Android 5.0 Lollipop – Ljúffeng uppfærsla

Google kynnti næstu útgáfu af Android á I/O ráðstefnunni í sumar, en útgáfan fékk aldrei annað nafn en Android L. Google hefur haft þá nafnahefð síðan í útgáfu 1.5 að nefna útgáfurnar af Android í höfuðið á nammi. Android 4.0 var Ice Cream Sandwich, 4.1-4.3 var Jelly Bean og 4.4 kallaðist KitKat. Núna var komið að bókstafnum L og hafa verið ótal orðrómar um hvaða nammi yrði fyrir valinu og hvort að útgáfan færi í 4.5 eða 5.0. Google nýtti sér þessa athygli í þaula og daginn áður en Nexus tækin og næsta Android útgáfan var tilkynnt setti forsvarmaður Android Sundar Pichai inn myndband á YouTube þar sem hinn ýmsu nömm sækja um hlutverkið. Í myndbandinu sést meðal annars lakkrís, kálhaus (e. lettuce), en hvergi sést sleikjóinn í myndbandinu. 

[youtube id=”AlEE3hXJe5o” width=”600″ height=”350″]

Android 5.0: Lollipop og nýju Nexus tækin voru tilkynnt í síðustu viku. Hér verður gerð tilraun til að stikla á stóru yfir þær nýjungar og viðbætur sem koma í Android 5.0.

Nýtt útlit: Material Design

Helsta breytingin sem allir taka strax eftir er nýtt útlit. Google kallar nýja útlitið Material Design og er helsti tilgangurinn með því að sameina upplifun á öllum tækjum á stílhreinan og smekklegan hátt. Það eru mjög miklar pælingar á bakvið þessa hönnun sem má lesa nánar um hjá Google. Í stuttu máli er allt flatt út, sem er svipuð stefna og Apple tók með iOS 7, en er gert á allt annan hátt. Allar hreyfingar í stýrikerfinu og skiptingar milli glugga eru úr sama hlutnum og er ákveðin samheldni í allri hönnun. Það er í rauninni erfitt að útskýra þetta á okkar ástkæra ylhýra og því best að sjá það á myndbandi.

[youtube id=”Q8TXgCzxEnw” width=”600″ height=”350″]

Google hefur nú þegar uppfært flest öppin sín með þessari hönnun og munu öll öppin þeirra fá uppfærsluna þegar Android 5.0 kemur út. Android viðmótið sjálft fær mikla andlitslyftingu og lítur töluvert betur út en á fyrri útgáfum. Google hefur lagt mikla vinnu í að uppfæra minnstu smáatriði og skilar það sér í mjög líflegu og fallegu stýrikerfi. Fyrir ýmis dæmi um hvernig þetta lítur út má skoða grein Android Police.

Enn betri tilkynningar

nexus2cee_111_thumb

Android hefur verið leiðandi í að birta tilkynningar og skarar langt fram úr samkeppninni. Með Lollipop verða tilkynningarnar enn betri. Tilkynningar geta nú farið beint á læsiskjáinn, líkt og hefur verið hægt á iOS, en ólíkt því stýrikerfi þá virka tilkynningarnar almennilega. Hægt er að vinna með tilkynningarnar á læsiskjánum eins og t.d. með því að svara skilaboðum eða tvísmella á þær til þess að opna viðeigandi app. Tilkynningarnar fá einnig andlitslyftingu og birtast nú sem flöt spjöld. Android lærir líka hvaða tilkynningar eru mikilvægastar fyrir hvern notenda og birtir þær mikilvægustu efst og ómerkilegri neðar. Það er einnig hægt að setja stillingu á sem birtir eingöngu mikilvægar tilkynningar, einskonar snjall “silent mode”. Það eru margar aðrar breytingar eins og að halda niðri á tilkynningu til þess að sjá úr hvaða appi hún kemur og banna ákveðnum öppum að birta tilkynningar.

Google hafa líka breytt flýtistillingum algjörlega. Í staðinn fyrir að renna niður tilkynningargardínuna með tveimur puttum þarf bara að fletta niður til þess að komast í flýtivalmyndina. helstu breytingarnar þar eru takkar fyrir vasaljós, snúa litum við og chromecast takki ásamt algjörri endurhönnun á útliti.

Bætt rafhlöðuending

Ein helsta ósk allra snjallsímanotenda er bætt rafhlöðuending. Google kynnti Project Volta á I/O og er helsti tilgangur þess að bæta rafhlöðuendingu tækja. Með Volta eru ýmsar breytingar gerðar undir húddinu á stýrikerfinu til þess að minnka rafhlöðunotkun við ýmsar aðgerðir. Eitt dæmi um það er að með því að kveikja á skjánum í 1 sekúndu brennur síminn 2 mínútum af rafhlöðunni. Með allskonar voodoo göldrum sem ég hef ekki færi á að skilja hefur Google minnkað svona rafhlöðunotkun til muna, ásamt því að bæta inn Battery Saver Mode í grunninn á stýrikerfinu. Þegar síminn á 10-15% eftir af rafhlöðunni er hægt að kveikja sjálkfrafa á battery saver mode og auka rafhlöðuendingina um 90 mínútur. Það er gert með því að klukka örgjörvann niður, slökkva á víbringi, lækka birtu og drepa á bakgrunnskeyrslum á öppum. Ýmsir framleiðendur hafa boðið upp á sambærilega fídusa í sínum símum, en það er klárt mál að með því að hafa þetta byggt inn í stýrikerfið má ná enn betri árangri.

