Toast: vörn úr við fyrir snjalltæki og fartölvur

toast-cover

Það eru til ótal tegundir af vörum sem eru hannaðar til þess að verja snjallsíma, spjald- og fartölvur. Vörurnar eru mismunandi eins og þær eru margar, en flestar hafa það sameiginlegt að vera ekki mjög fallegar. Oftar en ekki verða vel hannaðir snjallsímar algjörlega snauðir af persónuleika við það að setja þá í ódýr plasthulstur, en þeir haldast þó rispulausir. Ég hef sjálfur aldrei notað hulstur eða hlífar utan um mína snjallsíma og hefur mér tekist að halda þeim rispulausum. Helsta ástæðan fyrir því að ég nota ekki hlífar er sú að mér finnst símar vera fallegastir eins og þeir eru hannaðir og hefur engin hlíf heillað mig. Ég komst á snoðir um fyrirtæki í Bandaríkjunum sem heitir Toast og framleiðir varnarhlífar fyrir síma, spjald- og fartölvur úr alvöru við og ég ákvað að prófa þær.

Þegar að hlífarnar komu í pósti var ég ansi hissa þegar ég opnaði pakkann. Hlífarnar eru örþunnar, rétt aðeins þynnri en 1 kr peningur, og sveigjast örlítið en eru alveg óneitanlega úr alvöru við og eru merkilega sterkbyggðar. Toast sker út hulstrin með sérstökum laser sem lætur hverja hlíf passa á tækið upp á millimetra. Á innri hliðinni er svo mjög sterkt lím sem heldur hlífinni á tækinu. Límið er hinsvegar hannað til þess að leysast upp við hita og þarf því bara að blása á tækið í smá stund með hárblásara (ekki grilla tækið samt!) og þá losna hlífarnar.

toast mac 1 kr

Fyrir Nexus 5 símann voru hlífarnar 6 talsins, ein fyrir hverja hlið og svo sér fyrir takkana. Ég var mjög stressaður í fyrstu á að setja hlífarna á, aðallega vegna þess að ég er ekki sérlega handlaginn þegar kemur að nákvæmisvinnu með höndunum, en mér tókst þó að setja hlífarnar rétt á (ef ég get það, þá geta allir það). Í fyrstu safnaðist smá ryk í rifurnar sem voru milli hluta, en það hætti eftir nokkra daga. Eftir að hlífarnar voru komnar á símann varð hann að allt öðru tæki í mínum augum og annara. Síminn og tölvan vekur athygli hvar sem maður er, því að hann lítur óneitanlega ótrúlega vel út og er með gríðarlegan karakter. Hlífin fyrir fartölvuna er ekki alveg jafn falleg, en það er aðallega vegna þess hvernig hún er á hliðunum þar sem að öll tengin eru. Að ofan og framan er hún hinsvegar mjög fín og veitir vörn við rispum án þess að valda því að tölvan hitni aukalega. Það eina sem ég hef út á hlífarnar að setja er að það brotnaði frekar fljótt úr þar sem þær eru hvað þynnstar, t.d. örþunna rákin sem var fyrir ofan hátalarana á símanum. Það er þó eðlilegt að svo örþunnur (5x2x1 mm) viður losni þegar síminn er tekinn í og úr vasa, en það hefði mátt bara sleppa rákinni og hanna hliðina öðruvísi.

[slideshow_deploy id=’18409′]

Hlífarnar eru til fyrir nánast alla nýjustu snjallsímana, allar tegundir iPhone, iPad, Surface, MacBook og Chromebook. Hægt er að skoða úrvalið á vefsíðu Toast. Það er hægt að vera með hreina samvisku þar sem að allar vörurnar þeirra eru hannaðar á sjálfbæran máta og er allt handgert í Bandaríkjunum. Viðarhlífarnar kosta um $35-45 (4.000 – 5.000 kr) og er hægt að borga auka $5 og láta grafa mynd eða skilaboð í hlífina. Fyrir mína parta eru hlífarnar frá Toast með skemmtilegustu vörnum sem til eru fyrir snjalltæki og gæða þessum tækjum mikinn persónuleika og mæli ég hiklaust með þeim. Kjörið fyrir hipstera!