Windows 10 líka fyrir síma

Fyrir stuttu síðan kynnti Microsoft nýjustu uppfærslu á Windows stýrikerfinu sem mun bera nafnið Windows 10. Að þessu sinni er ekki eingöngu um að ræða nýtt stýrikerfi fyrir PC tölvur heldur mun það ganga þvert á öll tæki sem keyra Windows. Er þar átt við borðtölvur, fartölvur, spjaldtölvur og snjallsíma og er það töluverð breyting frá því sem nú er, þar sem í dag er annars vegar er um að ræða Windows stýrikerfi fyrir tölvurnar og hins vegar Windows Phone stýrikerfi fyrir símana, hvort með sína appverslun. Stóra breytingin hvað þetta varðar er að nú munu öll þessi tæki í raun keyra á sama stýrikerfi með aðgengi að sömu appverslun. Lögð er áhersla á samhæfingu milli mismunandi tækja eins og snjallsíma og fartölvu.  Þetta er eitthvað sem stefnt var að með Windows 8 en gekk ekki alveg upp.

Frá því að Windows Phone 8 var kynnt hafa nokkrar misstórar uppfærslur átt sér stað í stýrikerfinu, sú stærsta var þegar Windows Phone 8.1 kom. Allir Windows Phone 8 símar hafa fengið allar þessar uppfærslur.

Í síðustu viku var það svo óformlega tilkynnt að Microsoft áætlar að allir snjallsímar með Windows Phone 8 eða síðar, munu fá uppfærsluna í Windows 10. Allt að tveggja ára gamlir símar, eins og Lumia 920 munu fá uppfærslu í Windows 10.

Microsoft hefur frá því að Windows Phone 8 var fyrst kynnt, lagt mikla áherslu á að stýrikerfið vinni vel á ódýrari tækjum, þ.e. tæki með tvíkjarna örgjörvum og 512MB vinnsluminni. Einnig hefur verið lögð áhersla á að viðmótið sé einsleitt í öllum tækjum, hvort sem þau kosta 20 þúsund eða 120 þúsund krónur. Þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir t.d. app framleiðendur en 97% allra appa fyrir Windows Phone 8 keyra í öllum Windows Phone 8 símum. Þau 3% sem útaf standa eru stærstu XBox HD leikirnir sem krefjast 1GB í vinnsluminni.

Enginn útgáfutími hefur verið tilkynntur fyrir Windows 10 ennþá, en töluvert hefur verið talað um júní 2015 fyrir símtæki.