Styður síminn þinn 4G?
Nú er 4G farið í loftið hjá Nova fyrir nettengla og netroutera og munu Síminn, Vodafone og 365 örugglega fylgja hratt á eftir. En hvað þýðir það fyrir hinn almenna neytanda? Nokia á Íslandi settu inn skilaboð á Facebook síðu sína nýlega, þar sem þeir benda á að Nokia Lumia 820 og 920 eru einu símarnir sem styðja 4G beint úr kassa og virki hvar sem er í heiminum. Það vakti mikla athygli Íslendinga. Þar bendir umboðsaðili Nokia á að Apple, Samsung og LG símar þurfi samþykki framleiðenda til að virka á tilteknum 4G dreifikerfum. Þetta er ekki alveg rétt.
Hvaða símar styðja 4G?
Flestir símar seldir hér á landi styðja einfaldlega ekki 4G. Til þess þarf síminn að vera með þrjá hluti: 4G viðtökutæki, 4G loftnet og hugbúnað sem styður 4G fjarskipti. Nokkrir símar styðja 4G að einhverju leiti en eru ekki með hugbúnað til þess. Flestir framleiðendur krefjast þess að samþykkja 4G dreifikerfi og opnar sérstaklega á 4G notkun á sínum tækjum. Sumir framleiðendur senda hingað tæknimenn til að prófa þjónustur um 4G. Af hverju þarf þetta samþykki frá framleiðenda? Jú, til að tryggja gæði þjónustunnar. Eins og er þá styður 4G tæknin ekki talsímaþjónustu og munu símtækin þurfa að skipta niður á 2G eða 3G til að hringja (CSFB). Þetta þarf að sérsmíða á móti hverju kerfinu fyrir sig. Hér er á landi verða fjögur 4G kerfi. Í Frakklandi telst það vera yfirdrifið nóg af hafa tvö. Sum af þessum kerfum verða þó mögulega samnýtt. Margir í bransanum benda á að þar sem iPhone sé ekki opinberlega seldur hérna af Apple þá sé mjög hæpið að fái nokkurn tímann 4G stuðning.
LG opnar fyrir prófanir
LG símar á Íslandi hafa opnað fyrir prófanir á 4G þjónustu á þeim símum sem styðja 4G. Optimus G styður íslenskar tíðnir og er því byrjaður í prófunum hér. LG mun svo koma með heila vörulínu af Optimus símum sem styðja 4G á mjög viðráðanlegu verði.
Samsung til í að vinna með öllum
Samsung hefur tekið þann pól í hæðina að vinna með hverjum og einu fjarskiptafélagi sem er með 4G til að tryggja að virkni símtækjanna sé eins og viðskiptavinir megi búast við. Von er á nýju hetjutæki frá Samsung í kringum næstu mánaðarmót og mun það tæki styðja 4G á Íslandi. Hve hratt það mun styðja 4G er auðvitað háð vinnu hjá fjarskiptafélögunum.
Hvað var þetta með Apple?
Apple kemur til með að þurfa samþykkja hvert 4G dreifikerfi fyrir sig og útbúa hugbúnað fyrir þau tæki sem styðja íslenskar tíðnir. Eitthvað segir okkur að mjög margir íslendingar hafi keypt sinn iPhone 5 í Bandaríkjunum og þá mögulega með röngum tíðnum. Það eru þrjár mismunandi útgáfur af iPhone og tvær þeirra eru GSM: A1428 og A1429. Það væri þá A1429 sem myndi virka hérna heima, á 1800 tíðinni, og það er einmitt sá sími sem Epli hefur selt hér. Ísland er ekki skilgreint sem iPhone markaðssvæði og ólíklegt að Apple muni setja kraft í að vinna á móti íslenskum fjarskiptafélögum, þó það sé alls ekki staðfest. iPad 3 styður engar tíðnir hérna en iPad 4 styður 1800 tíðnina.
Skiptir þetta 4G máli?
Við erum búnir að prófa 4G hjá Nova og hraðinn er ótrúlegur! Við erum að ná 18-20 Mb/s hraða og mjög góðum svartíma (30-80 ms), það á 80 km/klst í bíl. Að því sögðu, þá vitum við að Síminn er nú að byggja og styrkja 3G kerfi sitt. Síminn ætlar að uppfæra sendana sína upp í HSDPA+ (sterað 3G) sem styður 42 Mb/s hraða (raunhraði á bilinu 10-18 Mb/s), en mun ekki ná eins góðum svartíma og 4G.
Aftur að símtækjunum
Þeir símar sem styðja 4G og munu virka á íslenskum tíðnum (800 og 1800) eru t.d.:
- Sony Xperia Z
- Sony Xperia V
- LG Optimus G
- Nokia Lumia 820
- Nokia Lumia 920
- Næsta sending af Samsung Galaxy SIII
- Samsung Galaxy SIV
Virkni og gæði eru auðvitað háð vinnu hjá framleiðendum og fjarskiptafélögum hérlendis. Þetta eru þeir símar sem við vitum af. Endilega sendið okkur athugasemd á simon@simon.is ef þið vitið af fleiri tækjum sem styðja 4G á Íslandi.
Heimildir
Blogpóstur Símans um 4G.
Tíðnir frá GSMArena.
Fyrirspurnir til Hátækni, Actus, Epli, Nýherja og Tæknivara um 4G stuðning símtækja.
Trackbacks & Pingbacks
[…] 4G: Vitanlega er Lumia 925 með 4G (LTE) og kemur til með að styðja öll bönd sem Lumia 920 styður. […]
[…] Hraðinn kemur að góðum notum við vöfrun og í tölvuleikjum. Síminn styður líka 4G LTE og mun koma til með að virka á íslensku 4G. Það er stór 2100 mAh rafhlaða í símanum sem er ekki hægt að fjarlægja og er endingin […]
Comments are closed.