Sjáðu landið í beinni í símanum

Appið „Webcam Iceland” býður upp á að skoða vefmyndavélar sem eru staðsettar víðsvegar um landið og sjá hvað er að gerast í beinni útsendingu eða því sem næst. Þegar þetta er skrifað er mjög fallegt veður á Seyðisfirði, sólskin í Hlíðarfjalli á Akureyri, kafald á Austurvelli og hálkublettir en fallegt veður á Þröskuldum fyrir vestan.

Appið er einfaldlega safn af hlekkjum inn á vefmyndavélar víðsvegar um landið og býður í dag 103 mismunandi sjónarhorn um mest allt landið. Þegar maður opnar appið kemur upp þessi valmynd:

IMG_6844.PNG

Bæði er hægt að sjá venjulegar vefmyndavélar og „traffic cams” sem eru vegmyndavélar Vegagerðarinnar sem eru við þjóðvegi landsins. Maður velur einn af fjórum landshlutum í öðrum hvorum flokknum og þá kemur upp listi af myndavélum, hvar þær eru og hvert þær beinast. Persónulega byrja ég á Norðurlandi. Þá lítur valmyndin svona út:

IMG_6846.PNG

og maður velur þá vefmyndavél sem maður vill skoða. Sumar myndavélarnar opnast í vafra í appinu en sumar þeirra opnast í videospilara.

Appið er er í raun einföld smíði. Útlitið einfalt (og myndi aldrei skora hátt fyrir grafíska hönnun) og notkunin einföld. Allt skilar þetta því sem það á að gera.

Persónulega þykir mér þetta góð hugmynd að appi. Ef hugmyndin er góð þarf útfærslan ekki að vera flókin eða íburðarmikil, sem þetta app er einmitt ekki. Það er ábyggilega líka gaman fyrir Íslendinga sem búa erlendis að kíkja á appið og kanna stöðuna á vel völdum stöðum heima á Fróni.

Appið kostar þessa klassísku $1,24 eða um 140 ISK og er einungis fáanlegt í iOS tæki (iPhone, iPad og iPod touch) eins og er. Okkur skilst að Android útgáfa sé í vinnslu og kemur hún vonandi út sem fyrst.

Appið má sækja í App Store hérna.