Hvernig nettengingu á ég að fá mér?

Það er aragrúi af netsambandi í boði í dag fyrir Íslendinga. Ísland stendur sig mjög vel í netvæðingu heimila og er mjög hátt hlutfall heimila netvædd hér.  96,55% Íslendinga eru með aðgang að netinu, sem er annað sætið rétt á eftir Falklandseyjum (hverjum hefði dottið það í hug?). Það er yfir 115 þúsund fastlínunettengingar eru á Íslandi og fjórðungur þeirra liggja til fyrirtækja og restin til heimila. Það helsta sem er í boði er ADSL, VDSL, ljósleiðari og farnet (3G eða 4G). Í dag er hægt að fá farnet, en áður fyrr fóru allar nettengingar í gegnum fastlínu (kopar eða ljósleiðara).  Simon ætlar að fara yfir hvað er í boði og hvað hentar hverjum.

Netsamband á Ísland í boði 5.png

Gamla góða ADSL

Í gegnum hefðbundinn kopar er hægt að fá ADSL. Gamla góða ADSL-ið fer, tæknilega, mest upp í 24 Mb/s. Nethraði í boði á Íslandi um ADSL er mestur 16 Mb/s. Fjarlægð frá símstöð og gæði innanhúslagna hafa mikil áhrif á þann endanlega hraða sem þú færð með ADSL tengingu. Sambandið ber IPTV eða gagnvirkt sjónvarp nokkuð vel en erfitt er að vera með marga myndlykla á ADSL tenginu og háskerpuefni virkar ekki vel nema samband sé mjög stöðugt. ADSL er í boði allt í kringum landið í þéttbýlum. Verðið á ADSL er svipað og á VDSL og ljósleiðara og því erfitt að mæla með því að taka þesskonar tenginu ef annað er í boði.  ADSL er í boði hjá öllum helstu þjónustuaðilum hér á landi í gegnum ADSL kerfi Mílu eða Vodafone.

VDSL eða Ljósnet

VDSL eða Ljósnet eins og Síminn markaðssetur það sem, er eitthvað sem mætti kalla ADSL á sterum. Þessi tækni er mun hraðari en ADSL og eru íslensk fyrirtæki að bjóða upp á allt að 50 Mb/s nethraða um VDSL í dag. Eins og með ADSL þá ræðst endanlegur hraði af fjarlægð frá götuskápi og gæðum innanhúslagna. VDSL býður upp á allt sem ADSL getur boðið, en í meira mæli og auknum gæðum: fleiri myndlyklar og háskerpusjónvarp. VDSL er í boði hjá öllum helstu þjónustuaðilum hér á landi í gegnum Ljósveitu Mílu eða Vodafone VDSL

Er Ljósnet það sama og Ljósleiðari?

Langt í frá. Þetta er í grunninn sama tækni og ADSL, en það er búið að færa símstöðvar nær heimili. Í stað þess að sambandið sé í allt að þriggja kílómetra fjarlægð í stóru rými á sama stað, þá er dreginn ljósleiðari að götuskápi og sambandinu komið fyrir þar. Ljósleiðari er því að skáp í götunni og svo er túrbó ADSL tenging frá húskassanum inn á heimilið. Ljósnet er jafnmikið ljósleiðari og bjórlíkið var bjór. VDSL eru fínar nettengingar, ef ljósleiðari er ekki í boði.

Ljósleiðari

Ljósleiðari er hraðasta mögulega tenging sem í boði er og framtíðin í gagnaflutningum. Ljósleiðarinn er lagður alla leið og því er hraðinn margfalt betri en með öðrum leiðum. Ljósleiðari er framtíðin því núverandi tengingar eru aðeins að nota lítinn hluta af fræðilegum hámarkshraða. Í dag er boðið upp á 100, 200 og 400 Mb/s nethraða og möguleiki er á því að fara upp í allt að 1000 Mb/s hraða. Netsamband sem fer um koparlagnir eins og ADSL og VDSL eiga ekki möguleika á því að veita þennan hraða. Þegar IP sjónvarpslausnir halda áfram að þróast og fara upp í 4K, 3D og 8K þá er Ljósleiðari eina sambandið sem kemur til með að bera þá tækni. Ljósleiðari er í boði hjá öllum þjónustuaðilum hér á landi nema Símanum í gegnum margar gagnaveitur. Gagnaveita Reykjavíkur er sú stærsta í dag og býður upp á allt að 400 Mb/s samband á höfuðborgarsvæðinu sem og víðar.

