iPhone 5S umfjöllun

 

11453871966_21ec257286_h

Í haust kom út nýjasta flaggskip Apple, iPhone 5S. Fátt kom á óvart í þeirri útgáfu. Apple heldur sinni Porsche þróunarstefnu áfram, litlar en stöðugar breytingar í hverri útgáfu sem fínpússa frábæran síma og gera hann enn betri. iPhone 5S er enginn undantekning frá þessu. Hann hefur sama útlit og hönnun og við sáum í iPhone 5 fyrir ári, með uppfærðu innvolsi. Stærsta breyting við iPhone 5S fellst einnig í uppfærðu stýrikerfi með iOS7.

 

Hönnun

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í hönnun iPhone 5S. Þetta er í grunninn sami sími og iPhone 5 með örfáum útlitsbreytingum. Það skiptir heldur engu máli enda síminn einn sá fallegasti sem í boði er í dag. Lumia lína Nokia er það eina sem kemst nálægt í hönnun og frágangi. En ólíkt plast símum Nokia þá er iPhone 5S smíðaður úr vönduðustu efnum. Efnisval og frágangur gerir það að verkum að maður fær sömu tilfinningu um gæði og að handfjatla Leica myndavél, Rolex úr eða aðra gæðahluti. Samanborið við helstu samkeppnisaðila er Apple einfaldlega að keppa í annarri deild.

Síminn fæst í þremur litum: Space Grey, sem er ljósari útgáfa af svarta símanum síðan í fyrra. Hvítur, sem er alveg eins og hvíta útgáfan af iPhone 5. En sá litur sem hefur fengið mesta athygli er gylltur. Hann er áhugaverður og virkilega fallegur, en klárlega ekki allra. iPhone 5 var gagnrýndur talsvert fyrir það að rispast auðveldlega. Ég varð ekki var við það með 5S á þeim vikum sem ég notaði hann. Hann var sjaldnast í hulstri og ég vef lánssíma ekki inn í bómull frekar en síma sem ég kaupi. Símar þurfa að þola hefðbundna notkun og iPhone 5S stóðst það með prýði. Sagt er að ein af ástæðum þess að Space Grey sé ljósari en svarti iPhone 5 er einmitt til að gera rispur minna sýnilegar, ég veit ekki hvað er til í því.

 

Nýtt viðmót

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í umfjöllun um iOS 7. Stýrikerfið er alls ekki gallalaust og sumar af breytingum Apple eru “style over substance” sem iOS 1-6 var aldrei. Sumt er illa hugsað og jafnvel ruglingslegt. En viðmótið má eiga það að það er nútímaleg og (oftast) fallegt. Eftir að hafa notað iOS 7 í nokkrar vikur er dapurt að koma aftur á Android hvað þetta varðar. Það virkar staðnað og ljótt. Apple hefur þegar skorið marga vankanta af iOS7 sem bent var á þegar stýrikerfið var kynnt í júní.

Margt í iOS 7 er hinsvegar ný nálgun á stýrikerfið sem virkar misvel. Til dæmis er kominn ný leið til þess að fara til baka í forritum. Í stað þess að ýta á “til baka” örina upp í vinstra horninu er fingurinn dreginn frá vinstri brún skjásins yfir skjáinn þveran. Þetta virkar vel í þeim forritum sem styðja þetta en það er enginn leið til þess að vita hvaða forrit gera það og hver ekki. Þetta mun lagast með tímanum en eins og er getur þetta verið þreytandi. Annað sem ég hefði viljað sjá í iOS 7 er stuðningur við önnur lyklaborð. Ég veit að Apple er íhaldssamara en flestir en fyrir þá sem hafa notað Swift Key á Android þá er munurinn einfaldlega of mikill. Ég vandist lyklaborðinu aldrei nægilega vel og forðast það að taka þátt í löngu spjalli í Facebook messenger eða á Google Hangout. Með smá æfingu á Swift Key er ég nánst jafn fljótur og á venjulegt lyklaborð. Þetta er “deal breaker” fyrir marga.

 

Myndavélin

Samkvæmt helstu tæknimiðlum er iPhone 5S er með bestu eða næstbestu myndavél sem hægt er að fá á snjallsíma í dag. Ekki eru allir sammála en flestir hallast að því að Lumia 1020 hafi vinninginn. Þetta skiptir hinsvegar afskaplega litlu máli enda myndavélar beggja síma frábærar og þær eiga sér enga raunverulega samkeppnisaðila á markaðnum. Myndavélin er frábær og sú besta sem ég hef prófað á nokkrum síma (hef ekki prófað Lumia 1020). Hún ræður frábærlega við erfið birtuskilyrði. Myndavélaviðmót Appel er líka með því besta sem er í boði. Allt þetta kemur svo í pakka sem er léttari og nettari en t.d. Lumia 1020. Videoupptaka er 1080p og kemur vel út. Hér má sjá jólamyndbandið úr jólaauglýsingu Apple. Myndbandið er allt tekið upp á iPhone 5S. Einnig er hægt að taka upp á í 120 römmum á sekúndu. Þessi Slow-mo eiginleiki er mjög skemmtilegur og býður upp á marga möguleika. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem ég tók með símanum. Smellið á myndirnar til að fá upprunalega upplausn. Ekkert hefur verið átt við myndirnar.

