MacBook Pro Retina 13": Meistaraverk
MacBook Pro Retina 13″ útgáfan kom út seint á síðasta ári og var meðfæranlegri og aðeins ódýrari útgáfa af fyrri Retina 15″ tölvunni, sem má kalla Rolls Royce fartölva. Retina nafnið gefur til kynna að hér sé á ferðinni skarpur skjár, rétt eins og Apple bauð upp á með iPhone 4 og svo iPad 3. Retina 13″ fékk mikla gagnrýni fyrir vera of dýr og bjóða upp á slaka skjástýringu, en Apple sló nýlega af henni $200 erlendis til að mæta þeirri rýni. Simon fékk að skoða Retina 13 í nokkrar vikur og hér er okkar gagnrýni.
Hönnun
Tölvan er úr “unibody” fallegu áli og er hönnunin mjög minimalísk. Svart lyklaborð tónar vel á móti ljósu áli. Tengin falla vel inn í fartölvuna og eru ekki með neinum asnalegum litum sem maður sé svo oft á ódýrari tölvum. Rafmagnstengið er með segli sem smellur að þegar það er tengt við tölvuna og fellur auðveldlega frá ef gengið er óvart á snúruna eða tölvunni kippt hratt frá. Meira segja spennubreytirinn sjálfur er fallegur og praktískur. Þetta er án efa ein fallegasta hönnun á fartölvu í dag.
Skjár
Þetta er frábær skjár sem býður upp á fullt af skjáplássi (2560×1600 dílar) og skerpu. Það er hægt að skala letur og myndir fyrir þá sem treysta sér ekki í svona háa upplausn og nokkrar stillingar í boði. Þetta virkar mun betur en DPI (punktar per tommur) skölunin sem við þekkjum úr Windows sem rýrir gæði leturs og mynda talsvert. Skjárinn er þó ekki mjög bjartur (250 NIT) og hentar því illa í mjög björtu umhverfi.
Hljóð
Maður er smá stund að átta sig á því hvaðan hljóðið ómar. Það eru engar sjáanlegar raufar fyrir hátalara á tölvunni en samt sem áður er nokkur kraftur í hljóðinu. Hátalararnir eru staðsettir undir lyklaborðinu og finna sér farveg í gegnum takkana. Hljóðið vantar samt talsverða breidd og þá helst í bassanum. Samt sem áður, ekki slæmt hljóð.
Lyklaborð og mús
Þetta er án efa besta lyklaborð í boði í dag á fartölvum. Hér eru á ferðinni svartir og stórir takkar með góðu bili á milli sín (chiclet hönnun). Þeir gefa vel eftir og það heyrist þægilega mikið í þeim. Eina sem við söknuðum er gamli góði Delete takkinn og þá sérstaklega í Excel. Talandi um Excel, þá er það alveg glatað á MacOS. Það er það slæmt að ég fjartengist Windows tölvunni minni til að vinna á Excel. Aðgerðartakkarnir eru þó vel nýttir
Þetta er án efa besta snertimús í boði í dag. Hún er stór, en samt aldrei fyrir manni. Neðri hlutinn gefur eftir við smelli og sjálfgefnar stillingar hafa slökkt á “tapping” (sem höfundur gersamlega þolir ekki). Músin býður upp á endalaust af aðgerðum til að flýta fyrir, sem eru ótrúlega þægilegar. Strjúktu þremur puttum upp og þá sérðu öll opin forrit og færð frábæra yfirsýn (sem alt-tab á Windows veitir ekki). Þrír puttar til hliðanna fara á milli vinnusvæða (e. spaces). Uppáhaldsmúsin mín á fartölvum verður þó alltaf pinnamúsin, sem gerir þér kleift að halda fingrunum á lyklaborðinu (aukin hraði) og kemur í veg fyrir sinaskeiðabólgur.
Tengi
Apple náði að koma okkur á óvart hér. Tölvan er með mjög góðu úrvali tengja og þar má helst minnast á HDMI tengi í fullri stærð. Auk þess eru tvö USB 3.0, tvö Thunderbolt tengi (sem er hægt að nota sem mini Display tengi), SD minniskortarauf og auðvitað mini Jack tengi. Tengin eru öll vel staðsett á hliðunum og engin tengi eru að aftan eða framan.
