UTmessan um helgina
UTmessan sem er haldin árlega verður nú um helgina í henni glæsilegu Hörpu okkar. UTmessan er bæði lokuð og opin ráðstefna sem fjallar um tölvu- og tæknimál á Íslandi. Á föstudaginn er haldin lokuð ráðstefna fyrir aðila í tölvu- og tæknigeiranum og á laugardaginn er opin tæknihátíð! Hátíðin er haldin af vinum okkar í Ský. Simon hvetur fólk til að stoppa við og spjalla við okkur.
Á laugardaginn verður flott dagskrá og fullt af sýningarbásum með nýjustu tækni og tölvum. CCP mun kynna nýjan leik DUST514, hægt verður að prófa að forrita á staðnum og það verður í boði að spila leikinn Minecraft á Raspberry Pi tölvunni. Microsoft á Íslandi stendur að baki APPmessu, þar sem besta íslenska appið verður valið og besta hugmyndin að nýju appi. Atli Stefán Yngvason, ritstjóri Simon (ég) verður einn af dómurum í APPmessunni ásamt Halldóri Jörgensson, Rósu Stefánsdóttir (meðlimur Simon) og kollega okkar Árna Matt (mbl). Sigurverarnir fá að launum glænýjan Nokia Lumia 920.
Simon (við Axel Paul aðstoðarritstjóri og Kristján Thors meðstofnandi) verður auðvitað að tísta á fullu báða dagana undir nafninu @simon_is. Endilega takið þátt með okkur í umræðunni. Hægt er að fylgjast með henni með merkinu #UTmessan