Skjáskot: Margrét Tryggvadóttir – Dögun, X-T

margret-lowr6258

Margrét Tryggvadóttir hefur setið á Alþingi síðastliðin 4 ár og er nú í framboði fyrir Dögun. Hún á iPhone 4S og elskar að hafa hann!

Hver ert þú og hvað gerir þú í lífinu?
Ég heiti Margrét Tryggvadóttir og er bókmenntafræðingur og starfaði sem ritstjóri, þýðandi, textasmiður og barnabókahöfundur áður en ég settist á þing fyrir fjórum árum. Í lífinu geri ég ýmislegt fleira þegar tími gefst til enda lífið óendanlega skemmtilegt.

Hvernig síma ertu með?
Ég er með iPhone 4S sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf í fyrra. Þar áður var ég með ótrúlega glataðan Nokia E75 síma og skilst að ég hafi slegið heimsmet með því að nota hann í þrjú ár.

Hvað elskar þú við símann þinn?
Ég er nú meira í að elska fólk en síma en ég verð að viðurkenna að ég elska hvað ég er miklu fljótari að skanna tölvupóstinn minn í honum en í trabant tölvunni sem Alþingi skaffar mér. Og að geta fengið allar upplýsingar og fréttir strax og að geta spilað tónlist þegar ég þarf að einbeita mér eða koma mér í stuð. Mér finnst líka frábært að við fjölskyldan erum með rafrænan innkaupalista sem ég sé í símanum og veit því alltaf þegar ég er í búðinni hvað vantar þótt langt sé síðan ég kíkti í ísskápinn (já, stundum er ég lítið heima).

Hvað þolir þú ekki við símann þinn?
Mér finnst hann fáránlega dýr en … hann var gjöf svo ég borgaði ekki fyrir hann. Og svo eru sjaldgæfir málmar notaðir í farsíma og ég er með pínu samviskubit út af því …

Þrjú uppáhalds öpp og af hverju?
Weather – af því að mér finnst svo frábært að vita hvernig veðrið er hjá vinum mínum um heim allann og hvert hitastigið er þar sem ég er hverju sinni og veðurhorfur næstu daga en ég myndi vilja vita vindstyrkinn líka, Facebook appið … uh duh og svo Lightsaber appið mitt því það er svo gaman að hafa geislasverð í símanum. Nota það samt ekki oft en kemur sér þó stundum vel ef kljást þarf við pólitíska andstæðinga.

Telur þú að síminn muni nýtast vel við þingstörf?
Síminn er og verður mitt helsta atvinnutæki. Hann er sérstaklega mikilvægur þar sem Trabant tölvan er frekar glötuð (en mér skilst að það sé Apple tengt notendavandamál).

Hver er draumasíminn þinn?
Umhverfisvænni iPhone.

Hvað ætti að vera hægt á símum sem er ekki hægt í dag?
Setja í þvottavélina.

Hver er frægasta manneskjan í símaskránni þinni?
Ég er með símanúmer mjög margra þingmanna og ráðherra í símaskránni minni en ætli Julian Assange sé ekki sá þekktasti á heimsvísu.

 photo (3)