Öpp fyrir innviði fyrirtækja
Í dag eru snjallsímar gott sem búnir að taka yfir heiminn og finnst okkur fátt sjálfsagðara en að ná í öpp til að stytta okkur stundir eða til að leysa einhver verkefni. Nú eru fyrirtæki hægt og rólega að uppgötva að þessi tækni nýtist ekki aðeins almenningi og því eru hugbúnaðarhús í auknum mæli farin að fá verkefni sem snúast um að búa til sérhæfð öpp fyrir innviði fyrirtækja sem sjá hag í því að nýta sér tæknina.
Advania bauð meðlimum Simon.is í heimsókn og sýndi okkur þær lausnir sem þeir eru að smíða fyrir fyrirtæki og stofnanir og hér kynnum við þrjár lausnir:
Skráningarkerfi fyrir Byggingafélag Námsmanna (BFN)
Þegar nemar skila af sér íbúðum sem þeir hafa haft í leigu þá þurfa starfsmenn BFN að mæta á svæðið og taka út íbúðina. Í slíkum úttektum var áður notast við eyðublöð þar sem farið var yfir gátlista með atriðum sem fara þarf yfir og athugasemdir skrifaðar þar sem það átti við. Að úttekt lokinni var svo farið í tölvu og upplýsingarnar færðar af eyðublaðinu á tölvutækt form.
Félagarnir í Advania bjuggu til app fyrir spjaldtölvur til að leysa þessi eyðublöð af hólmi. Nú fara starfsmenn BFN á svæðið með spjaldtölvu, fara yfir gátlistann og færa inn athugasemdir beint inn í appið. Spjaldtölvan er auðvitað nettengd svo upplýsingarnar fara beint inn í gagnagrunn. Ekkert vesen með að færa gögnin sérstaklega yfir í tölvutækt form og pappírsvesenið úr sögunni.
Auðbjörg – vörulisti
Við fyrstu sýn lítur Auðbjörg út eins og netverslun, en hún er app hugsað fyrir sölumenn fyrirtækja sem eru á ferðinni. Í stað þess að sölumennirnir hafi með sér vörubæklinga til að sýna viðskiptavinum þá eru Auðbjörg tengd við vörugrunn fyrirtækjanna og þar hægt að fletta upp myndum og upplýsingum um allar vörur og fá samstundis upp rétt verð og lagerstöðu. Appið leyfir sölumanninum að raða vörum í körfu, setja inn afslátt, og ganga frá pöntuninni. Pöntunin berst strax (hér er ekki verið að tala um teygjanlega hugtakið “strax”) til höfuðstöðva fyrirtækisins þar sem hægt er að vinna með hana.
Eins og í kerfinu fyrir BFN þá losar þetta app sölumennina undan því að tvívinna verkið því það þarf ekki að færa pöntunina yfir á tölvutækt form þegar farið er frá viðskiptavininum. Einnig geta stórar fjárhæðir sparast við gerð vörubæklinga en vanalega þarf að búa til slíka á ársfresti eftir því sem vöruframboðið breytist.
Sjúkrabílaapp
Að lokum sýndu Advania félagarnir okkur drög að flottu appi sem kemur mögulega til með að vera notað í sjúkrabílum. Þegar sjúkrabíll er sendur í útkall á Íslandi er staðlað eyðublað sem sjúkraflutningamaður fyllir út á mismunandi stigum útkallsins og skilast á spítalann með sjúklingnum. Hugmyndin með sjúkrabílaappinu er að sjúkraflutningamaðurinn skrái upplýsingarnar um sjúklinginn beint inn í appið sem sendir gögnin rakleiðis á spítalann. Þegar sjúklingurinn lendir á spítalanum þá hafa læknarnir þar haft tækifæri til að undirbúa komu hans miðað við hvernig meiðsl sjúklingsins voru metin og hvaða meðferð hann hafði fengið í sjúkrabílnum.
Ljóst er að mörg fyrirtæki gætu og ættu að skoða hvernig snjalltæki og öpp gætu nýst til að straumlínulaga ferla hjá sér. Kostir appa eins og þessara sem við sáum hjá Advania eru þó nokkrir, til dæmis: Tvíverknaður við að skrá hluti á eyðublöð til þess eins að skrá síðar upplýsingarnar af eyðublöðunum inn í tölvu hverfur. Vandamál við að skilja skriftina á eyðublöðunum hverfur. Upplýsingarnar berast samstundis þangað sem þær eiga heima og notkun á pappír minnkar stórkoslega.
Þessar lausnir geta því bæði sparað tíma og peninga ásamt því að vera umhverfisvænni og ættu fyrirtæki tvímælalaust að athuga hvort þau geti nýtt sér tæknina á slíkan hátt!
Hægt er að sjá meira upp fleiri öpp frá Advania hér.