Sony að gefa út linsumyndavélar fyrir snjallsíma?
Nú berast þær fréttir að Sony ætli á næstu vikum að setja á markað nýjung sem mætti kalla linsumyndavél og er notuð með snjallsímum.
Um er að ræða linsur með innbyggðri ljósflögu og örgjörva, minniskortarauf og þráðlausu sambandi yfir Wifi og NFC. Linsunni er smellt á snjallsímann og myndatökunni stjórnað úr símanum. Sagt er að linsurnar muni virka með bæði Android og iOS. Ekkert kemur fram um önnur stýrikerfi.
Þetta er gríðarlega spennandi tækni sem verður gaman að prufa. Er um að ræða enn eitt skrefið í þá átt að snjallsímar leysi af hólmi stafrænar myndavélar.
Heimild og myndir: Sonyalpharumors.com (Fréttin er merkt SR5. SR stendur fyrir Sony sögusagnir (e. rumours) og þær fá einkunn á skalanum 1-5 eftir því hversu líklegt þykir að þær séu réttar. Það má því nánast fullyrða að við sjáum þessar linsur koma á markað á allra næstu vikum)