Apple kynnir nýjar vörur í dag – við hverju má búast?
Hvenær? 17:00 að íslenskum tíma
Hvar get ég horft? apple.com/live og á Apple TV
Hvaða #kassmerki ætlum við að nota? #AppleIS
Apple heldur viðburð í dag þar sem nýjar vörur verða kynntar. Við vitum ekki nákvæmlega hvað verður kynnt því það eina sem Apple hefur gefið upp er “Wish we could say more“. Eins og undanfarin ár hafa myndir af nýjum tækjum lekið á netið og orðrómur um hvað verði kynnt er lekið til fjölmiðla.
Nýr iPhone – stærri sími og betri rafhlaða
Það er nánast 100% öruggt að nýr iPhone verður kynntur í dag. Við vitum ekki hvort hann verði kallaður iPhone 6 því Apple hefur hætt að kenna vöruflokka eins og iPad spjaldtölvurnar við númer. iPad, iPad Air og iPad Mini eru nýju nöfnin á spjaldtölvum þeirra og því ekkert ólíklegt að nýjar gerðir af iPhone fái Air, Mini, Pro eða jafnvel nýtt nafn.
Nokkrar myndir af nýjum iPhone með 4,7″ skjá láku nýlega á netið. Samkvæmt tæknibloggaranum John Gruber verður hinn nýji iPhone í tveimur stærðum: 4,7″ og 5,5″. Minna hefur þó verið um leka af 5,5″ íhlutum og því er líklegt að hann fari seinna í sölu en iPhone 6.
Vörulína Apple mun því vera svona í haust:
- Nýr iPhone með 4,7″ skjá (ætti að kosta svipað 5S kostar núna eða 110.000 kr.)
- Nýr iPhone með 5,5″ skjá (tilkynntur núna, en kemur seinna í sölu og verður dýrari en 4,7″ síminn)
- iPhone 5S (verður á c.a. 90.000 kr. hér á landi)
- iPhone 5C (mun lækka í c.a. 70.000 kr. hér á landi)
iWatch – nýr vöruflokkur snjallúra sem er takmarkaðra en þú heldur
Apple er sjaldnast fyrst á markað með vörur í nýjum vörufl0kkum. Þeir kjósa að bíða og fara inn á markaðinn þegar tæknin hefur náð þeim þroska að Apple getur búið til sína vöru. Það hefur heppnast vel með iPod, iPhone og iPad. Engar voru þær fyrstar í sínum vöruflokkum en allar náður þær ótrúlegu forskoti á stuttum tíma. Nýjasti vöruflokkurinn sem menn hafa beðið eftir inngangi Apple er snjallúra markaðurinn. Þrátt fyrir margar mis áhugaverðar vörur þá hefur enginn þeirra náð almennri hylli neytenda.
Það eru skiptar skoðanir innan Símon hópsins um hvað iWatch muni leggja áherslu á. Það er nokkuð öruggt að falleg hönnun verður í fyrirrúmi þar sem úr eru fyrst og fremst skartgripir en líklega verður rafhlöðuending einnig betri en á öðrum snjallúrum. Helsta gagnrýnin á iPhone er stutt ending rafhlöðunnar, sem gengur gegn stefnu Apple á öðrum vörulínum eins og Macbook, Macbook Air og iPad sem eru með frábæra endingu.
Hvað mun úrið gera? Við vitum það ekki en líklega verður það mjög takmarkað svo að rafhlöðan endist út daginn. Tilkynningar (e. notifications) er einn versti eiginleiki iOS7 stýrikerfisins og því kærkomið að fá betri tilkynningar á úlnliðinn ásamt því að geta talað við Siri án þess að taka upp símann. Við vitum ekki hvort Apple kynni snjallúr, sporttæki eða eitthvað allt annað en hvað sem það verður þá mun það ekki verða það sem þú býst við. Flest bendir þó til þess að mikil áhersla verði á hreyfingu og heilbrigði. Úrið mun fylgjast með hjartslætti og svefni, og styður það við nýja appið sem Apple gaf nýlega út: Health.
iOS8 – segðu bless við lélegt autocorrect
Síðasta uppfærsla iOS stýrikerfisins var sú stærsta frá upphafi og sást það best á gjörbreyttri hönnun. iOS8 var kynnt á WWDC fyrr í sumar og hefur verið í beta prófunum síðan þá. Þegar iPhone 5S var kynntur kom hann uppsettur með iOS7 og eldri tæki gátu hlaðið niður nýju útgáfunni samdægurs. Út frá því getum við gefið okkur að iOS8 komi út síðar í dag eða snemma í fyrramálið.
Helsta breytingin sem fólk mun taka eftir er nýtt lyklaborð fyrir iPhone og önnur iOS tæki. Damn you autocorrect er orðið þekkt fyrirbæri því iPhone býður upp á gjörsamlega ónothæfar leiðréttingar miðað við öpp á Android eins og Swiftkey. Með tilkomu iOS8 fáum við nýtt og betra autocorrect fyrir venjulega iPhone lyklaborðið en þar að auki munum aðrir hugbúnaðarframleiðendur gefa út lyklaborð eins og Swiftkey sem hægt er að sækja úr App Store.
Macbook, Apple TV, OS X Yosemite og fleira?
Haustviðburðir Apple hafa yfirleitt einblínt á iPhone og iOS en mögulega verður meira á boðstólnum í kvöld eins og nýtt OS X stýrikerfi fyrir Mac og Macbook tölvur og samþætting þess við snjalltæki. Við verðum á vaktinni á Twitter í kvöld og munum taka upp podcast um leið og atburðinum lýkur sem verður hægt að hlusta á síðar um kvöldið eða í fyrramálið. Fylgist með.
Símon.is á Facebook
Símon.is á Twitter
Alvarpið með Símon.is
Setja viðburð í dagatal
Trackbacks & Pingbacks
[…] og við fjölluðum um fyrr í dag mun Apple kynna nýjan iPhone og líklega iWatch snjalltæki. Nú þegar er fólk farið að tjá sig um viðburðinn á […]
[…] lekið á netið ásamt slúðursögum um við hverju fólk eigi að búast. Tæknisíðan Simon.is hefur tekið saman það helsta sem fólk getur átt von á að tæknirisinn kynni í […]
Comments are closed.