Maglus snertipenninn: Góður förunautur fyrir spjaldtölvuna

Snertipennar hafa þróast mikið á síðastliðnum árum og eru alltaf að verða betri. Það er aragrúi af þeim í boði fyrir snjalltæki og höfum við hjá Simon verið að reyna að finna besta snertipennann. Það er hinsvegar hægara sagt en gert, þar sem að snertipennarnir henta flestir í mismunandi hluti. Sumir þeirra eru sérstaklega mjóir og henta því vel í nákvæmnisverk og til að skrifa með, aðrir eru breiðir og flatir og henta því betur í teikningar. Svo eru til pennar sem eru mitt á milli og henta því í bæði.

maglus1

Maglus snertipenninn frá Applydea fellur undir þennan síðasta flokk. Snertipenninn er með tiltulega breiðan snertiflöt, en nær þrátt fyrir það mjög nákvæmum snertingum. Það er hægt að skrúfa endann með snertiflötinn af pennanum og skipta um, en með honum fylgir lítið hulstur sem er hægt að hengja á lyklakippu og einn auka snertiflötur. Penninn sjálfur er sterkbyggður og er gerður úr áli og er fyrir vikið aðeins þyngri en þessir hefðbundnu pennar, sem eru flestir gerðir úr plasti. Hann er líka sérstakur í laginu, en hann er líkari því að vera eins og blýantar sem smiðir nota, en hann hefur tvær flatar hliðar sem eru breiðar og tvær mjórri sem eru kúptar. Á flötu hliðunum er gúmmí til að auka grip og gera hann þægilegri til að halda á. Inni í honum er segull og er því hægt að festa pennann auðveldlega á t.d. iPad og segullinn er það sterkur að hann helst í gegnum smartcover. Með pennanum fylgir líka lítill segull með límrönd og er því hægt að festa pennann á ákveðinn stað t.d. á skrifborði.

maglus2

Maglus snertipenninn er betri en aðrir snertipennar sem ég hef prófað. Hann nær að framkvæma nákvæmar snertingar, en er þó ekki besti snertipenninn í mjög mjóar og hárfínar teikningar. Sílíkonið á snertifletinum virðist vera sterkbyggðara en á ódýrari pennum og gefur því ekki eins mikið eftir. Það verður til þess að það þarf ekki að hafa jafn mikið fyrir snertingunum. Maglus er ekki ódýrasti snertipenninn sem í boði er, hann kostar um $35 (u.þ.b. 4.000 kr.) á Amazon, en hann er vel þess virði. Ef þú notar spjaldtölvuna þína mikið til þess að teikna eða skrifa þá er Maglus góð kaup. Hann fer mun betur í hendi en hefðbundnir pennar og það er einstaklega þægilegt að geta fest hann beint á spjaldtölvuna með seglinum. Við mælum því með þessum snertipenna fyrir þá sem vilja góðan snertipenna sem endist og er þægilegur í notkun.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem eru teiknaðar með Maglus snertipennanum teknar af Tumblr síðu Maglus.

Kostir

  • Góð og sterkbyggð hönnun
  • Innbyggður segull
  • Auka snertiflötur fylgir með
  • Fer vel í hendi

Gallar

  • Dýr
  • Ekki mjög góður fyrir hárfínar línur

Maglus snertipennann má kaupa á vefsíðu þeirra.