iPhone 5C – Ódýrari iPhone?


Apple kom ekki mörgum á óvart þegar þeir kynntu til leiks tvo nýja iPhone í september. Það var eiginlega öllu búið að leka út áður en iPhone 5C og 5S voru tilkynntir. iPhone 5C er nánast alveg eins og iPhone 5 nema nú í plastskel í fimm mismunandi litum. Þetta fylgir hefðbundinni vöruþróun Apple sem við höfum séð á iPod og iMac. Fyrst koma út svartar og hvítar útgáfur og svo eftir nokkur skeið koma litirnir. Stýrikerfið fékk einnig uppfærslu á sama tíma og er það orðið mun litríkara og sneysafullt af nýjum eiginleikum. C stafurinn í nafninu stendur víst ekki fyrir “cheap”, “china” eða “color”, heldur stendur hann fyrir “communication” eða samskipti. Við vitum ekki alveg hvað þeir meina með því, en síminn er alla vega ekki ódýr hér á landi (hann er þó á $100 með samningi í USA, fyrir þegna þarlendis). En hverju eru helstu breytingarnar breytingar í iPhone 5C?

iphone5c02jpg-e94d58_960w

Hvað er nýtt?

iPhone 5C kemur í gulum, rauðum (föl rauðum, næstum bleikum), grænum (ljósum límónugrænum), ljósbláum og hvítum litum. Skelin er úr plasti, sem Apple hefur ekki notað síðan í iPhone 3GS. iPhone 4 notar högghelt gler báðum megin með álröndum í kringum símann og iPhone 5 notar ál í kringum skjáinn. Plastskelin gerir símann þykkari (+1,4mm) og þyngri (+20 g.) en iPhone 5. Plastið er óneitanlega ódýrara viðkomu, en þökk sé kúptu baki þá er síminn mun þægilegri í hendi og vasa. Síminn er alls ekki þungur og er þægilegur í notkun. Flottir litir, en maður hefði getað fengið litríkt hulstur í staðinn.

Apple uppfærði líka radíóhluta símans og styður síminn næstum allar tíðnir í heiminum á sama eintaki. Það er bæði CDMA og GSM 2G tíðnir, allar 3G og 4G tíðnir. Það kemur reyndar sérútgáfa með ákveðnum radíóstuðningi fyrir bandarískt fjarskiptafélög, sem þá sérstaklega fyrir 3G samband þeirra.

Annars er allt eins: sami góði skjárinn, frábær myndavél, þróað stýrikerfi og fullt af eiginleikum.

Hvað vantar?

Þetta er frábær snjallsími, en ekki fullkominn. Við söknum þriggja hluta alveg einstaklega mikið: 4G, rafhlöðuendingu og almennilegs lyklaborðs.

7ea2fba6af272a56_iphone-5c

Apple styður enn ekki 4G á Íslandi (sem er í boði hjá Nova fyrir snjallsíma). Heyrst hefur er að þeir krefjist bæði tekjuskiptingar og auglýsingaherferða af fjarskiptafélögum Evrópu. Það er hörð samkeppni hérna heima og ekki víst hvort félögin séu tilbúin að sætta sig við það eins og er. Þegar fleiri félög koma með 4G samband hér á landi þá gæti það breyst snögglega. Skiptir 4G máli? Bandvíddin skiptir kannski ekki miklu máli, en það að hoppa snögglega milli vefsíðna eða fletta hratt niður Facebook er mun sneggra á 4G þökk sé betri svartíma.

Rafhlaðan hefði mátt stækka mun meira en fimm prósent, sérstaklega í ljósi aukinnar farnetsnotkunar. Rafhlaðan er 1510 mAh, sem í samanburði við Android flaggskipin er frekar dræmt. Galaxy S4 er með 2600 mAh rafhlöðu og nýjasti LG síminn (G2) er með 3200 mAh. Þeir eru auðvitað mun stærri símar og hafa því meira pláss fyrir rafhlöðuna. Einnig þurfa þeir stærri rafhlöður til að keyra þessa stóru skjái. Ég fann mikinn mun á endingu og aðallega vegna notkunar á öppum sem nota ekki skjáinn. Jú, iPhone er með ótrúlega góða rafmagnsstýringu og nýtir alla rafhlöðuna vel. Öpp eru fryst, samhæfingu við póst og samfélagsmiðla vel stýrt og símtöl taka lítið rafmagn. En þegar það kemur að því að streyma tónlist í gegnum Spotify eða taka upp hlaup í kringum Laugardalinn, þá dregst iPhone verulega aftur úr í samanburði. Þá er skjárinn á Android flaggskipunum ekki í gangi en svipuð notkun í gangi, en á mun stærri rafhlöðu. Gott dæmi er Esjugangan sem ég fór í til að fagna byrjun Meistaramánaðar, sem ég tók upp á Strava (GPS leitun í einn og hálfan tíma) og svo streymdi ég Spotify í korter á leið í vinnu. Síminn var kominn undir 15% klukkan 18 þegar vinnu lauk á iPhone 5C, sem er mun minna við svipaða notkun á HTC One (2200 mAh) sem heldur sér í kringum 50% lok vinnudags.

