Radíus – Allir íslensku fréttamiðlarnir á einum stað
Radíus er nýtt app frá Gangverki sem gerir notendum kleift að lesa alla helstu íslensku fréttamiðla á einum stað. Appið er hannað til þess að hver og einn notandi geti fengið persónusniðinn fréttastraum og þannig nálgast allar þær íslensku fréttir sem hann vill lesa í einu appi. Notendur velja þær tegundir frétta sem þeir vilja að birtist í appinu og geta einnig valið á milli fréttamiðla. Þannig má til dæmis fá lífsstílsfréttir frá Fararheill og Turisti.is en sleppa Smartlandi MBL og Bleikt.is.
Radíus er mjög einfalt og frekar látlaust í útliti. Þegar appið er opnað er farið beint í fréttastrauminn þar sem fréttir úr öllum flokkum sem eru valdir birtast í tímaröð. Þannig er hægt að fletta í gegnum strauminn og sjá það sem er helst í fréttum. Fyrir hverja frétt birtist útdráttur úr textanum, lítil mynd ásamt nafni fréttamiðilsins sem birti fréttina. Þá má einnig finna lítinn takka til þess að skoða fréttina þar sem hún birtist upprunalega og annan takka til þess að deila henni á Facebook eða í tölvupósti (það vantar alveg Twitter takka!). Deila á Facebook takkinn virkaði reyndar ekki á því Android tæki sem ég prófaði appið á. Ef flett er efst upp í strauminn þá birtist blá stika sem gefur til kynna að appið sé að sækja nýjustu fréttir og uppfærir strauminn ef eitthvað nýtt er í boði.
Appið er nokkuð “iOS-legt” í útliti og er hamborgaravalmynd efst í vinstra horninu til þess að fá upp flokkana. Undir hverjum flokki er undirflokkur og við suma undirflokka eru undir-undirflokkar. Lítill punktur við hliðar hvers flokkar sýnir hvort maður kjósi að fylgja flokknum eða ekki. Ef hringurinn er tómur fylgir maður ekki flokknum, ef hann er fullur þá fylgir maður öllu í þessum flokki og ef hann er hálfur þá fylgir maður einhverju í flokknum.
Appið gerir nákvæmlega það sem það á að gera, safnar fréttum frá mörgum mismunandi miðlum á einn miðlægan stað í sérsniði hvers notanda fyrir sig. Helsti gallinn við appið er að það vantar nákvæma tímastimpla á fréttir, í núverandi útgáfu birtir það eingöngu dagsetningu en ekki klukkan hvað greinin var birt. Einnig mætti bæta við hvenær fréttastraumurinn var síðast uppfærður. Það mætti nánast telja fjölda fréttamiðla og flokka sem galla, en yfirflokkarnir eru 9 talsins, undirflokkarnir eru 21 og undir-undirflokkar eru 159 (tölur birtar með fyrirvara, höfundur gæti mögulega hafa misst þráðinn og ekki nennt að byrja upp á nýtt). Það tekur því smá tíma að fara í gegnum fyrstu uppsetningu, en hún er vel þess virði til þess að geta fengið nákvæmlega þær fréttir sem maður vill.
Það helsta sem ég hef út á appið að setja er að það er alveg eins á símum og spjaldtölvum. Það hefði verið mjög flott að sjá almennilegt spjaldtölvuviðmót sem nýtir sér stærð skjásins til þess að birta efnið á þægilegri og aðgengilegri hátt. Einnig mætti appið nýta sér ‘Share to’ möguleikann (sem er t.d. í boði á Android) þannig að notendur gætu deilt fréttum í þau öpp sem þeir vilja.
Við mælum hiklaust með þessu appi fyrir alla sem hafa áhuga á einhverskonar fréttum. Ekki gleyma að velja uppáhalds miðilinn ykkar undir Tækni og vísindi! Appið er í boði á Android og iOS og má nálgast frítt.