Lumia 530 – Umfjöllun
Fyrir rúmu ári prófaði ég Lumia 520. Hann kom nokkuð vel út samanborið ódýra Android síma þess tíma og fékk þrjár og hálfa stjörnu í einkunn. Nú er komið að arftakanum, Lumia 530. Þótt 530 sé arftaki 520 þá er hann í raun talsvert ódýarari valkostur og að mörgu leyti afturför frá 520. Skjárinn er verri. Geymsluplássið er minna og myndvélin er ekki lengur með autofocus. Allt þetta hefur Microsoft gert til að lækka verðið enn frekar enda kostar síminn 19.999 kr. eða 10.000 kr. minna en 520.
Gott:
Allt stýrikerfið keyrir án hiks eða hökts. Fljótlegt er að hoppa inn og út úr helstu öppum. Vafrinn er snarpur og fátt sem er hægtvirkt. Þetta er alls ekki algengt í Android símum á þessu verðbili og jafnvel má gera ráð fyrir smá hökti í talsvert dýrari Android símum. Þessum stöðugleika nær Microsoft með því að hafa stýrikerfið lokað og halda þéttu sambandi við framleiðendur tækjanna. Sambandið varð reyndar svo þétt að þeir enduðu á því að kaupa Nokia, sinn stærsta samstarfsaðila, en það er önnur saga. Hönnunin er stílhrein og fersk, að minnsta kosti úr fjarska. Síminn kemur í björtum litum og sá sem ég prófaði var skær grænn. Síminn fer vel í lófa þótt han sé nokkuð þykkur. Einn aðal kosturinn við símann er svo ferilská Microsoft í uppfærslum. Hinn ársgamli 520 keyrir á nýjustu útgáfu af Windows Phone 8.1, því sama og nýjust flaggskip Microsoft. Þetta er munaður sem er alltof sjaldgæfur á Android símum og á ódýrustu tækjunum þá þekkist þetta varla. Þannig er 530 ekki aðeins einn ódýrasti síminn á markaðnum heldur ætti hann að virka ferskur mun lengur en Android símar á sama verðbili.
Slæmt:
Síminn virkar “ódýr”. Kemur kannski ekki á óvart þar sem hann er ódýr en samt synd því það vantar ekki mikið upp á að að hönnun og frágangur fari langt framúr sambærilegum símum. Þrátt fyrir að stýrikerfið og helstu öpp keyri mjúklega þá á síminn það til að hökta í öflugustu leikjum og stærri forritum. Aftur, kemur ekki á óvart á þessu verðbili en þess virði að nefna það. Myndavélin er þokkaleg en verður aldrei meira en það. Hún er án auto focus (sem var í 520). Ef birta er góð þá eru myndirnar oft ágætar en ef það er einhver hreyfing á viðfangsefninu eða ljósmyndaranum nú eða birtuskilyrði slæm þá minka möguleikar á góðri mynd talsvert. Myndavélin er samt vel yfir meðallagi í þessum verðflokki. Enginn myndavél er á framhlið símans. Skjárinn er það versta við símann. Virkar útþveginn, sérstaklega í mikilli umhverfisbirtu. Skerpan er lítil og litir daufir. Mikil afturför frá 520 en á pari við aðra sambærilega síma. Mér fannst stýrikerfið líta ögn skárr út með svörtu þema en hvítu. Skortur á öppum er líka vandamál við Windows Phone. Sum eru til, önnur aðeins í eftirlíkingum (sem eru stundum betri en frumöppin) og stór hópur af forritum eru ekki á leið á Windows Phone í bráð. Þumalputtareglan er að ef það er kynnt heitt, ferskt, nýtt app, innanlands eða utan þá er sjaldnast minnst á Windows Phone útgáfuna og langur tími getur liðið þar til hún þá kemur. Hinsvegar eru öll helstu samfélagsöppin til staðar fyrir Windows Phone. Þannig ættu þeir sem setja lítið af viðbótar öppum inn á síman ekki að hafa miklar áhyggjur. Hafa verður líka í huga að lang flestir af þessum göllum (fyrir utan app skortinn) eru til staðar (og jafnvel verri) á öðrum símum á þessu verðbili.
Niðurstaða:
Lumia 520 fékk niðurstöðuna “einn allra besti síminn á minna en 30.000 kr.” og hann var það svo sannarlega. Hann er líka talsvert betri sími en 530. Í raun er Lumia 630 “réttari” arftaki 520 þótt hann sé einnig ódýrari eða á 25.000 kr. Fyrir minni upphæð fær þar talsvert betri sími. Það er því í raun ekki sanngjarnt að bera 530 saman við 520. Réttara væri að bera hann saman við 15-20.000 kr. Android síma og þar stendur 530 sig nokkuð vel. Hann virkar hraðari og ég varð minna var við hökt eða hikst en í Android símum á þessu verðbili. En með 530 er verið að skrapa botninn á (verð) tunnunni. Enginn af þessum símum á þessu verðbili er góður og fyrir hvern þúsundkall sem þú hækkar þig í verði þá færðu talsvert betri síma. Fyrir 5.000 kr. meira getur þú valið úr LG L70, Lumia 630 og Samsung Galaxy Trend Plus. Allir þessir símar eru með mun betri skjá, betri myndavél og heilt yfir betri upplifun. En ef verðið skiptir öllu máli og 20.000 er agljört hámark þá er 530 bestu símakaupin á markðanum.
Lumia 530 fær því 3 stjörnur af 5 mögulegum.