægt í dag?
Í dag er nánast hægt að gera allt á farsímum nema bókstaflega fljúga milli landa. Ég held að það sé allt hægt í símum í dag sem símar þurfa að bjóða upp á. Svo kemur eitthvað nýtt og frábært í iPhone 6s og þá skil ég ekki hvernig ég lifði almennt lífinu áður en það kom.
Skjáskot frá Hilmari.