Hverju breytir iOS7?

Síðasta haust gekk Apple í gegnum talsverðar skipulagsbreytingar. Hönnun á úttliti og viðmóti iOS hafði verið í höndum Scott Forstall en hönnun á vélbúnaði í höndum Jony Ive. Scott Forstall var látinn fara, að mestu út af kortaklúðrinu, og Ive tók við sem yfirhönnuður nýrrar hönnunardeildar. Hann stýrir nú hönnun allra Apple vara, stýrikerfum og hugbúnaði. Arfraksturinn af þessu var kynntur á mánudaginn: endurhannað iOS stýrikerfi.

 

Ósamræmi í hönnun

Frá því að iOS stýrikerfið (og jafnvel fyrr með OSX) hafði gætt ákveðins ósamræmis í hönnun Apple. Tækin voru látlaus, einföld og hrein. Hönnunin var heiðarleg og ekki reynt að fela efnistegundir. Ef eitthvað lítur út eins og ál, þá er það ál. Plast lítur út eins og plast o.s.frv. Það sama er ekki hægt að segja um hönnun stýrikerfisins. Það var fullt af blekkingum og plat tenginum við hluti úr hinum fysíska heimi. Orðið skeuomorphism (þýðingarábending vel þegin) er notað um þessa tengingu.

 

Skeuo… hvað ?

Skeumorphism hönnun

Hlaðvarpsspilarinn í iOS

Skeuomorphism er það þegar hlutir í sýndarheimi/gerviheimi eru látnir líta út eins og hlutir úr raunveruleikanum. Tilgangurinn getur þá t.d. verið að auðvelda tenginu þarna á milli, auðvelda notandanum að skilja virkni og notkun hlutarins. Við þekkjum þetta vel úr gluggastýrikerfum. Skrifborð (desktop), möppur, ruslatunnan. Allt eru þetta tengingar við gamla umhverfið, gerðar til að einfalda óvönum að átta sig á þessum aðgerðum, virkni þeirra og tilgangi. Gott dæmi um þessa hönnun í iOS þetta var hlaðvarpsspilarinn þar sem gamaldags segulband látið tákna tímann. Þegar ýtt var á spila byrjaði segulbandið að snúast og þykktin á bandinu gaf merki um þann tíma sem var eftir. Þessi tilgangslausa gervitenging fór í taugarnar á mörgum hönnuðum, apple notendum og Jony Ive. Allir sjá að þarna er ekkert segulband og jafnvel má færa fyrr því rök að notendur í yngri kantinum myndu varla þekkja tenginguna.

Mörg önnur dæmi um skeuomorphism mátti finna í iOS. Dagatalið var úr leðri, skrifblokkin með rifnum blöðum og grænn dúkur undirlagði leikjamiðstöðina (game center).
iOS 7 er laust við allt þetta plat. Þetta er nýtt stýrikerfi fyrir kynslóðina sem kann að nota snjallsíma. Það er ekki lengur þörf er á þessari tengingu (ef þörfin var þá yfirhöfuð til staðar).

Skeumorphism hönnun

Skeumorphism hönnun í iOS

 

Great artists steal

Við fyrstu sýn minnir iOS7 mikið á windows Phone 8. Það kemur ekki á óvart því Jony Ive er mikill aðdáandi þeirrar hönnunar. WP8 er nútímalegt stýrikerfi, laust við þær tengingar sem plöguðu iOS.
iOS er hinsvegar ekki flatt eins og Windows Phone. Það er samsett úr nökkrum lögum sem sjást vel þökk sé þrívíddar-áhrifa á skjáborðinu. Stjórnborðið og ábendingarkerfið renna yfir iconin, sem svo aftur svífa fyrir ofan veggfóðrið.
Stýrikerfið er fullt af tökkum, hnöppum og stjórntækjum en þau eru ekki látinn líta út fyrir að vera fysískir takkar. Takkarnir eru ekki upphleyptir, þeir eru ekki skyggðir. Þeir eru flatir enda er skjárinn flatur. Með þessari lagskiptingu næst fram ákveðin dýpt þótt hvert lag sé flatt.
Þessar breytingar gefa stýrikerfinu nútímalegt yfirbragð. Þetta er stýrikerfi hannað fyrir 4″ snertiskjá, fyrst og fremst. Hannað fyrir snjallsímanotendur sem skilja hvað þeir eru með í höndunum. iOS7 er hinsvegar enginn umbylting hvað varðar möguleika notenda að breyta útliti stýrikerfisins sjálfur. Allveg eins og með iOS6 eru möguleikarnir bundnir við að breyta skjáborðsmynd, ekkert annað. Breytingin hefur hinsvegar meiri áhrif en áður og notar stýrikerfið litina úr veggfóðrinu víðsvegar í stýrikerfinu og þannig hefur það talsverð áhrif á heildarútlit þess hvort veggfóðrið er grænt, rautt eða blátt

iOS7

 

Nýtt útlit, sama virkni

iOS 7 er ný nálgun á útlit og virkni stýrikerfisins. Það er hinsvegar enginn umbylting í virkni. Ábendingarstikan virkar svipað, ekkert er um skjátæki (widgets) og þú getur áfram aðeins notað Apple lyklaborðið, ekkert annað. Enginn aðgangur er að skjalakerfinu (filesystem).
Apple er ekki að endurhanna iOS til að reyna að ná til þeirra sem hafa fært sig yfir til Android út af því frelsi sem ríkir þar. Apple vill ritstýra sínu stýrikerfi áfram af mikilli íhaldssemi, 1000 nei fyrir hvert já eins og segir í nýju auglýsingunni.
iOS7 er fyrst og fremst betra iOS fyrir núverandi iOS notendur. Það lagar þá vankanta sem þeir hafa bent á. En Apple hefur einnig tekið mið af þeirri þróun sem orðið hefur á snjalltækjamarkaðnum á síðustu árum án þess þó að herma of mikið eftir öðrum.
iOS 7 er ákveðin endurræsing og ég trúi því að það muni hafa mikil og jákvæð áhrif að hafa einn yfirhönnuð. Þetta mun hafa þau áhrif að við fáum betri snjalltæki þar sem útlit, hönnun og virkni verður samofin heild.