Apple kynnir iPad Air

best_design

Eins og flestir málsmetandi menn höfðu spáð fyrir um afhjúpaði Apple nýjar iPad spjaldtölvur á kynningu sinni fyrr í dag. Er um að ræða uppfærðan iPad mini og iPad Air.

iPad Air, sem er fimmta kynslóð, verður töluvert þynnri og léttari en fyrri iPad spjaldtölvur í fullri stærð. Hann verður á bilinu 20-40% þynnri og um 200 gr. léttari en fyrri iPad tölvur, eða 454 grömm. Apple fullyrðir að þetta sé léttasta spjaldtölvan í fullri stærð sem býðst.

Sami örgjörvi verður í iPad Air og í iPhone 5S, sem var kynntur á dögunum. A7 örgjörvi sem er 64 bita og tvöfalt hraðari en A6 örgjörvinn sem er í iPhone 5 og iPad 4.

Þá kom fram á kynningunni að Apple hefur bætt LTE virknina í tækinu svo 4G virki í fleiri löndum en áður.

Rafhlöðuendingin er áætluð um 10 klukkustundir í notkun. Tækið kemur á markað 1. nóvember í fjölda landa, þar á meðal Íslandi. Opinbera verð Apple er $499 eða um 60.000 kr. fyrir minnstu útgáfuna 16 GB WiFi. Líklega verður hann eitthvað dýrari hér á landi. Þá verður hægt að fá tölvuna hvíta að framan og silfurlitaða að aftan eða svarta að framan og gráa að aftan.

Apple kynnti líka nýjan iPad Mini. Eins og við var búist verður mini framvegis með 7,9” Retina skjá sem er með sömu upplausn og iPad Air 2048×1536. Að öðru leyti er að mestu um sama innvols að ræða. Aukin LTE (4G) tíðni, 10 klst. rafhlöðuendingu, A7 örgjörva o.fl. sem er nefnt hér að ofan.

iPad Mini hækkar í verði með tilkomu Retina skjá og mun minnsta úgáfan, 16 GB WiFi kosta $399 eða um 48.000 kr.

*Grein uppfærð 22. október kl. 21.30