HTC Desire 510 örumfjöllun
HTC Desire 510 er ódýr Android Kitkat snjallsími, sem er samt með góðu innvolsi til að keyra öpp og vefsíður. Undir húddinu er fjórkjarna örgjörvi og 1GB vinnsluminni. Skjárinn er nokkuð stór, eða 4,7″ með 480 x 854 upplausn. Þetta er einnig einn ódýrasti 4G síminn í dag. Síminn er seldur hér á landi á 35 þúsund krónur, sem er gott verð fyrir síma með þessum eiginleikum.
Hönnun
Síminn er mjög einfaldur í hönnun og fær ýmislegt lánað frá einu fallegasta Android snjallsímanum HTC One. En það er greinilega verið að spara í efnisvali og það er ekkert ál í boði hér. Bakið er úr stömu plasti með ávalar hliðar og horn, sem gerir hann reyndar þægilegan í hendi. Síminn kemur í hvítum, bláum og brúnum. Okkur líst best á hvíta litinn.
HTC býður upp á Sense viðmótið ofan á Android stýrikerfið, sem er líklega eitt breyttasta viðmótið á markaði á eftir Samsung Touchwiz. Við erum ekki hrifnir af miklum breytingum frá Android Stock (nexus viðmótið), en Sense nær samt að bjóða upp á nokkra góða punkta. Myndavélaviðmótið er t.d. frekar þægilegt. Aflæsing á skjái er ekki þægileg, og er boðið upp á að fara í þrjár áttir sem getur ruglað nýja notendur (@bjarniben). Það er skjár alveg til vinstri í viðmótinu, sem er svona tímaritaviðmót sem loggar sig inn á alla samfélagsmiðla sem þú notar. Við vorum fljótir að slökkva á því. Annars er hægt að stilla ýmislegt, og hægt að nálgast flestar stillingar í gegnum tilkynningargardínuna. Sveigjanlegt og fallegt viðmót.
Síminn styður segulmagnaða hulstrið Dot View frá HTC, sem er mjög skemmtilegt dæmi sem við förum ítarlega yfir í HTC One M8 umfjöllun okkar sem er á leiðinni.
Skjár
Þetta er 4,7″ skjár, sem er frábær stærð. Skjárinn er hinsvegar ekkert svakalega skarpur (480 x 854 upplausn) né góður. Litir eru óraunverulegir og daufir. Baklýsingin er frekar takmörkuð og það sést illa ef horft er á skjáinn frá halla.
Myndavél
Myndavélin á bakinu er eiginlega ónothæf. Það er ekki flass, en það er ekki eins og ég noti þannig nokkurn tímann fyrir utan til að ná fókus. Myndirnar sem ég næ eru meira abstrakt tjáningar af myndum. En þessi myndavél er algert aukaatriði fyrir þennan síma. Aðalatriðið er gott verð með góðum afköstum.
Rafhlaða
Það er 2100 mAh rafhlaða á þessu, sem endist mjög vel. Síminn endist mér alltaf út daginn. En ég tók engar myndir og engin myndbönd.
Niðurstaða
Þetta er þokkalegur sími, sérstaklega ef það er horft til þess að hann kostar einungis 35 þúsund krónur á Íslandi. Ef við horfum á þetta út frá vinnu, þá er þetta alger vinnuhestur sem getur enst út daginn og keyrt öll forrit eða opnað allar stórar vefsíður. Við getum mælt með þessum sem vinnutæki á góðu verði, en varla mikið meira en það.
Kostir
- Ódýr
- Hraður
- Góð ending rafhlöðu
Gallar
- Ódýrt efnisval
- Hræðileg myndavél
Simon gefur HTC Desire 510 þrjár stjörnur af fimm mögulegum.