Farnet

Flest erum við komin með snjallsíma í dag og ein einfaldasta leiðin til að tengjast netinu er í gegnum þá (ef maður tímir hleðslunni). Flestir símar í dag bjóða upp á að nota þráðlausa neitð og breyta því í heitan reit þannig að önnur tæki geti tengst netinu í gegnum símann. Þetta getur verið gagnlegt og reddað manni á hlaupum en erfitt er að mæla með þessu sem einu nettenginu heimilisins. Bæði er gagnamagnið í síma ekki það ódýrasta í farsímaáskriftum og þetta étur upp rafhlöðuna. Til þess að leysa það býður Nova upp á netpakka um 3G/4G sem eru þá fyrir sérstaka farnetsbeina sem virka eins og hefðbundnir beinar að öllu leyti nema þeir tengjast ekki við símatengil eða ljósleiðarabox. Þeir þurfa bara rafmagn og símkort með netáskrift. Það verður varla meira plug n’ play. Þetta getur verið hentug lausn því hún er auðveld í uppsetningu og er tiltölulega ódýr. Hinsvegar er hraðinn talsvert minni en á ljósleiðara eða ljósneti og svartími mun hærri. Gagnavirkar sjónvarpslausnir eru heldur ekki í boði. Eins og er þá er gagnamagn dýrast á farnettengingum. Þetta hentar þeim sem hafa minni kröfur, flakka mikið á milli staða eða geta ekki beðið í einhverja daga eftir fyrstu tengingu.

Hraðinn frá þér

Ólíkt ADSL og VDSL þá er ljósleiðari samhraða eða með sama hraða í báðar áttir. ADSL er einungis með allt að 3,3 Mb/s upphalshraða og VDSL 30 Mb/s. 4G farnet getur boðið upp á allt að 130 Mb/s hraða, fræðilega séð. Raunin er allt önnur og mesti mögulegi hraði 25–30 Mb/s hér á landi. Svo er svo mikið sem hefur áhrif á sambandið: fjarlægð frá sendi, veðurfar, gróður og fjöldi notenda á sendi en raunhraðinn er þá líklega í kringum 10 Mb/s. Ef þú notar mikið þjónustur eins og Dropbox eða Google Drive, þá viltu vera með sem mest upphal til að ná að koma gögnum frá þér á sem skemmstum tíma. Þá er ljósleiðari augljóst val.

Svartími

Svartími skiptir marga miklu máli. Þú vilt hafa lágan svartíma. Svartími er í raun ekki vandamál á fastlínu en ljósleiðari veitir lægsta svartímann. Svartími er vandamál á 3G og 4G farneti. Svartími á fastlínu er 5–15 ms en er 70–130 ms á 3G eða 25–35 ms á 4G. Farnet hentar því illa fyrir þjónustur sem eru viðkvæmar fyrir svartíma. Það eru t.d. símtöl og tölvuleikir.

Og hvað?

Við nördarnir í Simon myndum aldrei kaupa annað en ljósleiðara ef það er í boði. Maður þarf bara að fara í opið hús til átta sig á því hversu mikilvægt það er að hafa aðgang að ljósleiðara: “Er ljósleiðari í þessari íbúð?”, er afar algeng spurning. Fólk sem fer á ljósleiðara, fer ekki af ljósleiðara nema þegar það flytur út af þjónustusvæði ljósleiðara. Verðmunur á milli dreifileiða er ekki mikill. Það er í boði að fá ótakmarkað gagnamagn á ADSL og farnet er með dýrasta gagnamagnið. Verð á ljósleiðara og ljósneti er oftast sambærilegt hjá þjónustuaðilum.

Mikið hefur verið talað um aðgangsgjald ljósleiðara og línugjald Ljósnets. Við fyrstu sýn virðist aðgangsgjaldið vera hærra en línugjald, en hluti af aðgangi ADSL og VDSL tenginga er rukkað inn í mánaðargjald þeirra þjónusta. Heildarmánaðargjald milli dreifileiða eru sambærileg. ADSL og VDSL eru einnig mun viðkvæmari sambönd og við þekkjum flest vandamálin í kringum þau. Ljósleiðari veitir mun stöðugra samband. Farnet hefur einnig sínar takmarkanir og tengjast þær aðallega því að samband á hverjum sendi er mjög yfirselt, eða það eru fleiri um þá heildarbandvídd sem er í boði. En það sem hentar okkur nördunum, hentar kannski ekki öllum. Farnet er þægilegra í uppsetningu og fer auðveldlega á milli staða, en með hærri svartíma og dýrara gagnamagn. ADSL er í boði með ótakmörkuðu gagnamagni. VDSL er oft í boði þar sem ljósleiðari er ekki í boði. En í stuttu máli, ef þú ert með kröfur um gæði og hefur möguleika á ljósleiðara þá er það alltaf okkar meðmæli.

Þessi umfjöllun er kostuð.  Hugmyndin að efni hennar kemur frá kostanda en efnið er skrifað af meðlimum Simon.