Íslenskt heimasímanúmer í gemsann

Ég flutti erlendis í ár og brá heldur í brún þegar að ég sá GSM reikninginn fyrir íslenska númerið mitt eftir fyrsta mánuðinn. Þrátt fyrir að síminn væri nánast óhreyfður á skrifborðinu mínu var reikningurinn upp á nokkur þúsund krónur. Eins og flestir vita þá kostar hálfan handlegg að móttaka símtal erlendis og eftir að hafa svarað nokkrum Gallúp símtölum að kvöldi til ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Ég vildi samt ekki missa möguleikann á því að fólk gæti hringt í mig, því að fæstir tíma að hringja í erlend númer og ekki eru allir á Google Hangouts eða Skype. Eftir smá umhugsun birtist lausnin. Íslensku fjarskiptafélögin hafa boðið upp á svokallaða netsíma (SIP) um nokkurt skeið. Það eru einskonar sýndarnúmer sem eru sett upp á netsímaboxum eða í forriti  og er þá hægt að hringja í og úr númerinu á innlendum taxta. Ég hugsaði með mér: „Hversu mikið vesen er að vera með svona númer í snjallsíma?“.

Ég komst að því að það er sáralítið vesen, sérstaklega ef þú ert með Android snjallsíma. Í Android er nefnilega innbyggður stuðningur fyrir netsíma og þarf því ekki að vera með sérstakt app til þess. Það eina sem ég þurfti að gera var að fá mér netsímanúmer og setja það upp. Athugið þó, þetta er ekki hægt á öllum Android símum, því að sumir framleiðendur hafa tekið möguleikann úr. Ég prófaði þetta á Nexus 4, Nexus 5, LG Optimus G, LG Optimus G2 og á Samsung Galaxy S2. Þetta virkaði á öllum símum nema G2. Þetta virðist því vera háð framleiðanda, en er þó í boði á flestum símum.

simon-sip-1

Til þess að setja upp netsímann er farið í Phone appið > Settings > Call Settings > Accounts (Undir Internet Call Settings). Þar er svo hægt að bæta við svokölluðum SIP (netsíma) reikningi og setja upp númerið. Til þess þó að þetta virki þarf viðkomandi að fá sér netsímanúmer. Hringdu, Síminn, Vodafone og Tal auglýsa öll netsíma á sínum síðum og eru verðskrárnar mismunandi. Ég fékk mér númer hjá Hringdu þar sem að þar var ekkert stofngjald fyrir nýtt númer og ódýrt mánaðar- og mínútugjald.

Að setja númerið upp var lítið mál, ég þurfti bara að setja inn símanúmerið, lykilorð og SIP server. Síminn tengdist strax og var hægt að taka á móti símtölum og hringja án vandræða. Ég mæli með því að stilla Use Internet calling: Ask for Each Call. Þannig er hægt að velja fyrir hvert símtal úr hvaða númeri á að hringja. Einnig er hægt að stilla hvort að síminn móttaki símtöl úr netsímanúmerinu eða ekki, það eykur rafhlöðueyðslu að taka á móti símtölum og ekki allir sem þurfa á því að halda.

simon-sip-2

Netsíminn virkaði betur en ég þorði að vona. Símtöl eru skýr og góð, jafnvel yfir 3G. Það var helst að símtöl fóru að brotna og verða óskýr ef sambandið var slæmt, en við góð 3G skilyrði eða sæmileg 4G og WiFi skilyrði er enginn munur á net- eða farsímasímtali. Netsímasímtöl taka líka ekki mjög mikið gagnamagn, en það fer eftir því hvernig staðal símfyrirtækið notar. Flest þeirra eru þó að nota G.729 staðalinn sem tekur 55kbps. Það þýðir að hver mínúta er um 412,5 KB. Það þýðir þá að fyrir 1 MB má tala í um 2,5 mínútur. Þetta skiptir engu máli á þráðlausu neti, en ágætt að hafa í huga þegar netsíminn er notaður yfir 3G eða 4G.

Eftir því sem ég best veit er ekki innbyggður netsími í iPhone eða Windows Phone símum. Það er þó aragrúi af netsíma öppum í boði. Það eina sem ég hef prófað er 3CX og hefur það virkað þokkalega, en það er til fyrir iPhone, Android Windows og Mac OS. Ég hef enga reynslu af öppunum sem eru í boði á Windows Phone en snöggt gúggl bendir á Linphone.

Kostirnir  við að hafa slíkan síma eru margir, bæði innanlands og erlendis. Innanlands er hægt að hringja fyrir mun minna (oftast ekkert) mínútugjald í aðra heimasíma og getur þetta verið ágætis varakostur fyrir þá sem eru háðir inneignum. Erlendis er hægt að hringja í íslensk númer á innlendum taxta og sömuleiðis móttaka símtöl án þess að kosti þann sem hringir mikið. Með þessu er líka hægt að setja símtalsflutning úr íslensku gsm númeri yfir í netsímanúmerið og þannig móttekið símtölin erlendis án þess að það kosti mann hálfan handlegg.