iPhone 6 Plus bognar í framvasa
Fréttir af beygðum iPhone 6 Plus símum fara um eins og eldur í sinu. Þetta eru ekki fréttir fyrir okkur hjá Simon. Ál símar geta bognað undir álagi. Ál er nógu mjúkur málmur til að gefa eftir við álag í stað þess að brotna. Fyrri símar frá Apple, iPhone 5 og 5S, bognuðu t.d. við það að fara í rassvasa, þegar eigendur þeirra settust á þá. Ef þú sest á símann þinn ítrekað, þá mun eitthvað gerast. Það á við alla síma.
Einhverjar fréttir eru af því að iPhone 6 Plus (ekki iPhone 6) sé að bogna í framvasa, sem er eðlilegur staður til að geyma snjallsíma. Það er öllu verra. Kollegar okkar hjá Macumours hafa verið að fjalla um málið hér:
Þetta eru ekki mörg dæmi, sérstaklega í ljósi þess að 10 milljónir iPhone 6 og iPhone 6 Plus síma hafa selst á viku. Það þýðir að milljónir iPhone 6 Plus síma eru komnir í umferð. Plus síminn er þó mjög stór og er mjög þunnur. Það gæti verið að hann sé einfaldlega viðkvæmari en aðrir símar vegna hönnunar.
Myndband þar sem einhver prófar að beygja iPhone 6 Plus síma með handafli gengur nú um, og auðvitað bognar hann undir álaginu.
[youtube id=”znK652H6yQM” width=”600″ height=”350″]
Sami aðili prófar að gera það sama með Samsung Galaxy Note 3 og nær því ekki. Síminn er byggður úr plasti sem gefur ekki eftir. Það þyrfti meira afl og þá myndi síminn einfaldlega brotna.
[youtube id=”FwM4ypi3at0″ width=”600″ height=”350″]
Snjallsímar eru ekki byggðir til að þola allt. Þetta eru mismunandi viðkvæm raftæki. Sumir þeirra þola ýmislegt, eins og vatn og ryk (Samsung Galaxy S5 og Sony Xperia Z2 til dæmis). Aðrir fórna ýmsu fyrir útlit og hönnun. Það er alveg klárt mál að iPhone símarnir eru ekki harðgerð tæki og engin furða að það séu til milljón hulstur fyrir þá síma (rétt eins og fleiri síma). Það getur samt vel verið að þetta sé stormur í glasi og sé einungis að gerast við mjög takmarkaðar aðstæður. Hægt er að fylgjast með þessu máli betur á Twitter.
Þið sem eruð komin með iPhone 6 Plus, endilega látið okkur vita ef þið takið eftir vandamálum með því að tísta til okkar á @simon_is með merkinu #bendgate