Google Glass fær nýjar umgjarðir
Það verður seint hægt að segja að Google Glass líti sérlega vel út. Skrítið útlit gleraugnanna lætur fólk líta út fyrir að vera stórfurðulegt og hefur útlitið verið gagnrýnt frá því að Google Glass kom fyrst út.
Í dag tilkynnti Google nýja línu af umgjörðum sem eru sérhönnuð til þess að smella Google Glass á. Umgjarðirnar eru gerðar úr léttu títaníum stáli og eru með minimalíska hönnun. Hægt er að velja milli fjögurra umgjarða og kostar hver þeirra $225 eða um 26.000 kr. á núverandi gengi. Hafið þó í huga að sá kostnaður leggst ofan á $1,499 verðmiðann sem er á Google Glass og verða gleraugun enn dýrari ef setja á gler með styrk í þau. Google framleiðir ekki glerið, heldur eru í samstarfi við gleraugnaverslanir sem kaupendur fara sjálfir til. Það er þó hægt að fá gleraugu án styrkjar og er einnig hægt að fá sólgleraugu til þess að setja í umgjörðina.
[youtube id=”eneEmDtSvzI” width=”600″ height=”350″]
Það verður að segjast eins og er að umgjarðirnar líta vel út, sérstaklega við hliðina á hefðbundnu Google Glass. Samkvæmt Dieter Bohn hjá The Verge er ekki hægt að nota gleraugun án Glass, þar sem að hægra eyrað á gleraugunum er styttra en það vinstra og virka þau því mjög illa án þess. Umgjörðin er því algjör aukahlutur fyrir Glass og koma ekki í stað hefðbundinna gleraugna.
Google Glass er enn í lokuðum prófunum og eingöngu fáanleg í Bandaríkjunum. Talið er að Google mun gefa út gleraugun til almennings seinna í ár. Enn eru mörg vandamál sem á eftir að greiða úr áður en gleraugun verða gefin út, meðal annars ýmis lagaleg og siðferðisleg atriði.
Myndir: Google Glass G+