HTC One X+ umfjöllun

HTC One var nýlega kynntur og er væntanlegur í sölu með vorinu. En One X (sem var forveri One) er ekki alveg dauður úr öllum æðum og nýlega kom lítilsháttar uppfærð útgáfa af símanum í sölu sem heitir One X+. Þrátt fyrir að breytingarnar séu ekki stórvægilegar þá eru þær á réttum stöðum og gera frábæran síma ennþá betri. Hér verður aðeins styklað á því helsta sem aðgreinir þessa tvo síma en fyrir þá sem vilja kafa dýpra þá mæli ég með umfjöllun Símon um HTC One X.

One X+ Umfjöllun (Mynd 2)

Útlit og hönnun

Útlit One X+ er það sama og OneX sem er alls ekki slæmt. One X var einn fallegasti síminn á markaðnum og þessi hönnun er ein sú besta sem er í boði í dag, sérstaklega á Android síma. One X+ lítur einfaldlega frábærlega vel út og sómir sér vel hvar sem er. Eina sem við hefðum viljað sjá breytt, sem var heldur ekki breytt á HTC One, var að færa start-takkann á hægri hlið. Síminn er einfaldlega of stór fyrir langflesta til að geta ýtt auðveldlega á start-takka sem er staðsettur efst á símanum.

Innvols og skjár

Breytingar á innvolsi eru fáar en á réttum stöðum. Örgjörvinn fær uppfærslu úr 1,5 GHz Tegra 3 í 1,7 GHz sem skilar sér í mjög góðri vinnslu. Á þeim tveimur vikum sem ég notaði símann þá varð ég aldrei var við hökkt í nokkru forrit. Allt keyrði vel og naut sín á frábærum skjá sem, þrátt fyrir að vera eins árs gamall, er ennþá einn besti (ef ekki besti) skjár sem er í boði á nokkru snjalltæki í dag. Glerið er uppfært í Gorilla Glass 2 og ætti síminn því að þola aðeins meira. Eina sem ég hefði viljað sjá uppfært, en var ekki uppfært, var vinnsluminnið. Ekki það að 1GB sé ekki meira en nóg en það væri gott upp á uppfærslur og öpp næstu ára að hafa meira vinnsluminni. Eins og á forveranum þá er enginn Micro SD kortarauf en það er minna mál núna því geymsluplássið eykst í, hvorki meira né minna, en 64GB. Rafhlaðan er einnig stærri eða 2100mAh í staðinn fyrir 1800mAh. Rafhlöðuendingin var góð og dugði síminn daginn flesta daga og stundum gott betur en það.

One X+ Umfjöllun (Mynd 1)

Myndavélar

8 MP myndavélin á bakhliðinni er sú sama og í One X og er góð en ekki frábær (þ.e. samanborið við myndavélina á SIII, iPhone 5 og Lumia 920). Í góðum birtuskilyrðum þá eru myndirnar afbragðsgóðar en dala fljótt þegar fer að rökkva. Vélin tekur upp myndbönd í 1080P upplausn á 28 römmum. Myndavélin á framhliðinni fær uppfærslu í 1.6MP. Ég fann lítinn mun á henni en hún var, engu að síður, mjög góð og virkaði vel í Skype. Ég veit ekki hvort það er vegna hugbúnðarbreytinga eða út af uppfærða örgjöfanum en myndavélaappið virkar betur og maður er fljótari að smella af.

Hugbúnaður

One X+ kemur með Android 4.1 (Jelly Bean) sem þýðir að síminn styður nú Google Now. Project Butter kemur með 4.1. Allar stýrikerfaaðgerðir keyra þannig í stöðugum 60 römmum á sekúndu. Það finnst vel og allt keyrir mjög vel á símanum án þess að hiksta eða hökkta. Ýmislegt annað smávægilegt er uppfært (með nýju Sense) t.d. læsivalmyndin sem styður nú 9 læsivalmyndir í einu. Þannig er hægt að hafa sér valmynd fyrir tónlist, aðra fyrir ósvöruð símtöl, sms og pósta o.s.frv.

Niðurstaða

One X+ er frábær sími og á pari við það besta sem er í boði í dag. Hann er hinsvegar dýr, kostar 129.000 kr. hjá Hátækni. One X er á 80.000 kr. þar sem hann er ódýrastur. Erfitt er að réttlæta þann mun en fyrir þá sem kunna að meta HTC Sense og vilja vandaðan og góðan síma með miklu geymsluplássi þá er OneX+ málið. Hinir geta beðið eftir HTC One sem kemur á næstu mánuðum.

Kostir

  • Frábær hönnun
  • Einn besti skjárinn í dag
  • Skemmtileg myndavél
  • Sense er góð viðbót við Android (fyrir þá sem kunna að meta það)

Gallar

  • Alltof dýr
  • Aðeins í boði í 64GB útgáfu (sem skýrir verðið)
  • Góð myndavél en ekki frábær

Simon.is gefur HTC One X+ 4,5 stjörnur af 5 mögulegum.

Samkeppnin

Síminn kemur vel út í samanburði ef horft er á geymsluplássið. Samsung Galaxy S3 er með 16GB pláss á 110 þúsund, en það kostar 20 þúsund að bæta við 64 GB minniskorti og þá ertu reyndar kominn með meira pláss (og sama verð). Skjárinn er samt frábær á One X+ og er líklega sá besti á markaði í dag. Flestir aðrir símar í þessum flokki bjóða ekki upp á 64GB pláss né minniskortarauf (LG nexus 4, Lumia 920)