Nýju Samsung Gear úrin í nærmynd

Samsung einokar nánast síðuna okkar um þessar mundir, enda ein vinsælustu tækin á markaðnum. Við kíktum ekki bara á S5 í dag, heldur einnig á Samsung Gear 2, Gear 2 Neo og Gear Fit snjallúrin. Helsta breytingin í nýju úrunum er án efa að þau keyra núna á Tizen stýrikerfi Samsung í stað Android. Hinn almenni notandi finnur ekki fyrir miklum breytingum, en við þróun á öppum á þetta að vera mun betra.

[youtube id=”RJBC9ozot3Q” width=”600″ height=”350″]

Gear 2 er strax töluvert skárra í útliti en upprunalega Gear úrið. Úrið er vel byggt og eru ólarnar betur hannaðar og fer mun minna fyrir þeim. Takkinn framan á úrinu er þannig gerður að það er nánast ekki hægt að ýta óvart á hann og virkar hann því vel til þess að slökkva á skjánum á úrinu. Í úrinu eru svo allir þeir möguleikar sem talað var um á S5 og Gear kynningunni eins og skrefamælir, púlsmælir, myndavél og innrauður sendir. Ending rafhlöðunnar hefur verið bætt og á úrið núna að endast í 2-3 daga í notkun. Gear 2 er þokkalega flott úr, en að mínu mati er það ekki snjallúrið sem neytendur vilja. Það er enginn að fara að tala í símann með því að nota úrið og myndavélin er tilgangslaus.

Gear 2 Fit er úrið sem við hjá Simon erum spenntastir fyrir af þessum þremur. Úrið sjálft er mjög áhugavert í útliti, en skjárinn á því er beygður og liggur úrið því mun betur á úlnliðinum. Fit er töluvert einfaldara í notkun en hin úrin og er tilgangur þess mun skýrari. Það er gert til þess að nota við hreyfingu. Úrið gerir nákvæmlega það sem það á að gera og gerir það vel. Ég gæti vel hugsað mér að nota Fit við líkamsrækt en ég nota sjálfur Pebble úr þegar ég fer út að hlaupa eða hjóla. Fit er því eina úrið af Gear seríunni sem ég gæti hugsað mér að nota, en það veltur þó alveg á hvað það mun kosta.

Gear 2 Neo er ódýrari útgáfa af Gear 2 og það finnst strax og maður setur úrið á sig. Úrið er úr plasti og er hönnunin ekki næstum því jafn góð og á Gear 2. Í úrinu er engin myndavél en þrátt fyrir það er það ekkert minna um sig en Gear 2. Það er þó töluvert léttara, en það er sennilega vegna plastsins og myndavélaleysis. Úrið hentar sennilega vel fyrir þá sem að vilja ekki eyða of miklu í snjallúr og virkar þar af leiðandi með mun fleiri tækjum en bara S4, S5 og Note 3 (líkt og Gear 2 gerir).

Nýja Gear serían er mjög áhugaverð og það er greinilegt að Samsung er að taka gagnrýnina sem það fékk á fyrra úrið og reyna að gera betur. Gear Fit er gott útspil við öðrum snjalltækjum eins og t.d. Fitbit og mun það sennilega ná mestum vinsældum af þessum þremur snjallúrum. Ég spái því að Gear 2 Neo muni seljast hvað verst af þessum úrum og sé eiginlega ekki tilganginn með því. Eina ástæðan fyrir því að gefa það út væri í rauninni ef það ætti að verðleggja það mun ódýrara en Gear 2, en ég efast stórlega um að verðmunurinn verði það mikill. Við munum að sjálfsögðu fjalla betur um Gear seríuna þegar að úrin koma út og við getum prófað þau almennilega.