Það er Apple að kenna að Nexus 6 er ekki með fingrafaralesara

Þeir sem hafa notað MotoX (eða Nexus 6) hafa tekið eftir stóru holunni á bakhlið símans. Hún virkar bæði stór og tilgangslaus þótt furðu þægilegt sé að hvíla vísifingur þar. Nú hefur lekið út að í upphaflegu hönnun Nexus 6 átti að vera fingrafaraskanni í holunni. Motorola var í viðræðum við fyrirtækið Authentec varðandi skannann. Þegar Apple keypti óvænt Authentec á 356 milljónir dala þá þurftu Motorola að skoða aðra möguleika. Eftir talsverða leit var það niðurstaða þeirra að sleppa frekar skannanum en að velja þann næstbesta, því aðrir skannar á markaðnum voru einfaldlega ekki nógu góðir. Því kom Nexus 6 út eins og hann er og ennþá er leit að Android síma með nothæfum fingrafaraskanna.

 

Heimild: The Telegraph