Vinsælasti liturinn

Vinsælasti liturinn

Vá hvað við söknuðum SwiftKey. Við gátum eiginlega ekki beðið að komast aftur á Android símana okkar (Gulli og Atli). Við notum símana okkar mikið í samskipti í gegnum samfélagsmiðla og tölvupóst. SwiftKey gerir okkur kleift að svara tölvupóstum og skilaboðum næstum jafn hratt og á alvöru lyklaborði. Lyklaborðið á iPhone er því miður ekki nógu gott. Það lærir ekki af þér eins hratt, það getur ekki tengst pósti og samfélagsmiðlum til að læra af þér. Það býður ekki upp á þrjá valkosti í leiðréttingum. Sjálfvirkar leiðréttingar eru hræðilegar og það hefur bitið marga í bossann í gegnum tíðina. Það er ekki með samhæfingu milli tækja á orðabókinni þinni (SwiftKey cloud) né skautaskrift (SwiftKey Flow). Við viljum sjá þetta allt í næstu útgáfu iOS og heyrst hefur að Apple hafi verið að hitta þá sem þróa SwiftKey og fleiri aðila.

Skjárinn

Apple hefur neitað að svara þessari stærðarkeppni sem er í gangi hjá öðrum snjallsímaframleiðendum. Báðir nýju símarnir halda sig við 4″ Retina skjáinn, sem er auðvitað alveg frábær skjár. Hann er skarpur, sýnir rétta liti og virkar vel í sól. Margir kaupa iPhone í dag því hann fer vel í hendi og í vasa. Okkur fannst skjárinn of lítil. Það er leiðinlegt að sýna fólki myndir eða myndbönd á iPhone, það sést ekkert. Vöfrun á (næst)hraðasta vafra snjallsíma í dag er ekkert voðalega skemmtileg á svona litlum skjái. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta sé smekksatriði að mörgu leiti, jafnvel praktík fyrir þá sem ganga í rosalega þröngum fötum með litla vasa. Við hefðum viljað sjá Apple fikra sig upp og upp í 4,3″ skjástærð. Það er stærð sem heldur áfram að vera nógu góð í vasa og hendi, en sýnir aðeins meira.

Niðurstaða

Þetta er frábær sími, hann kom út í fyrra og var þá samt fallegri. Stýrikerfið var uppfært, en okkur finnst það komið fyrir aftan Android hvað varðar eiginileika. Tilkynningar eru enn þá í tómu tjóni og lyklaborðið óþægilegt. Við fengum iPhone 5 fyrir nákvæmlega ári síðan og gáfum honum 8,8 af 10 mögulegum, sem var þá hæsta einkunn sem við höfum gefið snjallsíma. Við höfum nú skipt yfir í stjörnugjöf og má segja að iPhone 5 fái fimm stjörnur af fimm mögulegum. Við verðum að draga niður iPhone 5C um hálfa stjörnu. Síminn hentar einfaldlega íslendingum illa. Lyklaborðið er lélegt, orðabókin slöpp og ekkert 4G samband. Þrátt fyrir þessa galla þá er allt annað í top klassa: myndavél, öpp, leikir, skjár (sem má vera stærri), hljóð og margt fleira.

Kostir

  • Frábær myndavél
  • Góð hönnun
  • Fer einstaklega vel í hendi
  • Góður einhendis
  • Fullt af öppum og leikjum

Gallar

  • Ekkert 4G samband eins og er
  • Rafhlaðan hefði mátt stækka meira
  • Óþægilegt lyklaborð
  • Hræðileg orðabók
  • Of lítill skjár í samanburði við aðra snjallsíma

iPhone 5C fær fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum frá Simon.is.