Haustráðstefna Advania í dag – #Advania

Haustráðstefna Advania verður haldin í tuttugasta sinn í dag í Hörpu. Boðið verður upp á þrjár fyrirlestralínur um flest það sem skiptir máli í upplýsingatækni ásamt því að fjórir fyrirlesarar flytja lykilræður. Dagskrána má finna hér.

Símon.is verður á staðnum og mun tísta allan daginn um allt og ekkert sem skiptir máli á ráðstefnunni. Auðkenni fundarins er #Advania og hvetjum við lesendur til að taka þátt í umræðunni á Twitter hvort sem þeir mæti eða ekki.


Lykilfyrirlesarar (tekið af vefsíðu Advania).

Magnús Scheving, frumkvöðull – The Power of Being Lazy
Frumkvöðullinn og íþróttakappinn Magnús Scheving er fyrsti lykilfyrirlesari dagsins og hefur það vandasama hlutverk að fylla ráðstefnugesti af orku fyrir langan og strangan ráðstefnudag. Ef einhver getur gert þetta með stæl þá er það Magnús enda hefur hann náð frábærum árangri á sínum ferli. Hann skaust á sjónarsviðið þegar hann varð Evrópumeistari í þolfimi árin 1994 og 1995 en það ár var hann valinn Íþróttamaður ársins. Í dag heldur Magnús áfram að leiða framleiðslu á sjónvarpsþáttunum um Latabæ en hann er einnig eftirsóttur fyrirlesari og ráðgjafi ríkisstjórna um veröld víða.

Jim Grubb, aðstoðarforstjóri Cisco Systems
Þegar tæknirisinn Cisco sýnir það sem nýjast og flottast hverju sinni er kallað í Jim Grubb. Hann stendur gjarnan á sviði með forstjóra fyrirtækisins, John Chambers á stórum ráðstefnum erlendis þegar mikið liggur við að sýna með áþreifanlegum hætti hvernig upplýsingatæknin getur fært fyrirtækjum og einstaklingum raunverulegan ávinning.
Erindi Jim á Haustráðstefnu Advania fjallar um þá byltingu sem fylgir nettengingu allra hluta og kallast Internet of Everything á ensku. Þessu fylgja gríðarleg tækifæri á sviði viðskipta, menntunar, stjórnunar, verndun umhverfis, borgarskipulags og samgangna en jafnframt einnig gríðarlegar áskoranir á sviði upplýsingaöryggis.

Jesper Ritsmer Stormholt, Nordic Country Manager, Google Enterprise – Tölvuskýin eru bylting í fyrirtækjarekstri
Jesper Ritsmer Stormholt stýrir Google for Work á Norðurlöndunun en hann hefur meira en 16 ára reynslu í upplýsingatæknigeiranum. Hann hefur einbeitt sér að vinna að tækni og lausnum sem breytir því hvernig fyrirtæki innleiða og nýta upplýsingatækni í starfsemi sinni. Að undanförnu hefur hann einbeitt sér að fræða viðskiptalífið um hagnýtingu tölvuskýja sem nýta má til að bæta samskipti, samvinnu og upplýsingaöryggi. Í fyrirlestri sínum fer Jesper yfir hvernig stjórnendur geta nýtt lausnir sem byggja á tölvuskýjum til að leiða nýsköpun innan fyrirtækja sinna. Hann deilir dæmisögum með áhorfendum um fyrirtæki sem hagnýtt hafa skýjalausnir til að ná langtímaárangri í sínum rekstri.

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla Games – Ævintýrið um Plain Vanilla og QuizUp
QuizUp frá Plain Vanilla Games er líklega vinsælasti hugbúnaður sem hefur verið búinn til á Íslandi en um tuttugu milljónir manna spila þennan skemmtilega spurningaleik á Android og iOS snjalltækjum um allan heim. Í fyrirlestri sínum fjallar Þorsteinn um sögu Plain Vanilla Games og hvernig það kom til að QuizUp leikurinn varð til og sló í gegn. Hann fer yfir hvernig það er að reka ört vaxandi sprotafyrirtæki á Íslandi og aðstæður nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. Einnig fer hann yfir hvernig fyrirtæki eins og Plain Vanilla hefur fjármagnað sig og segir frá þeirri framtíðarsýn sem hann og samstarfsfólk hans starfar eftir.