Út að hlaupa með Armpocket hlaupa-armbandinu
Nú þegar að vorið er loksins komið ættu afsökunum fyrir að sleppa líkamsrækt að fara fækkandi. Snjallsíminn er einn besti félaginn þegar kemur að líkamsrækt, hvort sem það er að merkja hlaupaleiðina á GPS tæki, sjá árangur eða bara til þess að hlusta á tónlist eða hlaðvörp. Eigendur snjallsíma sem nota þá í ræktinni, hlaupunum eða hjólinu ættu því hiklaust að fjárfesta í armbandi til þess að halda símanum öruggum og á þægilegum stað. Ég hef sjálfur átt nokkur armbönd, flest þeirra hafa verið ódýr 5 evru hulstur sem hafa virkað þokkalega, en ég hef aldrei verið alveg öruggur með símann. Ég fór því á snoðir á netið til þess að finna besta armbandið og endaði á því að finna Armpocket.
[youtube id=”fva511j21XQ” width=”600″ height=”350″]
Armpocket er bandarískt fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í hönnun og framleiðslu á armböndum fyrir snjallsíma. Þeirra helsta sérstaða er að þeir bjóða upp á margar mismunandi tegundir af armböndum sem passa fyrir mismunandi skjástærðir og tæki. Á heimasíðunni þeirra er hægt að finna nákvæmlega hvaða armband passar fyrir þinn snjallsíma og því hægt að vera viss um að síminn sé öruggur í armbandinu. Armbandið sem ég nota fyrir minn Nexus 5 er Armpocket i-35. Það er einstaklega vel hannað m.a með sterkbyggðri ól með öruggum frönskum rennilás, rakavörn og tveimur innri vösum fyrir lykla og kort. Ólin er gerð úr sérstöku efni sem andar og ég fann að ég svitnaði minna undir ólinni en ég gerði með gamla armbandinu mínu. Framan á armbandinu er plast sem er hægt að snerta skjáinn í gegnum sem virkar mjög vel. Innan í hulstrinu er gúmmírönd sem tryggir að síminn hreyfist ekkert eftir að búið er að koma honum fyrir og lokast armbandið svo með rennilás.
Ég hef alltaf verið hálf óöruggur við að hlaupa með símann á hendinni og hef ég þá aðallega haft áhyggjur af því að það færi að rigna eða að franski rennilásinn muni losna. Ég hafði engar slíkar áhyggjur með i-35, þetta er án vafa eitt best hannaða hlaupa-armband sem er hægt að fá. Það að þau séu sérhönnuð fyrir mismunandi tæki gefur þeim mikið forskot á samkeppnina. Því miður selur engin innlend verslun Armpocket armböndin, en það er hægt að panta þau beint af heimasíðunni þeirra . Armböndin eru frá $30-$50 (3.400-5.600 kr.) og er sendingargjaldið frá Bandaríkjunum til Íslands $13 (1.500 kr). Armböndin eru því á um 6.700 – 9.800 kr. með tolli og vaski, ekki það ódýrasta sem er fáanlegt en hverrar krónu virði. Fækkaðu afsökunum til að sleppa því að fara út að hlaupa, vertu með tækin þín örugg á þægilegan hátt og montaðu þig á Facebook af hlaupahringnum!
Armpocket armböndin eru ekki fáanleg í verslunum á Íslandi en þau má kaupa beint af heimasíðu Armpocket.