Skjáskot: Bjarni Benediktsson – Sjálfstæðisflokkurinn, X-D
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins og hefur setið á þingi síðastliðin 4 ár. Hann er fyrsti frambjóðandinn í Skjáskoti okkar sem er á Android síma!
Hver ert þú og hvað gerir þú í lífinu?
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hvernig síma ertu með?
Samsung SIII
Hvað elskar þú við símann þinn?
Skjárinn er stór en samt þunnur og léttur. Stýrikerfið er þægilegt. Allskonar flýtileiðir sem ég er loksins búinn að læra á og létta mér lífið. Myndavélin er líka góð.
Hvað þolir þú ekki við símann þinn?
Hann hringir svo oft. Það er eiginlega ekki vandamál símans, frekar mitt en það er annars fátt við hann sem fer í taugarnar á mér nema hvað ég á erfitt með að skrifa hratt á snertilyklaborðið.
Þrjú uppáhalds öpp og af hverju?
Facebook, ja.is, Viber. Öll þessi auðvelda lífið, spara tíma og Viber sparar peninga.
Telur þú að síminn muni nýtast vel við þingstörf?
Allir símar nýtast þingmönnum vel, enda eru þeir mikið í símanum. Það er einstaklega þægilegt að lesa fréttir og horfa á fréttir í símanum mínum og vafra á netinu, enda skjárinn stór.
Hver er draumasíminn þinn?
Ég finn ekki fyrir honum í vasanum. Hann er samt með stóran skjá og mjög hraðvirkur með endalaust minni. Lyklaborðið kemur í veg fyrir allar ritvillur. Hann hefur næstu kynslóð af hugbúnaði sem skilur hvað ég segi og skrifar viðstöðulaust á lýtalausri íslensku.
Hvað ætti að vera hægt á símum sem er ekki hægt í dag?
Prenta fax. Nei grínlaust þá vildi ég vera fljótari að skrifa á hann texta, bæði tölvupóst og smáskilaboð. Ég vil líka sjá enn meiri vinnsluhraða.
Hver er frægasta manneskjan í símaskránni þinni?
Logi Bergmann, gaurinn þarna í Spurningabombunni.