11453709695_9ccd971383_c

Skjárinn og innvolsið

Nýjustu símar með Android og Windows Phone stýrikerfi eru komnir með full HD skjái á meðan upplausn á iPhone er 1136 X 640. Fyrirfram myndi maður halda að þetta væri vandamál en fáir skjáir eiga séns í skjáinn á iPhone 5S þegar kemur að skerpu og réttum litum.  Það hjálpar honum að vera mun minni en á helstu samkeppnisaðilum. Skerpan verður þannig meiri en ella. Ég sé Apple hinsvegar ekki koma með 5” síma í sömu upplausn en 4” skjárinn er einfaldlega frábær. Allir litir réttir og flottir, bjartur og engir gallar (aðrir en stærðin). Fyrir marga er 4” hinsvegar of lítið. Margir sem hafa vanist símum með stærri skjá geta einfaldlega ekki notað síma með svo litlum skjá og myndu þeir því fagna síma með 5” skjá. Hvað Apple gerir í framtíðinni er erfitt að sjá en margar virknisbreytingar í iOS7 (t.d. “til baka” virknin) benda til þess að stærri skjáir séu á leiðinni.

Innvolsið skiptir minna máli á iOS en á Android. iPhone 5S keyrir iOS7 mun betur en flestir Android símar keyra Android 4.3. Síminn hefði því ekki þurft mikla uppfærslu. En Apple fór þveröfuga leið. A7 örgjörvinn er einfaldlega öflugasti örgjörvi í snjalltæki sem í boði er í dag. Reyndar er útgáfan í iPad Air örlítið öflugri en heilt yfir er þessi örgjörvi algjört skrímsli. Hann er t.d. öflugri en nýjustu Intel X86 Atom örgjörvarnir og á pari við fyrstu Core i3 örgjörvana sem komu út fyrir fjórum árum. Ótrúlegt afl sem fá (ef nokkur) öpp nýta sem nokkru nemur. Vinnsluminnið er 1GB sem er meira en nóg. Apple gerði mikið mál úr því að A7 er 64bita en staðreyndin er sú að sú breyting mun ekki lítil sem engin áhrif í bili. En hún var rökrétt og mun oppna möguleika Apple í framtíðinni. Reynsla Apple af breytingum í 64Bita er líka það góð að þetta verður eitthvað sem mun gera gott mót eftir nokkur ár, án þess að neytendur taki eftir breytingunni.

 

Touch ID

Það er fátt sem Apple elskar meira en að taka staðnaðan markað/vöru sem neytendur hafa gefist upp á vegna lélegrar virkni og umbylta honum. Touch ID er gott dæmi um þetta. Eftir að Apple kynnti iPhone 5S í september þá fylltist internetið af misgáfulegum fréttum um að enginn hefði áhuga á að nota fingrafaralesara í síma, þeir virkuðu ekki. Einnig var bent á að Apple væru ekki fyrstir með fingrafaralesara í síma. En eftir 5 mínútur með Touch ID er augljóst að flestir sem spáðu fyrir um virknina voru að tala með rassgatinu. Þetta einfaldlega virkar og það er snilldin. Eftir nokkra dag hættir maður að taka eftir þessu. Þetta er enginn kóði, engin aðgerð. Þetta er bara náttúruleg leið til að aflæsa símanum sem er margfalt betri en allar aðrar aflæsingaraðferðir. Vel má vera að sprenglærðir CSI starfsmenn geti platað Touch ID með gúmmífingrum og öðrum töfrabrögðum en það kemur málinu ekkert við. Staðreyndin er sú að þetta er margfalt þægilegra en lykilorð sem auðvelt er að hakka og milljón sinnum öruggara en einhver kóði. Það er nokkuð öruggt að innan fárra ára verður þessi leið orðin staðall til að aflæsa öllum snjalltækjum. Þetta virkar betur en nokkuð annað.

 

Niðurstaða

Helstu kostir iPhone er fágað útlit, frágangur og “hágæða” upplifun.  Síminn er í annarri deild en allt annað á markaðnum hvað það varðar. Apple símar eru einnig mjög vel smíðaðir. Fáir gallar og vélbúnaður og hugbúnaður tala betur saman en hjá flestum framleiðendum. Svo má ekki gleyma því að Apple stendur sig betur en nokkur annar þegar kemur að uppfærslum. iPhone 3GS fékk uppfærslur í rúm fjögur ár. Hann var kannski ekki besti síminn á markaðanum fjórum árum seinna en það var alveg örugglega enginn Android, Windows Mobile eða Blackberry notandi jafn ánægður með síma sem hann keypti árið 2009 og notar ennþá í dag.

Fyrir þá sem gera ráð fyrir að nota snjallsíma í 1-2 ár að lágmarki þá er iPhone 5S bestu kaupin í dag. Hann er frábær í dag og verður það einnig árið 2014, 15 og 16.  Með verðlækkuninni  í desember síðastliðnum er verðið á Íslandi orðið mjög samkeppnishæft.

Við bætist svo frábær skjár, frábær myndavél, touch-ID og 4G. Þetta gerir iPhone 5S að besta síma sem í boði er í dag… fyrir þá sem sætta sig við 4″ skjá og takmarkanir á því hversu mikið er hægt að breyta útliti, lyklaborði o.s.frv.

 

iPhone 5S fær 5  stjörnur af 5 mögulegum í einkunn.

Kostir

  • Fallegt tæki
  • Góður einhendis og í vasa
  • Langbesta úrvalið af hágæða öppum
  • Þægilegt viðmót
  • Ein besta myndavélin sem fáanleg er í snjallsíma
  • Öruggar uppfærslur í 3-4 ár

Gallar

  • Hræðilegt lyklaborð (samanborið við t.d. Swift Key á android)
  • Léleg íslensk orðabók (AutoCorrect)
  • Lítill skjár
  • Takmarkanir iOS