Ekki keyra fullur, hringdu á Taxa – Nei! Nú hringi ég í leigubíl!

Eitt flottasta og mest nothæfa íslenska app sögunnar hefur litið dagsins ljós. Nei! Nú hringi ég í leigubíl! sýnir að það eru ekki bara forritarar hjá stórum fyrirstækjum með mörg hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun sem geta hannað góð öpp. Grasrótin hefur hér sýnt að hún getur gert allt að fjórfalt betri öpp en fagmennirnir! Appið á beinan þátt í að styrkja íslenskan efnahag og efla samkeppni. Ekki nóg með það þá virðist appið vera liður í átaki gegn ölvunarakstri og eru einkunnarorð þess „Ekki keyra fullur! Hrindu á Taxa.“

Þvílík fegurð, þvílík snilli.

 

Í appinu er handhæg og einföld valmynd sem gefur upp fallega valmöguleika um helstu leigubílastöðvar landsins. Við það að smella á takka er manni gefið beint samband við þá leigubílastöð. Já, einfaldara gerist það ekki! Nú þarftu ekki lengur að söngla „Fimm-átta-átta-fimm-fimm-tveir-tveir“ til þess að hringja á leigubíl og getur því haldið kúlinu með snjallsímanum. Einfalt er gott og má svo sannarlega segja að höfundi appsins hafi tekist að fanga nákvæmlega það sem öpp ættu að snúast um. Það er í senn einfalt, þægilegt og ómissandi fyrir hvert mannsbarn.  Í rauninni má ganga svo langt og segja að appið ætti að vera staðalbúnaður í öllum snjallsímum þar sem það er algjört öryggistæki. Appið hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og hefur meðal annars verið sagt „Nú þarf ég ekki lengur að humma lag frá 1990 til að muna númerið“ og „Núna er ekkert mál að hringja á leigubíl!“. Nei! Nú hringi ég í leigubíl! er með meðaleinkunnina 5/5 og verður því að teljast vera óaðfinnanlegt.

Stöndum vörð um íslenskt atvinnulíf, stuðlum að samkeppni og ekki keyra full!

.

[youtube id=”WsniUJzf_Zo” width=”600″ height=”350″]