Bætt öryggi

Android hefur lengi sætt gagnrýni fyrir að vera óöruggt stýrikerfi. Með Android L bætir Google við nokkrum öryggisuppfærslum sem byggja meðal annars á Samsung Knox. Öll ný tæki eru nú dulkóðuð til þess að tryggja enn meira öryggi. Sá möguleiki hefur verið í boði lengi, en notendur hafa þurft að kveikja sérstaklega á honum. Með Android Smart Lock er hægt að para síma við tæki eins og snjallúr og sleppa við að þurfa að stimpla inn pin númer á símanum. Með öðrum orðum er síminn ólæstur svo lengi sem síminn og úrið séu tengd saman, en um leið og úrið dettur úr sambandi við símann þá þarf að stimpla inn pin númer. Þessi fídus er ekki fyrir alla en getur verið mjög þægilegur fyrir þá sem eru með blutooth útvarp í bílnum eða nota snjallúr dags daglega.

Í útgáfu 4.2 af Android var boðið upp á þann möguleika að vera með marga notendur á einni spjaldtölvu. Nú loksins hefur Google bætt þessu við á snjallsíma. Þetta er kærkomin viðbót fyrir fjölskyldufólk sem vill ekki að krakkarnir komist í vinnupóstinn eða Tinder appið. Það er líka boðið upp á gestanotanda, sem er mjög þægilegt til þess að leyfa öðrum að fikta í símanum sínum án þess að allar nektarmyndirnar eða mikilvægu vinnuskjölin séu í hættu.

Eitt Android á öllum tækjum

2014-10-19 09.46.57

Lollipop er ein stærsta uppfærsla á Android stýrikerfinu frá upphafi, bæði útlitslega og kerfislega. Android upplifunin á nú að vera eins á öllum tækjum, sama hvort það sé á síma, spjaldsíma, spjaldtölvu eða sjónvarpi. Google leggur mikla áherslu á með þessari uppfærslu er að öll tækin sem þú notar tali saman. Þannig eiga allar leitir, öpp og tónlist að synca á milli tækja og upplifunin að vera sú sama. Ég er að keyra Android L Developer Preview á Nexus 5 og eitt af því fyrsta sem síminn bauð mér upp á við uppsetningu var að sækja stillingar af öðru tæki eða nota afrit frá Google. Ég valdi að afrita úr skýinu og náði síminn þá í öll öpp og stilingar eins og var síminn alveg eins og áður. Þetta er algjör himnasending fyrir þá sem eru að flakka á milli tækja eða fyrir þá sem eru að fá sér nýjan síma eða spjaldtölvu.

Það fer ekki á milli mála að Android 5.0 er ein stærsta og róttækasta uppfærslan sem Google hefur gefið út.  Það eru aragrúi af nýjungm og breytingum í henni sem ég hef ekki minnst á enn, nýtt ART runtime sem á að skila allt að 4x betri framistöðu, stuðning við 64 bita örgjörva, ótal uppfærslur á myndavélum, lækkun á svartíma í hljóði, stuðning við 5.1 og 7.1 surround, þúsundir af nýjum API, OpenGL ES 3.1 fyrir bætta grafík og íslenskt tungumál svo eitthvað sé nefnt.

Hvenær fær mitt tæki 5.0?

Stóra spurningin á allra vörum við útgáfu af nýju Android stýrikerfi er hvenær fær mitt tæki uppfærsluna? Því miður þurfa sumir líka að spurja fær mitt tæki uppfærsluna? Þeir sem eiga Nexus 5 og Nexus 7 (2013) geta nú þegar náð í Developer Preview útgáfu af stýrikerfinu, en hún er eingöngu fyrir nörda og fiktrassa og er ókláruð. Það er talið að uppfærslan komi 3. nóvember á Nexus 5, Nexus 7 (2013), Nexus 7 (2012) og Nexus 4. Í kjölfarið á því munu framleiðendur keyra uppfærsluna á sín tæki.

Samsung hefur ekki gefið neina formlega tilkynningu, en útgáfa af TouchWiz á Android L lak á netið nýlega. Það má búast við að að Note 3, Note 4, Galaxy S4 og Galaxy S5 fái bókað uppfærsluna. 

HTC tilkynnti að þeir muni uppfæra sín tæki innan við 90 dögum eftir að Lollipop komi út á HTC One M7 og M9. 

Sony voru ekki lengi að tilkynna að öll Xperia Z línan fái uppfærsluna. Það eru Xperia Z, Xperia ZL, Xperia ZR, Xperia Tablet Z, Xperia Z1, Xperia Z1S, Xperia Z Ultra, Xperia Z1 Compact, Xperia Z2, Xperia Z2 Tablet, Xperia Z3, Xperia Z3v, Xperia Z3 Compact og Xperia Z3 Tablet Compact.

LG hefur ekki tilkynnt hvaða tæki fái uppfærsluna en búast má við að LG G3, G2 og G Pad 8.3 fái uppfærsluna.

Motorola munu að öllum líkindum uppfæra sín tæki stuttu á eftir Nexus tækjunum. Staðfest tæki eru Moto X (2013 & 2014), Moto G (2013 & 2014), Moto E, Droid Ultra, Droid Maxx og Droid Mini.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] er ekkert að tvínóna við þetta og mun rúlla út Android 5.0 (Lollipop) út á flaggskipið sitt, LG G3, í nóvember. Það gerir það eitt fyrsta tækið fyrir utan […]

Comments are closed.