Afköst
Skjástýringin, Intel HD 4000, er Akkilesarhæll þessarar tölvu. Tölvan nær varla að spila tölvuleiki, en spilar auðvitað HD myndbönd án þess að svitna. Hægt er að fá i5 eða i7 örgjörva sem koma úr M vörulínu Intel, og eru mun hraðari en U vörulínan sem eru settir í ultrabook tölvur (Air, Series 9, X1 Carbon). Örgjörvinn er snöggur og vinnur mjög vel. Við prófuðum Illustrator, Photoshop og InDesign og fór tölvan létt með þau forrit. Hér er hægt að sjá ítarlegan samanburð: http://www.primatelabs.com/blog/2013/02/retina-macbook-pro-benchmarks/.
Viðmót
MacOS hefur þorað að gera það sem Windows getur ekki gert: þróað nýjungar og ýtt nýjum hlutum að notendum. Apple hefur náð að þróa viðmótið sérstaklega vel að fartölvum. Stýrikerfið mjög vel stillt upp úr kassa, sérstaklega upp á flýtileiðir með lyklaborði eða snertimús. Skrollið er flauelsmjúkt, sem hefur alltaf verið hökktandi á Windows (þar til Windows 8 kom út). Spotlight leitartólið finnur öll forrit og skjöl leifturhratt. Nánast allt sem ég vildi stilla eða breyta á lyklaborði og mús var í boði með einföldum aðgerðum. Á sama tíma var ég með aðra fartölvu með Windows 8 sem bara bauð ekki upp á að slökkva á hægri smelli hægra megin á snertimúsinni (ég vil fá hægri smell með tveimur puttum á snertimús). Dokkan sem geymir flýtileiðir að forritum er reyndar frekar þétt skipuð og mætti hún vera nettari upp úr kassa. Ég hef verið Windows notandi síðan Windows 1 og ég hef prófað slatta af fartölvum en aldrei Mac. Ég var þó ótrúlega snöggur að læra á MacOS, sem segir mikið um viðmótið.
Niðurstaða
Retina 13 er meistaraverk. Flestir halda að Apple tölvur séu miklu dýrari en aðrar tölvur, en það kemur í raun á óvart þegar maður fer að reikna. Retina eru auðvitað ekki ódýrar tölvur og þær eru fyrir kröfuharða sem vilja hratt SSD geymslupláss og mikið vinnsluminni. Tölvur í sama flokki eru annað hvort mun dýrari eða með mun lakari gæði (þykkar, þungar, slappir skjáir, léleg lyklaborð eða ónothæf snertimús). Þessi tölva nær að negla þrjá mikilvægustu hlutina: skjár, lyklaborð og mús. Svo er stýrikerfið auðvitað mjög notendavænt og vel uppfært.
Kostir
- Besti skjárinn í sínum flokki
- Besta lyklaborðið
- Besta snertimúsin
- Létt og nett (1,6 kg)
Gallar
- Illa stilltir hátalarar
- Enginn “delete” takki
- Office er hræðilegt
Simon gefur MacBook Pro Retina 13″ 5 stjörnur af 5 mögulegum.
Samkeppnin
Retina 13 er í sérflokki. Það er mjög erfitt að bera hana saman við aðrar tölvur. Það er enginn að bjóða upp á svona skarpa skjái, en Samsung mun koma með nýja vörulínu í sumar til að tækla það. Það eru þó tvær vélar sem koma upp í huga: Macbook Pro Air 13 og Dell XPS 12.
Ef þú setur Air 13 upp í svipað innvols og Retina (8GB, i7 örgjörvi og 128GB SSD) þá er Air orðin dýrari og er með færri tengjum. Hún er þó mun léttari og örþunn sem getur verið þægilegt fyrir þá sem flakka mikið. Upplausnin á skjánum er þó mun slakari.
XPS 12 vélin er með mjög góðan skjá sem býður einnig upp á snertingu og er mun bjartari. Tölvan er þó ekki eins vel hönnuð og eru þá helst lyklaborð og mús umkvörtunarefnið. Verðið er svipað en vélin kemur með 4GB vinnsluminni á meðan að Retina 13 er með 8GB.