iPhone 6 umfjöllun: besti síminn í dag?

iPhone 6 kom út í haust og Simon fékk hann í prófanir í nokkra daga. Síminn er stórt stökk frá iPhone 5S, enda er iPhone endurnýjaður annað hvert ár með S útgáfum á milli hin árin á móti. Þá er farið í gegnum svokallað “re-tooling” eða ný framleiðslulína búin til. Ný hönnun, nýir spekkar, nýr skjár. iPhone 6 er með stærri skjá (4,7″), hraðari 64 bita örgjörva (1,4 GHz A8) og betri myndavél (8MP og sneggri fókus). Tölurnar segja samt ekki allt.

Hönnun

Bless hvassir kantar, halló mjúkar línur og horn. Hvað varðar ytri hönnun, þá er þetta allt annar sími. Kantarnir, sem þú gast áður notað til að raka kókaínlínur, eru nú ávalir og mjúkir. Síminn fer því mun betur í lófa. Aftur á móti þá er síminn er alveg fáranlega sleipur. Ég var oft næstum því búinn að missa símann í gólfið við það að handleika hann. Það venst líklega, eða er auðvelt að laga með hulstri.

iPhone-6-2

Síminn er að mestu úr aðlaðandi áli sem kemur í þremur litum: silfur, gull og grátt. Silfrið rokkar. Svo að framan er hert Gorilla-gler (Gorilla glass 3). Það er mikið búið að kvarta yfir plastlínunum á bakhliðinni. Þær eru gerðar til að bæta samband símans. Þær eru ekki í sama lit og bakhliðin sjálf og það finnst mörgum slæmt. Mér fannst það koma ágætlega út þegar ég loksins sá símann.

P1060086

Myndavélalinsan stendur aðeins út úr, þannig að bakhliðin er einfaldlega ekki slétt. Síminn vaggar þá aðeins ef þú notar hann liggjandi á flötu yfirborði. Það er ekki beint þægilegt, en smáatriði. Svo var bent á að myndavélaaukahlutir festist mun betur við linsuna með þessari hönnun.

Út af fingrafaralesaranum að framan, eða heim-takkanum, þá er síminn hannaður frekar hár. Hönnuður Apple, Jony Ive, vill greinilega halda í speglaða hönnun og eru því neðri og efri hluti framhliðar jafnhá. Hann virkar því aðeins hærri en hann þarf að vera.

P1060088

Skjárinn hefur loksins verið stækkaður, frá rækjustærð í 4,7″ skjá með 750 x 1334 pixla upplausn. Loksins er hægt að skoða fasteignavefi Íslands á iPhone. Þetta er búið að vera algert grín í mörg ár. Þetta er ein uppáhalds skjástærðin okkar hér hjá Simon. Upplifun vöfrunar eykst til muna, án þess að síminn sé of stór í flestar hendur. Frábær breyting að okkar mati. Skjárinn er líka sá besti sem ég hef séð. Réttir litir, bjartur, hægt að horfa á hann með miklum halla.

Síminn er sjúklega þunnur, eða 6,9 mm (áður 7,6 mm). Það er ágætt, en ég hefði alveg viljað stærri rafhlöðu. En síminn þurfti einhver einkennisorð.

P1060095

 

Þetta er fallegasti sími sem ég hef séð. Allt við hönnun iPhone 6 öskrar gæði og vandvirkni.

Viðmót

Apple uppfærði í iOS 8 sem gerði stórar breytingar sem eru okkur að skapi. Nú er búið að opna fyrir lyklaborð frá þriðja aðila, og Swift Key er komið (reyndar vantar íslenskuna, en það er í vinnslu). Við gætum ekki verið ánægðri. Það þarf samt aðeins að fínpússa virknina og viðmótið. iOS lyklaborðið kemur t.d. alltaf þegar það er verið að slá inn lykilorð, öryggis vegna segir Apple. Takkinn til að skipta um lyklaborð þyrfti einhvers konar stöðlum. Hann hoppar á milli staða eftir lyklaborði. Annars frábær breyting og eiginlega fáranlegt að þetta sé að gerast svona seint.

ios8-blogpost

Svo kom eitthvað sem heitir Family Sharing til að miðla efni innan fjölskyldu. Ég er ekki búinn að prófa það, en það lofar góðu. iCloud fékk eitthvað sem heitir Drive til að koma skjölum á iOS tækið þitt frá öðrum Mac/iOS tækjum. Einnig er komið tól til að samræma hluti sem þú ert að vinna í, á milli iOS og Mac tækja. Ef þú ert hálfnaður við að svara tölvupósti í tölvunni, getur þú tekið upp símann og fengið svarið upp þar. Núna er hægt að taka á móti símtölum í Mac tölvunni þinni núna, sem ég slökkti strax á sem og flestir aðrir sem ég þekki. Núna þegar þú smellir tvisvar á heimtakkann þá koma einnig upp uppáhalds tengiliðirnir þínir.

design_hero_large_2x

Fullt af fídusum, sem eru missniðugir. Frábær uppfærsla í heild, sem er auðvitað ekki einungis fyrir iPhone 6 heldur einnig iPhone 4S og nýrri. Viðmótið er stílhreint, einfalt, hratt og fallegt. Hvergi er hökt eða hnökrar. Mín helsta gagnrýni eru skjáborðin, sem hafa lítið breyst í gegnum tíðina, og tilkynningar. Það er mjög óþægilegt að raða táknum og ég væri alveg til græjur eins og eru í Android (e. widgets). Svo er kominn tími á nothæfa tilkynningargardínu.

Myndavélin

Þetta er ein besta myndavélin sem þú færð í dag. Hún er fáranlega snögg að taka myndir. Tvítóna flassið skilar rétt lituðum myndum við litla birta. Myndirnar eru nógu skarpar þrátt fyrir 8 megadíla skynjara. Hærri tala segir ekki alla söguna.

Rafhlaðan

Ég hefði viljað sjá þykkari síma með stærri rafhlöðu. Síminn hentar mér mjög illa þar sem ég nota GPS til að taka upp hreyfingu og Bluetooth fyrir heyrnatól. Ég strauja því í gegnum rafhlöðuna og hún er oftast búinn rétt upp úr kvöldmat. Það eru hinsvegar ekki allir í þeim pakka. Síminn dugir flestum út daginn, en ef þú ætlar út um kvöldið, þá mæli ég með hleðslustund inn á milli eða stuðpinna.

iPhone-6-1

Samantekt

Frábær sími. Frábærar breytingar. Ekki laus við galla. Þeir eru samt smáir.

Kostir

  • Besta myndavélin í sínum klassa
  • Besti skjárinn í sínum klassa
  • Þunnur og mjúkur í hendi
  • Hraður

Gallar

  • Sleipur
  • Rafhlaðan undir meðallagi
  • Skjáborð óþægileg
  • Tilkynningar enn þá frekar glataðar

Simon gefur iPhone 6 fimm stjörnur af fimm mögulegum.